Skammgóður vermir endurtekinn? Opna til að loka, aftur?

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, skrifar um þá ákvörðun stjórnvalda að opna landamæri Íslands að nýju eftir 1. maí.

Auglýsing

Síðast liðið sumar tókst að útrýma Covid-19 veirunni því sem næst alveg úr íslensku samfélagi. Landsmenn gátu ferðast óhræddir innanlands, skoðað Stuðlagil og bjórböð, Skógarfoss og Blönduós. Framsýnt fólk sá fyrir sér enduropnun leikhúsa og líkamsræktarstöðva. Jafnframt byrjaði skólafólk að skipuleggja staðkennslu í september, kennurum og nemendum til mikillar gleði. Lykillinn að velgengni íslenskra sóttvarnaryfirvalda fólst í beitingu aldagamalla úrræða, smitrakningu, sóttkví og samkomutakmörkunum. Bættur skilningur á smitleiðum veirusjúkdóma og aukin og hraðvirkari tækni við greiningu smits gerði beitingu þessara aldagömlu úrræða bæði markvissari og margfalt skilvirkari en tilfellið var á tímum kóleru og bólusóttarfaraldra á öldum áður. Eyríki á suðurhveli jarðar, Ástralía og Nýja Sjáland auk nokkurra smáríkja í Kyrrahafi hafa beitt sömu aðferðafræði með frábærum árangri.

Fyrsta opnun

En Íslendingum var ekki ætlað að gleðjast yfir góðum árangri í að takmarka aðgang skaðvaldsins að landinu. Um miðjan júlí var ákveðið að falla frá kröfum um að Danir, Norðmenn, Finnar og Þjóðverjar þyrftu að undirgangast kröfur um skimun og sóttkví. Vísað var til góðrar stöðu faraldursins á Íslandi annars vegar oglítils nýgengis í löndunum fjórum hins vegar. Þeim tilmælum var reyndar beint til einstaklinga með íslenskt heimilisfang sem sneru heim frá löndunum fjórum að þeir „hefðu hægt um sig“ næstu fjórtán daga. Tilsvarandi tilmælum var ekki beint til aðila með erlenda búsetu sem komu frá þessum löndum. Óbeint var ferðafrelsi íslendinga sem frá löndunum kom takmarkað meira en átti við um erlenda þegna í eigin landi. Sem er umhugunarefni. Um þetta allt má lesa hér.

Í kringum mánaðarmótin júlí/ágúst jókst nýgengi smita mjög. Smit voru að stórum hluta rakin til erlendra ferðamanna. Einhverjir komu frá „rauðu“ landi en um „grænt“ land og „léku“ þannig á kerfið. Framhaldið ætti að vera lesendum í fersku minni. Óhaminn veldisvöxtur smita frá miðjum september fram í miðjan október og síðan hægfara fækkun uns nýgengi komast á „ásættanlegt stig“ í desemberbyrjun. Flest dauðsföll á Íslandi vegna sjúkdómsins á Íslandi urðu á þessu tímabili. Síðan hefur smám saman dregið úr samkomutakmörkunum, líkamsræktarstöðvar hafa opnað í hálfa gátt, háskólar leyfa sér að halda staðpróf, veitingastaðir og bjórkranar í varfærinni opnun. Við göngum enn með grímur svona mest til að minna okkur á að veiran ræður ríkjum „þarna fyrir utan“.

Auglýsing
Nú, þegar liðnar eru 3 vikur af mars er staðan sú að afar fá innanlandssmit hafa greinst í tvo og hálfan mánuð. Tilefni er til frekari tilslakana á samkomutakmörkunum innanlands. Landsmenn geta farið að horfa á dagatalið og hringja í sveitahótelin og skipuleggja sumarferðina með fjölskyldunni. Það getur svo aukið bjartsýni að undir lok sumars gæti þekjun bólusetninga innanlands verið orðin nægjanlega víðtæk til að koma í veg fyrir möguleika sjúkdómsins til að breiðast út samkvæmt lögmálum veldisvaxtarins. Þess í stað verður Covid-19 sjúkdómurinn á pari við mislinga og rauða hunda. Alvarlegur fyrir óbólusetta, en ekki ógn við lýðheilsu. „Öfundsverð staða“ fyrir almenning í landinu. Þeir einu sem geta með nokkrum rétti verið með ósáttir vegna þessa ástands eru stór-rekstraraðilar í flutningi ferðamanna og söluaðilar gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þó verður ekki séð að opnun landamæra yrði þeim til framdráttar ef vel er að gáð eins og rakið verður hér á eftir.

Önnur opnun?

Áhlaupsgeta faraldursins ef svo má segja er háð útbreiðslu ónæmis meðal almennings. Ónæmi ávinnst annað tveggja með smitun eða með bólusetningu. Áhlaupsgeta faraldursins er óhjákvæmilega há á Íslandi enn um hríð. Ágiskanir heilbrigðisyfirvalda varðandi aðgang að bóluefni ganga út á að hjarðónæmi verði náð eftir mitt sumar. Sú staða að vera með fá smit þó hjarðónæmi sé ekki náð skapar Íslandi margháttaðan ávinning. Nú hafa t.d. komið upp tilvik aukaverkanna tengd einni bóluefnategundinni. Heilbrigðisyfirvöld í Evrópu meta stöðuna svo að notkun þess bóluefnis spari fleiri lífsár vegna færri Covid dauðsfalla en hugsanlega töpuð lífár vegna mögulegra aukaverkana-dauðsfalla. Niðurstaða þess reikningsdæmis er að betra sé að sprauta en ekki. Útkoma sama reikningsdæmis á Íslandi er þveröfug. Vegna góðrar smitstöðu „kostar“ lítið sem ekkert í formi hugsanlega tapaðra lífsára að hinkra við og fresta notkun viðkomandi bóluefnis uns full viss er orðin um aukaverkanirnar.

Þrátt fyrir hina öfundsverðu stöðu Íslands hafa stjórnvöld ákveðið að draga úr aðgæslu á landamærum frá og með 1. maí n.k. Meginreglan hefur verið tvöföld sýnataka með fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. maí munu bólusettir og þeir sem hafa öðlast mótefni með sýkingu geta framvísað vottorði. Það er þrautreynd aðferðafræði og byggir á áratuga hefð þó Evrópubúar hafi almennt ekki þurft að framvísa slíkum vottorðum nema þegar farið er útfyrir álfuna. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að íbúar sem koma frá „grænum“ og „gulum“ svæðum innan Schengen svæðisins geti gengist undir fyrri sýnatökuna á heimavelli og þá síðari við komu til Íslands. Þessi aðferðafræði þverbrýtur grundvallaratriði gildandi reglu sem eru að ferðalangar séu í sóttkví milli skimana. Hér er þvert á móti forsendan sú að komufarþeginn hafi ferðast langan veg milli skimana. Fyrri aðferð gerði ráð fyrir að komufarþegi komist ekki í snertingu við smitefni milli skimana. Sú forsenda gengur ekki lengur upp. Það þarf bara að líta til ástands í Evrópu föstudaginn 19. mars til að skilja hversu absúrd þessi aðferðafræði er. Einu grænu svæði Evrópu eru Ísland og Þrændalagarfylkin í Noregi. Til að komast til Íslands frá Noregi þurfi Þrændir að fara um Osló en í Osló er nýbúið að þrengja samkomumöguleika vegna þess hversu útbreitt smit er þar þessi dægrin. Það eru því sterkar líkur á því að ósmitaður íbúi Þrændalaga á leið til Íslands væri búinn að hitta smitaða einstaklinga þegar hann kæmist í skimun í Keflavík. Ólíklegt er hins vegar að svörun við veirunni kæmi fram á þeirri skimun þar sem smitið væri líklega aðeins sólarhringsgamalt!

Auglýsing
Smitvarnir sem nú er beitt fela í sér margháttaða takmörkun á frelsi fyrirtækja og einstaklinga: Nálægðarmörk eru nýtt hugtak sem allir hafa þurft að læra, fjöldatakmörkunum er beitt í opinberum rýmum og í einkarými. Grímuskyldu hefur verið komið á. Skíðasvæði, líkamsræktarstöðvar og leikhús mega aðeins nýta hluta þess rýmis sem tiltækt er fyrir gesti. Og erlendir ríkisborgarar hafa ekki átt sama rétt á aðgangi að landinu og fyrir Covid. Talsmenn ríkisstjórnarinnar bera fyrir sig nauðsyn þess að draga úr þessum frelsisskerðingum þrátt fyrir gang veirunnar í heiminum, m.a. með því að rýmka aðgang erlendra aðila búsettra á „grænum“ og „gulum“ svæðum að landinu. Rétt er það að opnun landamæra mun auka frelsi erlendra ríkisborgara til að koma til Íslands. En við það eykst réttur íslenskra ríkisborgara ekkert, nema síður sé. Reynsla opnunarinnar í júlí 2020 bendir til þess að uppúr miðjum maí gæti þurft að herða enn á samkomutakmörkunum, fækka gestum í rýmum niður í 10-15 og taka upp harða útgáfu af 2 metra reglunni, fyrirskipa lokun veitingastaða klukkan 20:00 eða 21:00 á kvöldin í stað 22:00 eins og nú er. 

Um miðjan maí gæti því þessi meinta frelsisaukandi aðgerð hafa takmarkað frelsi venjulegra Íslendinga verulega frá því sem nú er. Einn talsmaður ríkisstjórnarinnar svaraði áhyggjum þessu tengd í Kastljósi 18. mars á þá leið að við þyrftum að halda uppi samkomutakmörkunum og sprittun og öðrum takmörkunum til að takmarka útbreiðslugetu veiru sem kynni að berast með erlendum ferðamanni til landsins eftir 1. maí. Þ.e.a.s. sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar telja í lagi að takmarka frelsi Íslendinga til að auka frelsi erlendra aðila til að koma til Íslands! Það verður stundum skrítið hugtak, frelsishugtakið! Talsmenn ríkisstjórnar og ferðaþjónustu telja einnig að aukin opnun landamæra 1. maí geti dregið úr áhættu á gjaldþrotum fyrirtækja í ferðaþjónustu. Sú röksemd fellur um sjálfa sig ef opnunin verður til þess að fjölga innlendum smitum þannig að Ísland hætti að vera grænt á Covid-landakortum! Ennfremur er til þess að líta að nú leggja bæði Bretar og Bandaríkjamenn talsverðar hindranir í veg eigin þegna sem vilja ferðast til útlanda. Þannig þarf Bandaríkjamaður fer kemur erlendis frá að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi yngra en 72 tíma gamalt við komu til USA. Breti sem snýr heim eftir ferðalag þarf einnig að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi auk þess sem viðkomandi þarf í flestum tilfellum að dvelja ákveðinn tíma í sóttkví. Ef land er rautt þarf viðkomandi að kaupa dvöl á sérstöku sóttkvíarhóteli. Flest ríki leggja mikið upp úr að eigin þegnar haldi sig við ferðalög innanlands í sumar. Hugsanlega munu einhver þeirra ganga svo langt að leggja tæknilegar hindranir í veg þegna sinna sem íhuga utanlandsferðir. Hvað á lítið land að gera við slíkar aðstæður? 

Galopin landamæri fyrir óbólusetta gætu hugsanlega fjölgað ferðamönnum eitthvað tímabundið. Af því gætu einhverjir haft tekjur, tímabundið. Galopin landamæri gagnvart óbólusettum stóreykur líkur á fjórðu bylgju faraldurs á Íslandi. Tekjutap sem myndi fylgja fjórðu bylgjunni yfirskyggir mögulegan ávinning af opnun. Er ástæða til að gera slíkar tilraunir í nafni einnar atvinnugreinar og á kostnað allra hinna? 

Höfundur er prófessor í hagfræði.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar