Undirritaður birti grein í Kjarnanum þann 3. júlí sl. þar sem gagnrýnd var einhliða umræða um ágæti ríkisstyrktrar nýskógræktar til að ná markmiðum i loftslagsmálum, þ.e. um bindingu kolefnis. Bent var á endurheimt votlendis og aðra vistheimt – aðferðir sem miða að því að endurskapa sams konar eða sambærileg gróðurlendi og spillst hafa – sem mildari, nærtækari og líklega ódýrari leiðir til að ná þessum markmiðum.
Pétur Halldórsson svarar í Kjarnanum þann 21. júlí sl. í ágætri grein sem þó afflytur sumt og skautar fram hjá öðru. Ég ætla mér ekki að hefja langa ritdeilu um skógrækt á síðum Kjarnans en langar þó að skerpa á nokkrum atriðum sem gætu skýrt þann ágreining sem uppi er og hefur verið um umfang og eðli skógræktar á Íslandi.
Um hvað snýst deilan?
Við Pétur erum sammála um að landkostir Íslands eru enn langt frá þeim sem blöstu við landnámsmönnum forðum, þótt viðsnúningur hafi orðið til hins betra í gróðurfari landsins undanfarna áratugi. Við erum líka sammála um að allir skógar eru til margra hluta nytsamir, svo sem til að binda jarðveg og kolefni, miðla vatni og næringarefnum, skapa skjól o.fl.
Deila náttúruverndara (ég vona að ég tali fyrir munn margra þeirra) og skógræktarmanna snýst því fyrst og fremst um nálgun og ekki síst skýra aðgreiningu nytjaskógræktar eða plantekruskógræktar með aðfluttum stórvöxnum tegundum og endurheimtar birkiskóga. Íslendingum hefur verið seld sú hugmynd, sem að miklu leyti byggir á samviskubiti vegna fyrri umgengni við landið, að allur skógur sé af hinu góða. Ég held því hins vegar fram að plantekruskógrækt í úthaga geti verið í beinni andstöðu við náttúruvernd. Berangurinn, ásamt hinu upprunalega lágstemmda gróðurskrúði landsins, með birki og víði sem helstu viðartegundir, skapar okkur sérstöðu sem er afar mikils virði og við megum ekki henda frá okkur umhugsunarlaust.
Áhrif skógræktar á land og lífríki koma ekki að fullu fram fyrr en mörgum áratugum eftir gróðursetningu. Um skógrækt gildir því hið fornkveðna að í upphafi skyldi endinn skoða. Stefna og markmið þurfa að vera skýr og ásættanleg fyrir þorra landsmanna.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_31/43[/embed]
Skógræktarstefna ríkisins var samþykkt 2013. Stefnan var unnin af skógræktarfólki eingöngu, þótt almenningi hafi vissulega gefist kostur á athugasemdum. Engir gróðurvistfræðingar (aðrir en skógfræðingar), jarðfræðingar, fornleifafræðingar eða landslagsarkitektar tóku þátt í gerð stefnunnar. Enginn gætti hagsmuna innlendrar og alþjóðlegrar náttúruverndar, ferðamennsku, hefðbundins landbúnaðar eða þjóðmenningar.
Meginmarkmið stefnunnar er að skógarþekja landsins vaxi á næstu 100 árum tífalt frá því sem nú er, fari úr 1,2% á landsvísu í 12%. Athygli vekur að ekki er tekið fram hvert hlutfall birkiskóga á að vera í þessari auknu skógarþekju miðað við nytjaskóga með aðfluttum tegundum. Tólf prósent þekja á landsvísu gæti virst hófleg en hún samsvarar þó 25–30% af láglendi landsins undir 400 m hæð. Þar sem sumir landshlutar henta illa til skógræktar þarf skógarþekja á öðrum láglendissvæðum að fara mun hærra en þetta til að ná 12% markinu. Skógar af þeirri stærðargráðu myndu algerlega umbylta ásýnd og lífríki landsins frá því sem nú er.
Mörgum spurningum er ósvarað. Gerir almenningur sér fulla grein fyrir þeim feiknarlegu áformum sem skógarstefnan felur í sér? Á hvernig landi á að rækta allan þennan skóg? Hvað hverfur í staðinn? Hvað hverfur mikið af lyngmóum, fléttumóum, berjalautum, mýrum, deiglendi, blómlendi, engjum, melum, vikrum o.s.frv.? Hver er núverandi þjónusta þeirra gróðurlenda og landgerða sem hverfa (ferðamennska, upplifun, nytjar)? Hvað verður um mó- og vaðfuglana? Hvaða áhrif hefur fyrirhuguð umbylting gróðurfars og landslags á ferðamannastraum til landsins? Og þannig má áfram telja.
Skógarstefnan og lög um landshlutabundin skógræktarverkefni byggja ekki á neinni heildstæðri greiningu eða mati á þeim þáttum sem nefndir eru hér að framan. Þótt leiða megi líkur að 25-30% þekju birkiskóga og kjarrlendis við landnám hefur ýmislegt breyst síðan. Fjölmargar kynslóðir Íslendinga hafa vaxið upp við skógleysi. Nú er berangurinn hluti af þjóðarvitund okkar til góðs eða ills. Nú leggja borgir og bæir, vegir, ræktarlönd og lón undir sig stór svæði á láglendi. Sumar landgerðir, svo sem nútímahraun, eru vernduð að lögum. Ísland er orðið ferðamannaland og ferðamenn koma fyrst og fremst vegna sérstakrar náttúru landsins. Engu máli skiptir fyrir þá hvort náttúran sem við augum blasir er upprunaleg eða afleiðing fornra búskaparhátta.
Ekkert alvörumat hefur verið lagt á þessa hluti. Er eðlilegt að skógræktarmenn einir ráði ferðinni í svo stóru máli? Er eðlilegt að hið opinbera leggi nær umræðulaust stórfé í verkefni sem umbyltir ásýnd og lífríki landsins?
Mismunandi skógrækt
Í ofangreindri stefnumörkun, og í lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni, er enginn afgerandi greinarmunur gerður á nytjaskógrækt annars vegar og endurheimt birkiskóga hins vegar. Þarna er þó reginmunur á. Plantekruskógrækt er afbrigði landbúnaðar – vísir að atvinnugrein og vissulega réttlætanleg sem slík á afmörkuðum svæðum – en endurheimt birkiskóganna er samfélagslegt náttúruverndar- og menningarverkefni sem opinberar stofnanir ættu að leggja höfuðáherslu á.
Hinu opinbera væri í lófa lagið að margfalda skógarþekju landsins með því einu að stuðla að friðun stórra landsvæða fyrir búfjárbeit. Þá vex birkiskógurinn sjálfkrafa og þarf í mesta lagi að gróðursetja stálpaðar birkiplöntur á stangli til að tryggja fræuppsprettu þar sem hún er ekki fyrir hendi. Sjálfsprottnir birkiskógar breiðast nú þegar út um friðað land, eins Pétur lýsir í grein sinni.
Neikvætt viðhorf til birkiskóga?
Tregða skógræktaraðila til að aðgreina nýskógrækt frá endurheimt birkiskóganna bendir til að vandinn liggi að einhverju leyti í neikvæðu viðhorfi þeirra til íslenska birkisins. Nýlegt plagg umhverfisráðuneytisins „Hvítbjörk - tillögur að leiðum til endurreisnar birkiskóga á Íslandi (2013)“ sem Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri tóku saman varpar ljósi á þetta:
Meðal fólks eru skiptar skoðanir um ágæti birkiskóglendis. Vel hirtir birkiskógar geta verið góðir til útivistar, en flestir eru það ekki sökum þéttleika trjánna. Skógar annarra tegunda eru ekki síður góðir til útivistar. Þá eru birkiskógar af sumum taldir til óþurftar í landbúnaði, sérstaklega þegar kemur að smölun (bls. 4).
Hér staldrar maður ósjálfrátt við. Er ekki hlutverk Skógræktar ríkisins að hirða birkiskóga sem aðra skóga? Eru þéttir og illa hirtir barr- eða blandskógar góðir til útivistar eða auðveldir í smölun?
Í viðtali við fulltrúa Skógræktarfélags Íslands, sem hefur umsjón með Landgræðsluskógaverkefninu, kom fram að erfitt gæti reynst að auka hlutfall birkis í því verkefni umfram það sem verið hefur, enda hefur það hlutfall verið mjög hátt (50-70% af gróðursettum plöntum). Stafar það einkum af áhuga viðtakenda plantnanna á aukinni fjölbreytni í tegundavali (bls. 6).
Hér er vert að benda á að skógur sem upphaflega er 50:50 blanda af birki og barrtrjám fær yfirbragð barrskógar eftir nokkra áratugi vegna þess að barrtrén vaxa birkinu yfir höfuð. Og ríkinu er í lófa lagið að setja það skilyrði fyrir styrkveitingum til landgræðsluskóga að aðeins séu notaðar upprunalegar trjátegundir. Hvers vegna er það ekki gert?
Í viðtölum við framkvæmdastjóra og starfsfólk Landshlutaverkefnanna kom fram að innan við tíu (af um 600) skógareigendur sem þátt taka í Landshlutaverkefnunum vilja eingöngu birki eða aðrar innlendar tegundir. Þó kom fram sú almenna skoðun að hægt væri að auka gróðursetningu birkis á lögbýlum ef hvatt yrði til þess og jafnframt að sumir landeigendur myndu þiggja girðingastyrki til að friða birkileifar ef þeir væru í boði. Til þess þyrfti þó að afnema þann neikvæða hvata sem felst í því að virðisaukaskattur fæst eingöngu endurgreiddur við nytjaskógrækt og/eða að bæta við nýju fyrirkomulagi styrkveitinga. Endurheimt birkiskóga gæti þá orðið sérstakt viðfang innan Landshlutaverkefnanna með sérfjárveitingu og e.t.v. öðruvísi fyrirkomulagi styrkveitinga (bls. 6).
Ekki er óeðlilegt að skógarbændur freistist til að rækta aðfluttar tegundir frekar en birki þegar svona er í pottinn búið. Spyrja má hvers vegna ekki er löngu búið að afnema ofangreindar hömlur og þvert á móti umbuna þeim sérstaklega sem vilja endurheimta birkiskógana. Þótt stórfelld skógeyðing fyrr á öldum sé notuð sem meginrök fyrir skógrækt nú virðist aukin útbreiðsla birkiskóga alls ekki í fyrirrúmi hjá opinberum skógræktaraðilum.
Skógrækt breytir ásýnd landsins og lífríki þess mismikið eftir því hvernig að henni er staðið (sjá fyrri grein höfundar frá 3. júlí sl.). Hún er því ekki áhugamál eða atvinnuvegur sem snertir skógræktarmenn eina heldur alla landsmenn til langrar framtíðar. Yfirvöld þurfa að átta sig á þessu og tryggja að fram fari víðtæk umræða og úttekt – og í framhaldi vönduð stefnumörkun – um æskilegt umfang nýskógræktar á landinu. Slík úttekt þarf að kafa dýpra en núverandi vinna við gerð landnýtingaráætlunar gerir ráð fyrir. Meðan á þessari úttekt stendur leggur undirritaður til að gert verði hlé á, eða að minnsta kosti stórlega dregið úr, gróðursetningum með aðfluttum tegundum.