Skipulag borgar og bæja í fortíð og framtíð

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir segir að um leið og við þurfum að miða skipulag framtíðarbæja út frá ýmsum áskorunum sé ekki síður mikilvægt að við gefum okkur ráðrúm til að velta fyrir okkur hvernig samfélagsumgjörð okkur finnst eftirsóknarverð og ákjósanleg.

Auglýsing

Fyrir réttum hundrað árum, 27. júní árið 1921, staðfesti ríkisráð Íslands fyrstu lög um skipulagsmál hér á landi, lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Þau fólu í sér skyldu til að vinna skipulag fyrir kauptún og sjávarþorp sem fullnægði vexti þeirra til næstu 50 ára. 

Þessi tímamót gefa tilefni til að horfa yfir farinn veg, yfir fyrstu öld formlega skipulagðrar byggðar hér á landi, en ekki síður til að velta fyrir sér hvað eigi að ráða för við skipulag byggðar til framtíðar.  

Fyrsta skipulagsöldin  

Hugmyndir okkar um hvað gerir bæi og hverfi góð og eftirsóknarverð til búsetu og dvalar endurspegla gildismat og þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Fyrir hundrað árum hverfðust áherslur í skipulagsmálum um höfnina sem þungamiðju atvinnulífs og útgangspunkt fyrir vöxt og viðgang bæja. Á þeim hundrað árum sem liðin eru hafa komið til aðrir þættir sem hafa haft mótandi áhrif á  borg og bæi – almenn hagsæld og fólksfjölgun, breyttir atvinnuhættir, neyslumenning, aukinn frítími, tækniframfarir í húsbyggingum og ekki síst einkabílinn. Með töluverðri einföldun má segja að viðfangsefni fyrstu skipulagsaldarinnar hafi verið að færa Ísland inn í nútímann og búa þrívíða fýsíska umgjörð um borgaralegan lífsstíl með viðamikilli uppbyggingu bæja og borgar, hafna, vega og virkjana og svo mætti áfram telja. 

Auglýsing

Viðfangsefni og áskoranir okkar tíma  

Nú er öldin önnur. Veruleiki skipulagsmála nú og til næstu ára og áratuga er talsvert annar en sá sem var forgrunnur skipulagsgerðar lengst af á liðinni öld. Samfélagssamtalið um þróun og útfærslu byggðar og bæjarrýma þarf því að taka útgangspunkt í öðrum breytum og öðrum hreyfiöflum en áður: 

  • Í mannfjölda sem er hlutfallslega að eldast og tekst í auknum mæli á við lífsstílstengda sjúkdóma. Og í mannfjölda sem verður smám saman fjölmenningarlegri. Þetta eru breytingar sem vinna þarf með við hönnun og útfærslu hverfa og samgangna, sem og einstakra bygginga og bæjarrýma, til að allir fái kost á að njóta sín og leggja af mörkum til nærsamfélagsins, til að stuðla að félagslegri blöndun og til að öllum sé tryggt heilnæmt umhverfi og góð tækifæri til hreyfingar og útiveru í daglegu lífi.  
  • Í fjórðu iðnbyltingunni sem felur í sér flutning okkar í svo mörgu tilliti úr raunheimum yfir í netheima og mun hafa gríðarlega mikil áhrif á skipulag byggðar – á nýtingu húsnæðis, á fyrirkomulag og rýmisþörf samgangna og á mannlíf í borg og bæ.  
  • Og síðast en ekki síst í loftslagsvánni, sem við þurfum að draga úr allt hvað við getum með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landi og bregðast um leið við afleiðingum loftslagsbreytinga, eins og hækkun sjávarborðs og öfgum í úrkomu, með viðeigandi útfærslu byggðar og bæjarrýma.  

Allt eru þetta atriði sem við þurfum að tryggja að skipulagsgerð setji á oddinn á komandi árum. Bæði getum við með viðeigandi skipulagsákvörðunum stýrt þróun í farsæla átt, svo sem með göngu- og hjólavænu skipulagi og með því að huga að góðum og viðeigandi útfærslum fyrir til dæmis fjarvinnustöðvar og deilisamgöngur. Einnig getum við tekið á þessum efnum með því að vinna að því að byggðin hafi viðnámsþrótt gagnvart breytingum, svo sem með því að húsnæði sé sveigjanlegt gagnvart ólíkri nýtingu á líftíma sínum og með því að byggð og bæjarrými getið tekist á við aftakaúrkomu, til dæmis með sjálfbærum ofanvatnslausnum. 

Undanfarið rúmt ár hefur reynst vera nokkurskonar tilraunaverkefni í að takast á við sumar af þessum áskorunum nútíðar og framtíðar. Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 færðu okkur dýrmæta lærdóma um það hvað gæði húsnæðis og nærumhverfis skipta okkur miklu máli, sem og að öll heimsins fjarvinna, netverslun og netviðburðir koma aldrei að fullu í staðinn fyrir mannlega nánd og samskipti. Maður er manns gaman. 

Lífið í framtíðarbænum 

Um leið og við þurfum að miða skipulag framtíðarbæja út frá framangreindum viðfangsefnum og áskorunum er ekki síður mikilvægt að við gefum okkur ráðrúm til að velta fyrir okkur hvernig samfélagsumgjörð okkur finnst eftirsóknarverð og ákjósanleg. Hvaða kröfur gerum við til bygginga, bæjarrýma, gatna og stíga? Hverjir eru okkar draumar, væntingar og vonir um framtíðarbyggðina? Hvernig byggð og bæjarrýmum líður okkur vel í og sjáum fyrir okkur sem umgjörð um daglegt líf okkar, barnanna okkar, barnabarnanna og barnabarnabarnanna? 

Greinaröð í tilefni aldahvarfa í skipulagsmálum 

Við þessi skipulagslegu aldahvörf er tilvalið að efna til slíkrar umræðu. Við á Skipulagsstofnun höfum leitað til góðs hóps fólks, leikra og lærðra, til að leggja okkur lið við það. Afrakstur þess mun birtast í greinaröð þar sem greinarhöfundar úr ólíkum áttum – arkitektúr, borgarhönnun, bókmenntum, myndlist, skipulagsfræði, verkfræði og fleiru – munu velta fyrir sér mannlífi í hinu byggða umhverfi frá ýmsum hliðum. Greinarnar munu birtast reglulega fram eftir afmælisárinu á Kjarnanum og á vefmiðlum Skipulagsstofnunar. Þar munu án efa verða settar fram hugmyndir, pælingar og sjónarhorn sem gagn verður af fyrir skipulagsumræðu komandi ára. 

Höfundur er forstjóri Skipulagsstofnunar.

Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.   

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar