Bandaríska fyrirtækið MSCHF er stundum nefnt „art collective“ og stundum „viral marketing company“. Fyrirtækið framleiðir vörur fyrir neytendur sem fyrst og fremst virðist ætlað að verða „viral“. Meðal þess sem fyrirtækið hefur framleitt er baðsápa sem er í laginu eins og brauðrist og Birkenstock inniskór sem gerðir eru úr Birken töskum.
Um síðustu helgi tilkynnti fyrirtækið um sölu á rauðum og svörtum skóm frá Nike (Nike Air Max 97) í samstarfi við rapparann Lil Nas X. Skónum hafði verið breytt frá upprunalegu útgáfunni. Á skónum var öfugur kross, orðin Luke 10:18 ásamt fleiri smáatriðum. Á hælnum var tilgteint númerið á eintakinu þ.e. af þeim 666 sem voru framleidd. Mesta athygli vakti þó að fyrirtækið fullyrti að í loftpúðanum væri einn dropi af mannablóði. Skórnir voru settir á markað samhliða því að lag tónlistarmannsins Lil Nas X, Montero (Call Me By Your Name) var gefið út á Youtube. Í myndbandi lagsins má sjá listamanninn renna á súlu frá himnaríki til helvítis og dansa við djöfulinn áður en hann hálsbrýtur hann og stelur hornunum hans. Parið kostaði 1,017 dollara. Skórnir seldust upp samstundis.
Í dymbilvikunni, tveimur dögum eftir að skórnir komu á markað, krafðist Nike þess fyrir dómi í New York að frekari sala vörunnar yrði bönnuð tímabundið. Nike hélt því m.a. fram að salan bryti gegn vörumerkjarétti fyrirtækisins, skaðaði ímynd þess og að veruleg hætta væri á því að neytendur myndu telja að varan kæmi frá fyrirtækinu. Jafnvel langt leiddir „sneakerheads“ væru í vafa um hvort skórnir stöfuðu frá Nike eða ekki.
Í vörumerkjarétti fellst m.a. réttur til að markaðssetja vöru í fyrsta sinn og auðkenna hana með vernduðu vörumerki. Í þessu tilviki upphaflegu Nike skóna sem síðan voru endurseldir af MSCHF. Almennt á það hins vegar við að eigandi vörumerkis sem hefur sett vöru á markað á tilteknu svæði getur ekki komið í veg fyrir að kaupandi vörunnar endurselji hana og vísi til vörumerkisins við þá endursölu. Í íslenskum vörumerkjarétti er þetta kallað reglan um tæmingu vörumerkjaréttar. Reglan er þó með þeirri undantekningu að eigandi vörumerkis getur bannað endursölu vörunnar af hálfu þriðja aðila sem keypti vöruna löglega hafi eigandi vörumerkisins til þess „haldgóðar ástæður“, þar á meðal ef „ástandi“ vörunnar hefur verið breytt (2. og 3 mgr 6. gr. vörumerkjalaga).
Á skírdag féllst dómstóll í New York á kröfur Nike og bannaði frekari sölu af hálfu MSCHF. Öll framleidd eintök höfðu þá þegar verið seld. MSCHF lýsti því eftir dóminn að þeir teldu ekki um hefðbundna íþróttaskó að ræða heldur væri hvert skópar sjálfstætt listaverk.
Árið 2019 bauð sami framleiðandi til sölu skó af sömu tegund sem þeir kölluðu „Jesus Shoes“. Um var að ræða hvíta Air Max 97 með litlum krossi. Framleiðandinn fullyrti að í loftpúðunum væri vatn úr ánni Jordan sem hafði verið blessað af presti í Brooklyn. Parið var selt á 1.425 dollara og þeir seldust upp.
Nike gerði ekki athugasemdir þá.
Höfundur er lögmaður sem sérhæfir sig m.a. í hugverkarétti.