Covid-19 og byrðar kynslóðanna

Þorsteinn Kristinsson skrifar um ólíkar byrðar kynslóðanna þegar kemur að Covid á Íslandi og horfir jafnfram til Taívan og Nýja Sjálands.

Auglýsing

Á Íslandi hefur verið nokkuð breið samstaða um að halda Covid faraldrinum í skefjum, þótt ýmislegt hefði mátt betur fara. Það væri enda með nokkrum ólíkindum ef fámenn eyja eins og Ísland myndi ekki nýta sér þá sérstöðu sem landfræðileg lega hefur upp á að bjóða – líkt og Taívan, Nýja-Sjáland og fleiri eyríki hafa gert með góðum árangri. 

Hins vegar hefur farið lítið fyrir umræðu um þær ójöfnu byrðar sem ólíkar kynslóðir Íslendinga hafa mátt bera vegna faraldursins. Þetta kemur nokkuð á óvart. Það má nefnilega segja að forgangsröðun stjórnvalda á Íslandi hafi verið fremur óvilhöll ungu fólki. 

Opin landamæri, lokaðir skólar

Ísland er meðal þeirra landa í heiminum sem er hvað best í stakk búið til að takast á við faraldur af þessu tagi. Líkt og önnur eyríki – og ólíkt flestum öðrum stöðum – er á Íslandi raunhæfur möguleiki á að útrýma Covid smitum úr samfélaginu og losa í kjölfarið takmarkanir innanlands. Það hefur enda tekist, að minnsta kosti tvisvar. 

Þrátt fyrir þessa góðu stöðu hafa framhalds- og háskólanemar á Íslandi þurft að þola skerta kennslu og lokaða skóla svo mánuðum skiptir síðasta árið. Framhaldsskólum var að mestu lokað í mars á síðasta ári og voru í fjarkennslu út önnina. Þeir opnuðu aftur síðasta haust, en vegna smita í kjölfar opnunar landamæranna var þeim gert að skella aftur í lás eftir nokkrar vikur. Framhaldsskólanemar máttu síðan í kjölfarið þola fjarkennslu meira og minna allt síðasta haust. Í háskólum var staðan enn verri. Þar var nemendum fyrst hleypt inn í kennslustofurnar aftur fyrir nokkrum vikum síðan, hafandi verið í fjarkennslu meira og minna í heilt ár.

Auk skólahalds, hefur félagslíf og íþróttastarf verið meðal þeirrar starfsemi sem hefur lotið hvað mestum takmörkunum síðasta árið. Eðli málsins samkvæmt kemur þetta verst niður á ungu fólki. Þessar þungu byrðar sem hafa verið lagðar á ungt fólk á Íslandi eru í engu samræmi við þá möguleika sem voru fyrir hendi. Íslenskum ungmennum hefur verið boðið upp á skert lífsgæði langt umfram það sem gerst hefur í þeim löndum sem eru í svipaðri stöðu og við. 
Í Taívan hefur skólastarf haldist meira og minna óraskað í gegnum allan faraldurinn. Vetrarfrí í skólum var lengt um tvær vikur í byrjun febrúar á síðasta ári, á meðan stjórnvöld náðu stjórn á faraldrinum, en síðan þá hafa skólar starfað án teljandi takmarkana. Svipaða sögu er að segja af Nýja-Sjálandi. Þar var öllu lokað til skamms tíma síðasta vor í svokölluðu „lockdown“ til að kveða faraldurinn í kútinn. Eftir að það hafði tekist opnuðu skólar að nýju og hafa að mestu verið opnir síðan. 

Stjórnvöld í Taívan og Nýja-Sjálandi tóku ákvörðun um að þétta varnir á landamærunum og varðveita þannig árangurinn innanlands. Þetta stóð til boða á Íslandi líka. Í byrjun síðasta sumars var Ísland í sömu stöðu og Taívan og Nýja Sjáland. Það þarf ekki að rekja þá sögu í smáatriðum hér, en á Íslandi var á þeim tímapunkti ákveðið að opna landamærin og glutra þannig niður þeim árangri sem hafði náðst. 

Afleiðingin var sú að skólaganga þúsunda ungmenna raskaðist í hálft ár í viðbót. Heill árgangur ungs fólks eyddi sinni fyrstu önn í framhaldsskóla við stofuborðið heima fyrir framan tölvuna, án þess að hitta skólafélaga sína. Þetta þurfti ekki að vera þannig. 

Langtímaaðgerðir og „pólitískur ómöguleiki“

Til að bæta gráu ofan á svart, hafa haustið og veturinn einnig einkennst af aðgerðum sem setja ungt fólk í síðasta sæti. Í stað þess að fara í snarpar og ákveðnar aðgerðir til að útrýma veirunni, ákváðu íslensk stjórnvöld að notast við vægari „langtímaaðgerðir“ – aðgerðir sem bitna fyrst og síðast á ungu fólki. 

Okkur er ítrekað sagt að það sé „pólitískur ómöguleiki“ að innleiða strangar takmarkanir til að hemja faraldurinn – jafnvel til skemmri tíma – líkt og var gert á Nýja-Sjálandi. Jafnframt virðist það vera „pólitískur ómöguleiki“ að tryggja landamærin með viðunandi hætti, líkt og fyrrnefnd lönd hafa gert með góðum árangri. Hinsvegar virðist enginn „pólitískur ómöguleiki“ fólginn í því að hamla skólahaldi, íþróttum og skemmtana- og félagslífi ungs fólks svo mánuðum skiptir. 

Enn og aftur: Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta er spurning um forgangsröðun og pólitískt val. 

Auglýsing
Til að toppa þetta hefur það litla sem eftir er af íþróttum og skemmtanalífi ungs fólks verið kennt um þegar illa fer. Landamærin eru míglek, eins og við heyrum í fréttum dag eftir dag, og auðvitað er það þaðan sem ný smit berast inn í landið. Engu að síður er ekkert hik á Þórólfi þegar hann segir okkur, enn og aftur, að síðastu bylgju megi rekja til þess að fólk fór á barinn og gerði sér glaðan dag. „Hún byrjaði akkúrat við slíkar aðstæður, á krám, í veislum og partíum þar sem fólk passaði sig ekki nóg.“

Gott og vel. En það sem vantar í söguna hjá Þórólfi, er að veislur og partístand eru daglegt brauð í Taipei og Kaohsiung, Auckland og Christchurch – og hafa verið mest allt síðasta ár án þess að því fylgi nein sérstök hætta. Því þar hafa yfirvöld forgangsraðað öðruvísi. 

Eyríki eins og Ísland, Nýja-Sjáland og Taívan hafa um tvo kosti að velja í þessum faraldri: Opin landamæri og lokað samfélag. Eða ströng landamæri og frjálst samfélag. Taívan og Nýja Sjáland hafa valið síðari kostinn og sýnt að sú leið er vel fær. Við getum valið þá leið líka. 

Árangrinum fórnað – taka tvö

En í stað þess að læra af reynslunni, stefnir Ísland í þveröfuga átt. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók af allan vafa um það að nú verði aftur létt á takmörkunum á landamærunum í Kastljósi þann 15. mars sl. Frá og með 1. maí mun fólk frá svokölluðum grænum og appelsínugulum svæðum ekki þurfa að hlíta fimm daga sóttkví og seinni skimun að henni lokinni. Sama dag og Svandís mætti í Kastljósið, greindust þrír einstaklingar með Covid-19 í seinni skimun, þrátt fyrir að hafa verið með neikvætt PCR próf og greinst neikvæðir í fyrri skimun við komuna til landsins. Það er því alveg ljóst í hvað stefnir.

Eftirlit með landamærunum er of veikt eins og er, líkt og ítrekuð smit síðustu daga hafa sýnt. Landamærin eru ótraust, og lítið þarf til að hrinda af stað nýrri bylgju með tilheyrandi lokunum. Við stöndum sífellt á bjargbrúninni og treystum á heppnina. En ef þessar opnanir á landamærunum ná fram að ganga, er beinlínis verið að hrinda okkur fram af. Það segir sig sjálft að þessar fyrirætlanir fara ekki saman við þá stefnu að halda landinu veirufríu. Þessi leið var fullreynd síðasta sumar og við þekkjum árangurinn. 

Það er með nokkrum ólíkindum að þetta skuli standa til núna á lokametrunum í Covid faraldrinum, þegar fullnaðarsigur á plágunni er í augsýn. Og þetta er enn eitt dæmið um að hagsmunum ungs fólks sé kastað fyrir róða. Það eru nefnilega yngri kynslóðirnar sem eru síðastar í röðinni þegar kemur að bólusetningum. Tímasetning þessara tilslakana er áhugaverð í þessu ljósi. Viðhorf stjórnvalda virðist vera það, að nóg sé að bólusetja fólk á miðjum aldri og upp úr, og síðan megi þetta bara skella eins og flóðbylgja á okkur hinum. 

Yngri kynslóðir hafa borið hitann og þungann af sóttvarnaraðgerðum á Íslandi síðasta ár. En núna, þegar bólusetningar eru í fullum gangi og endirinn er í augsýn, á að opna landamærin aftur og láta Covid vaða yfir unga fólkið – með bæði alvarlegum og ófyrirséðum afleiðingum fyrir heilsu þeirra. Í stað þess að nýta þau forréttindi sem Ísland býr við og sigla sigrinum alla leið heim, virðist eldri kynslóðin ætla að fórna þeirri yngri þegar hún er búin að bólusetja sjálfa sig.

Höf­undur er dokt­or­snemi í alþjóða­stjórn­málum við Háskól­ann í Lundi Sví­þjóð.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar