Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, formaður AUS
Í grein sem birtist í Kjarnanum föstudaginn 28. nóvember fjallar Konráð Guðjónsson um sjálfboðatúrisma: „Hundruð þúsunda ósérhæfðra ungmenna frá Vesturlöndum auk annarra fara á hverju ári út um allan heim til að leggja sitt að mörkum í þróunarlöndum, oftar en ekki með því að kenna, byggja skóla eða aðstoða á munaðarleysingjaheimilum.” Hann heldur áfram: „Í fljótu bragði virðist þetta vera göfug og óeigingjörn leið til að hjálpa fátækasta fólki heimsins. Staðreyndin er því miður sú að í fæstum tilfellum er málið svo einfalt og í mörgum landanna er sjálfboðatúrismi beinlínis skaðlegur, án þess að nokkur ætli sér að valda skaða.“
Sjálfboðatúrismi hefur vaxið á seinustu árum og er það miður skemmtileg staðreynd. Það eru hins vegar alls ekki öll sjálfboðastörf sjálfboðatúrismi. Þar sem Konráð nefnir samtökin AUS í þessu samhengi tel ég mig knúna til að sýna fram á að það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum.
Sjálfboðastarf sem óformleg menntun
„AUS“ stendur fyrir Alþjóðleg ungmennaskipti og eins og nafnið gefur til kynna standa samtökin fyrir skiptum á ungmennum. Samtökin eru eldri en 60 ára og aðhafast í meira en 40 löndum. AUS eru rekin án allra hagnaðarsjónarmiða af ungmennum sem eru fyrrum sjálfboðaliðar. Auk þess rekur AUS skrifstofu í Hinu húsinu með tvo starfsmenn í samtals 150 prósenta stöðu. Hugsjón samtakanna eru að stuðla að fjölmenningarfræðslu, víðsýni og þátttöku ungmenna í alþjóðlegu samfélagi með óformlegri menntun. Það felur í sér að fara erlendis, helst til lengri tíma, og aðlagast nýju samfélagi með því að vera sjálfboðaliði. Þegar sjálfboðaliðinn snýr svo aftur heim getur hann miðlað þekkingu sinni, sem hann öðlaðist úti, inn í íslenskt samfélag. Að sama skapi kemur erlendur sjálfboðaliði til Íslands og fær sama tækifæri til að læra og kynnast íslensku samfélagi. Þetta snýst þannig ekki um að bjarga heiminum, eða fórna sér fyrir góðan málstað heldur snýst þetta um að læra með því að fara sem sjálfboðliði.
Í samráði við samfélagið
Í áðurnefndri grein skrifar Konráð Guðjónsson: „Í þróunaraðstoð er lykilatriði að vandað sé til verka og það sé á hreinu að allt sé gert í samráði við þau samfélög sem unnið er í.“
AUS hefur aðild að alþjóðlegum reghlífasamtökunum ICYE, International Cultural Youth Exchange. Hvert land sem hefur aðild rekur skrifstofu í sínu heimalandi og stjórnar starfseminni út frá sínu samfélagi. Innan ICYE er fjöldinn allur af samtökum og eru þau jafn mismunandi eins og þau eru mörg. Samtökin í Ghana, sem eru staðsett í ómerktri götu í borginni Accra, hafa til dæmis ekki sama tæknistig og samtökin okkar í Pósthússtræti og aðhafast því öðruvísi. Samtökin í hverju landi sjá um að finna verkefni fyrir sjálfboðaliða og hafa eftirlit og stuðning með þeim á meðan dvöl stendur.
Af hverju að borga fyrir að hjálpa?
Eins og Konráð bendir á eru ráðstöfunartekjur mismunandi eftir löndum. Það er einmitt ástæðan að íslensk ungmenni þurfa að greiða fyrir sjálfboðastarfið hjá AUS. Ein meginhugsjón AUS og ICYE er að stuðla að jafnrétti og jöfnum tækifærum burtséð frá félagslegum, fjárhagslegum og líffræðilegum aðstæðum.
Til þess að stuðla að því eru gerðir svokallaðir kvótasamningar. Þeir virka á þann hátt að Íslendingur sem ákveður að fara til Mexíkó, eins og ég gerði, greiðir miðað við verðlag á Íslandi. Á sama hátt greiðir mexíkanskur sjálfboðaliði sem kemur til Íslands miðað við verðlag í Mexíkó. Það gerir ungmennum um allan heim kleift að fara sem sjálfboðaliðar þrátt fyrir ólíkan efnahagslegan bakgrunn. Peningurinn verður svo eftir í heimalandinu og er notaður til þess að halda uppi sjálfboðaliðum í viðkomandi landi með góðu utanumhaldi.
Þessi hugsjón er mikilvæg fyrir AUS og í dag er 21 erlendur sjálboðaliði á Íslandi frá 17 löndum: Þýskalandi, Litháen, Slóvakíu, Póllandi, Sviss, Finnlandi, Austurríki, Moldavíu, Grikklandi, Mexíkó, Kosta Ríka, Mósambík, Nígeríu, Nepal, Indlandi, Bretlandi og Kenýa. Þeir eru sjálfboðaliðar í ýmsum verkefnum, aðallega félagslegum, á borð við Rauða krossinn, Ásgarð, Geðhjálp, Hjálpræðisherinn og Grund. Facebook síða sem þau halda uppi.
Að láta gott af sér leiða
Konráð veltir því fyrir sér hvort meiri hjálp felist í því að versla við löndin eða ferðast til þeirra og eyða sem mestum peningum í vörur og þjónustu. Það er góður punktur og eflir vissulega hagkerfi í þróunarlöndum. Það þýðir samt ekki að það sé eina lausnin. Ungmenni hafa oft ekki mikinn pening milli handanna. Þau hafa hins vegar þann kost að eyða þeim pening í óformlega menntun sem veitir þeim reynslu og víðsýini. Það að fjárfesta í menntun skilar ábata fyrir lífstíð.
Það eru margar leiðir til að láta gott af sér leiða. Ein þeirra er að fara í sjálfboðastarf. Þannig getur einstaklingur kynnst öðru samfélagi, lært nýtt tungumál og látið gott af sér leiða. Bæði í erlendu samfélagi sem og í íslensku. Fjölmenningafræðsla er mikilvæg, sérstaklega í einangruðu samfélagi eins og okkar. Til þess að þetta sé hægt þurfa sjálfboðaliðasamtök og fyrirtæki að kynna sér aðstæður vel, vera í góðu samstarfi við verkefnið sem sjálfboðaliðinn fer í og umfram allt undirbúa sjálfboðaliðann. Þannig getum við stuðlað að því að íslensk ungmenni fari upplýst á vit ævintýranna.
Höfundur er formaður AUS og hagfræðinemi.