Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt fram frumvarp á Alþingi um að banna kjarasamningsákvæði um forgang félagsmanna í stéttarfélögum til vinnu og greiðslu vinnuréttargjalds, sem færir launafólki ýmis réttindi, tryggingar og þjónustu. Um þetta sömdu verkalýðsfélögin og samtök atvinnurekenda fyrir löngu, í frjálsum samningum. Þetta er mikilvæg stoð þeirrar vinnumarkaðsskipanar sem við búum við á Íslandi í dag.
Þetta samkomulag á sinn þátt í að gera aðild að stéttarfélögum meiri en víðast hvar í grannríkjunum. Það hefur verið grundvöllur mikilla áhrifa hreyfingar íslensks launafólks sem á stærstan hlut í að tryggja því viðunandi launakjör og vinnuskilyrði, auk ýmissa lífskjaratrygginga í íslenska velferðarkerfinu.
Þessi herferð Sjálfstæðisflokksins markar því tímamót, enda vegur hún gróflega að möguleikum launafólks til að tryggja sér viðunandi lífskjör. Raunar má segja að flokkurinn sem áður þóttist vera flokkur allra stétta hafi nú komið út úr skápnum og opinberað sitt innra eðli.
Er hann þá flokkur samkynhneigðra? Nei.
Flokkur ríkustu 10 prósentanna
Sjálfstæðisflokkurinn stígur nú fram sem flokkur atvinnurekenda og fjárfesta, ríkustu 10 prósentanna, sem jafnframt vinnur gegn hagsmunum hinna 90 prósentanna, þorra launafólks. Markmið hans er að veikja samtök launafólks, grafa undan samtakamætti verkalýðshreyfingarinnar. Til að fegra þessa aðför að hagsmunum launafólks segja Sjálfstæðismenn að þetta sé gert í nafni „frelsis". En það er hið mesta öfugmæli.
Samstarf aðila um lífeyrissjóðina og skylduaðildina sem þeir byggja á og hin sameiginlega stjórnskipan atvinnurekenda og launafólks sem þar hefur ríkt kæmi til endurskoðunar. Það sama myndi gilda um margvísleg önnur samstarfsverkefni.
Stöðugleika ógnað
Halda menn að svona breyting myndi auka stöðugleika í samfélaginu?
Nei, hún myndi stórauka átök. Og hún myndi sameina alla helstu aðila verkalýðshreyfingarinnar sem undanfarið hafa tekist á um einstök áherslumál. Þetta er risastórt sameiginlegt hagsmunamál alls launafólks sem skilur vel gildi þess að hafa áfram öflug verkalýðsfélög og samtök launafólks.
Þeir sem hafa lengi fylgst náið með stefnu og starfsemi Sjálfstæðisflokksins hafa séð þetta eðli flokksins sem auðmannaflokks ágerast frá því nýfrjálshyggjan var innleidd á Davíðs-tímanum, upp úr 1990. En það er gott að Sjálfstæðismenn hafa nú sjálfir opinberað sig sem flokk ríkustu tíundarinnar sem vinnur gegn hagsmunum hinna 90 prósentanna, öllum þorra launafólks. Blekkingin sem fólst í slagorðinu um „stétt með stétt" blasir þá við öllum.
Ætli fylgi Sjálfstæðisflokksins fari ekki fljótlega niður í 10% markið? Það væri eðlilegt fyrir hreinræktaðan flokk fámennrar yfirstéttar.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.