Dapurlegur dagur 24. febrúar. Ömurlegur. Það berast fréttir af því að styrjöld gæti verið að brjótast út í Evrópu. Lundin þyngist hjá mörgum manninum, það dregur úr einbeitingu og lífsgleðin dofnar.
En það er ekki svo með alla. Sumir sjá ný tækifæri, eygja gróðavon. Kannski kemur Kaninn hingað aftur og opnar fyrir hermangið. Það væri nú aldeilis nokkuð.
Fyrir sex dögum, 18. febrúar sl., birtist frétt í Morgunblaðinu með svofelldum inngangi: Hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári nam 148,6 milljónum dala, jafnvirði 19,3 milljarða króna, og tæplega tvöfaldaðist á milli ára. Stjórn fyrirtækisins áformar að leggja til við aðalfund að 15 milljarðar króna verði greiddir í arð í ríkissjóð vegna síðasta árs.
Varla þarf að taka það fram að ríkið, við öll, eigum Landsvirkjun. Samt er rétt að undirstrika það; við eigum hana saman.
Fréttin af hagnaði Landsvirkjunar kitlaði hinn sísvanga spekúlant eins og við var að búast: Þarna var gróðavon, hrein og klár. Þeir veltu því fyrir sér, brallararnir, hvernig og hvenær þeir ætti að grípa gæsina. Þá missti Pútín þolinmæðina og glóruna austur í Moskvu og gekk inn í Úkraínu. Það fengum við Íslendingar staðfest í nótt eða morgun. Hann opnaði íslensku gróðafíklunum leið, hann Pútín. Og þeir hlupu af stað.
Í Fréttablaðinu í gær mátti lesa, að Guðrún Hafsteinsdóttir, (fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, markaðsstjóri Kjörís og verðandi dómsmálaráðherra) formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir ekki ólíklegt að aukin arðsemi Landsvirkjunar leiði til aukins pólitísks áhuga á blönduðu rekstrarformi fyrirtækisins. Hún telur rétt að ríkið selji stóran hlut í fyrirtækinu. „Ég tel að það komi vel til greina að selja um 30 til 40 prósenta hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna með skilyrðum,“ segir Guðrún. Hún segir að þá yrði eignarhaldið áfram hjá almenningi. „Á sama tíma má spyrja hvort ekki liggi óinnleyst arðsemi í Landsvirkjun sem væri hægt að hámarka betur á meiri samkeppnisgrundvelli,“ segir Guðrún.
Þar sem ritari þessa pistils hefur ekki burði til þess að ræða „óinnleysta arðsemi” í Landsvirkjun gerir hann það ekki, en bendir á að þessi verðandi dómsmálaráðherra hyggst beita fyrir sig marg þvældum aðferðum til þess að eignast Landsvirkjun. Önnur er sú að kynna afar umdeilanleg mál á tímum sem annað mál og hrikalegra brennur á þorra fólks. Hin er að nefna lífeyrissjóðina sem æskilega kaupendur því „að þá yrði eignarhaldið áfram hjá almenningi.” Og allir kátir nema hvað? Í framhaldinu mundu lífeyrissjóðirnir svo selja sín hlutabréf og spekúlantarnir kaupa; heimsþekkt aðferð við einkavæðingu. Auk annars er báðum þessum aðferðum ætlað að drepa málinu á dreif, kæfa umræðuna.
Daði Már Kristófersson, prófessor í umhverfis- og auðlindahagfræði og varaformaður Viðreisnar er kvaddur til umsagnar um söluna í Fréttablaðinu. Það sem eftir honum er haft hlýtur að hafa lent í prentvillupúkanum því það er nánast óskiljanlegt og verður því ekki haft eftir, en þolgóðum lesendum bent á Fréttablað gærdagsins, síðu 4. Eigi að síður er ekki hægt annað en birta eina málsgrein eftir prófessor varaformanni. Hún er svona:
„Það er varla hægt að tala eins og Landsvirkjun sé sérstaklega vel rekið fyrirtæki.”
Lesandi athugi það að að fyrirtækið skilaði 19 þúsund og 300 milljóna króna hagnaði.
Það yrðu hrapaleg afglöp ef stjórnmálin heimiluðu sölu á Landsvirkjun. En til þess að það gerist ekki þurfa þingmenn og landsmenn allir að vera vakandi um nærlendi sitt þótt þótt heitir eldar logi annars staðar um stundarsakir.
Höfundur er rithöfundur.