Um þessar mundir eru sjö ár frá því að alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust nær alveg fyrir íslenskan fjármálamarkað, og þar með bróðurpartinn af íslensku atvinnulífi. Þetta tímabil hófst með dramatískum dögum í mars og apríl 2008, þegar gengi krónunnar féll um 11 prósent á nokkrum dögum, og íslensku bankarnir, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing, hófu dauðastríð sitt fyrir alvöru.
Sjö ár er langur tími, en í um sex og hálft ár, frá því í nóvember 2008, hafa verið í gildi lög um fjármagnshöft sem stjórnmálamenn komu á eftir að bankakerfið hrundi eins og spilaborg á þremur dögum, 7. til 9. október 2008. Ástæðan var sú að óttast var að hrun bankanna, og hið algjöra vantraust á krónunni sem fylgdi, myndi ógna almannahagsmunum og bókstaflega leggja fjárhag einstaklinga og fyrirtækja í rúst, með tilheyrandi skelfilegum afleiðingum.
Þetta er rifjað upp nú, þegar stjórnvöld eru að loks að þora því að stíga fyrstu skrefin í átt að því að opna dyrnar í átt að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ekki liggur fyrir ennþá hversu stór rifan verður í upphafi, en augljóslega er langt í að höft verði afnumin að fullu, ef það gerist þá einhvern tímann.
Í bakherberginu er rætt um, hversu merkilegt er að hugsa til þess, að þrjú einkafyrirtæki hafi getað verið jafn skaðleg hagkerfi þjóðar eins og reyndin var með föllnu bankanna þrjá, Kaupþing, Glitni og Landsbankann. Vitað er að hlutafé þeirra var að megninu til fjármagnað af þeim sjálfum, langt umfram leyfileg mörk, eins og frumgögn frá þeim sjálfum sýna, en þessi hlið teningsins á tjóninu er ekki svo oft rædd. Bankarnir eru ennþá eins og krabbamein á hagkerfinu, jafnvel þó þeir séu ekkert annað en slitabú, sex og hálfu ári eftir að þeir hrundu, og óralangt er enn í það að skaðinn sem rekja má til hruns og hörmulega óábyrgs reksturs þeirra, verði lagaður.
Það er kannski ekki upplífgandi að minna á þetta sjö ára afmæli einangrunar, en við skulum vona að það líði ekki önnur sjö ár...