Þeir sem fylgjast með breskum fjölmiðlum eru alvanir fréttum, oft með miklum ólíkindablæ, af skólum sem banna hitt og þetta hverdagslega fyrirbærið í nafni pólitísks rétttrúnaðar eða fjölmenningarstefnu á villigötum. Í sumum tilvikum byggja fréttir þessar á raunverulegum dæmum, en oftar en ekki er bara hálf sagan sönn eða að um hreinar flökkusagnir er að ræða.
Ástæða þess að fréttir sem þessar eru blásnar út af fjölmiðlum er pólitísk. Slíkum fréttaflutningi er ætlað að næra þá hugmynd að samfélaginu sé stýrt af sturluðu forræðishyggjufólki sem skorið hafi upp herör gegn gömlum gildum og vilji helst banna bæði músastiga og svínakjöt. Þetta er orðræða íhaldsfólksins sem vill ekki horfast í augu við fjölbreytilegra samfélag og lítur á sérhverja breytingu sem ögrun.
Framsetning Ragnars Þórs daðrar við sömu orðræðu og fólkið sem kennir útlendingum, háværum minnihlutahópum og þeim sem ekki hafa sömu trúar- og lífsskoðanir og meirihlutinn um „vesen“ og heimtufrekju.
Ragnar Þór Pétursson, sá annars frjói og skapandi skólamaður, leitar í smiðju slíkra frétta í pistli sínum á Kjarnanum í gær. Hann tekur upp frétt úr bresku pressunni um barnaskólastjóra sem á að hafa neitað nemendum sínum um að horfa á sólmyrkvann á dögunum, að sögn, vegna þess að slíkt kynni að stangast á við menningarlegan bakgrunn einhverra barnanna. Þessi saga, sem hefur talsverðan ólíkindablæ, verður Ragnari Þór efni í veglegan strámann: Fræðsluyfirvöld í Reykjavík sem eigi að hafa viljað meina börnum að horfa á sólmyrkvann af menningar- og trúarástæðum.
Framsetning Ragnars Þórs daðrar við sömu orðræðu og fólkið sem kennir útlendingum, háværum minnihlutahópum og þeim sem ekki hafa sömu trúar- og lífsskoðanir og meirihlutinn um „vesen“ og heimtufrekju. Og svo er hún líka kolröng.
Hugsjónarmenn og regluverk
Nú þykir mér framtak Sævars og forsvarsmanna hjá Stjörnuskoðunarfélaginu vera frábært og eiga hann og félagið miklar þakkir skildar fyrir vinnu sína og eljusemi. Þar eru á ferðinni hugsjónamenn sem vilja vekja áhuga sem flestra á himingeimnum og töfrum hans og þá sér í lagi vekja fræðsluþorsta grunnskólabarna um þann magnaða heim sem við búum í. Auk þess má líta á þetta virðingarverða framtak sem góða viðbót við raungreinakennslu skólanna. Það sem hefur hins vegar skyggt á þennan skemmtilega viðburð virðist vera umræðan um gagnsemi og ætlun viðmiðunarregla Reykjavíkurborgar um gjafir til skólabarna og markaðsstarf í skólum og síðan skítkast sem Sævar og félagar fengu yfir sig frá fólki sem ekki fékk gefins gleraugu. Sitt sýnist þó hverjum um reglurnar og hafa þónokkrir látið í sér heyra að þeim þyki skömm að því að grunnskólabörn í Reykjavík fái ekki að eiga gleraugun heldur séu sólmyrkvagleraugun eign skólanna. Í einhverjum tilfellum færist hiti og tilfinningasemi í leikinn og menn uppnefna fólk, ráðast að persónu þeirra sem hafa aðra skoðun en þeir sjálfir og snúa út úr því sem er sagt. Er grein Ragnars að mörgu leyti með þeim hætti og beindist gremja hans m.a. að mér í þetta sinn. Við því vil ég bregðast.
Stendur vilji minn til þess að farið verði í víðtækt samráðsferli. Umræða undanfarinna mánaða hefur sýnt að margir hafa sterkar skoðanir á markaðsstarfi í skólum.
RÚV leitaði til mín sem varaformanns skóla- og frístundaráðs og innti eftir viðbrögðum við umræðu um að reykvísk börn fái ekki sólmyrkvagleraugu til eignar. Benti ég á að vegna tilmæla menntamálaráðuneytisins frá 2005, í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hefðu sveitarfélögin átt að setja sér viðmið um kynningar og auglýsingar í skólum vegna síaukins ágangs m.a. fyrirtækja í að afhenda skólabörnum ýmiss konar varning til eignar. Hér er kannski rétt að rifja upp að fyrir hrun veittu fyrirtæki miklu fé til markaðsstarfs og höfðu sum þeirra áhuga á að fá aðstöðu í grunnskólum til þess að koma boðskap sínum á framfæri. Vegna hrunsins breyttist ástandið svo á einni nóttu sem skýrir mögulega hvers vegna reglurnar hafa ekki verið mikið í deiglunni.
Framkvæmdasvið menntamála í Reykjavík réðst á sínum tíma í að setja sér slíkar vinnureglur sem farið hefur verið eftir hingað til. Eftir að skóla- og frístundasvið var stofnað nýlega var kallaður til þverfaglegur starfshópur skólastjóra, grunnskólakennara, frístundafræðinga, leikskólakennara og fleiri sem endurskoðuðu þær reglur sem höfðu verið í gildi frá því að menntamálaráðuneytið sendi sveitarfélögunum tilmælin. Var það líka gert vegna nýs álits umboðsmanns barna og mikillar óvissu skólastjórnenda í Reykjavík um hvernig ætti að bregðast við margvíslegum tilboðum og gjöfum á skólatíma barna og starfstíma kennara. Kallaði skólasamfélagið jafnframt eftir samræmingu og óskaði eftir einhvers konar verklagi og viðmiðum. Þegar áðurnefndur starfshópur lauk starfi sínu voru sett ákvæði um að endurskoða reglurnar að ári liðinu. Sú endurskoðun á að fara fram í ár og stendur sú vinna nú yfir. Stendur vilji minn til þess að farið verði í víðtækt samráðsferli. Umræða undanfarinna mánaða hefur sýnt að margir hafa sterkar skoðanir á markaðsstarfi í skólum.
„Pay it forward“
Í viðtalinu í hádegisfréttum RÚV benti ég einnig á að í rauninni væru reglurnar til viðmiðunar og skólastjórar ættu síðasta orðið. Vissulega eru sterk rök fyrir því að farsælast sé að skólastjórnendur í Reykjavík séu samstíga í þessum efnum þótt ekki séu allir alltaf sömu skoðunar. Ég sagðist einnig skilja bæði sjónarmiðin um að börnin fengju gleraugun til eignar og að skólarnir ættu að halda eftir gleraugunum sem kennslugagni en það væri ekki mitt að stjórna hvað yrði gert. Það liggja hins vegar margvísleg rök fyrir því að skólarnir fái gleraugun til eignar og finnast mér endurnýtingarökin og sjálfbærnihugmyndin vega þar þyngst. Gleraugun geta líka nýst sem kennslugagn þó sólmyrkvinn sé liðinn.
Ekki datt mér í hug að ég yrði ásökuð um hvítingjahroka og skilningsleysi fyrir að viðra slíka hugmynd. Hefði sólmyrkvinn næst orðið í Bristol og hefði ég tekið þann bæ sem dæmi held ég að mönnum hefði ekki þótt tilefni til að kalla mig hrokagikk.
Á Facebooksíðu minni viðraði ég síðan þá hugmynd að það gæti verið sniðugt fyrir Stjörnuskoðunarfélagið að safna gleraugunum saman (eða eftir á að hyggja kannski hver skóli fyrir sig) og senda þau á næsta stað, í næsta skóla, þar sem yrði sólmyrkvi. Google sýndi mér að næsti sólmyrkvi yrði á Súmötru og í Austur Evrópu. Ákvað ég að nefna Súmötru í Indónesíu þá sem dæmi. Hugmyndin er ekki ný af nálinni og er eins konar „pay it forward“ hugmynd. Ekki datt mér í hug að ég yrði ásökuð um hvítingjahroka og skilningsleysi fyrir að viðra slíka hugmynd. Hefði sólmyrkvinn næst orðið í Bristol og hefði ég tekið þann bæ sem dæmi held ég að mönnum hefði ekki þótt tilefni til að kalla mig hrokagikk.
Ragnar vegur ómaklega að mér í grein sinni, snýr vísvitandi út úr fyrir mér og segir að ég hafi brugðist ókvæða við og þekki ekki skömm mína. Hann lætur svo líta út að afstaða Reykjavíkur sé kjánaleg og einstaka stjórnmálamenn, sem hann telur að hafi aðra skoðun á málinu en hann sjálfur, séu skilningssljóir og vitlausir. Að mínu viti bætir slík framganga ekki umræðuna um reglur Reykjavíkurborgar.
Málefnalegri umræðu
Frumkvæði Stjörnuskoðanarfélagsins var vissulega lofsvert og tryggði það, sem mestu máli skiptir, að reykvísk grunnskólabörn fengu að njóta sólmyrkvans hvort sem gleraugun voru til einkaeignar eður ei. Það náðist líka sátt um að dreifa þeim í skólunum undir þeim formerkjum að þau yrðu eign skólanna. Nú má í sjálfu sér alveg velta því fyrir sér hvort skólarnir ættu ekki að vera meðvitaðri um slíka stórviðburði og verða sér úti um sólmyrkvagleraugun sjálfir en það kallar á enn aðra umræðu. Allt tal um eignarnám á gjöfum til barna er hins vegar langsótt.
Reglur eins og þær sem hér eru til umræðu verða ekki til uppúr þurru eða vegna ráðríkis og forræðishyggju fárra. Reglurnar áttu sér aðdraganda eins og rakið hefur verið. Þær voru unnar af ólíku fólki úr ýmsum áttum; jafnt fagfólki sem fulltrúum foreldra. Eins og alltaf eru reglurnar mannanna verk og má ræða þær, breyta þeim og bæta þær, ef tilefni þykir til. Hins vegar á umræðan ekki að snúast um einstaka persónur þar sem afstaða þeirra er afgreidd án umhugsunar með gífuryrðum og upphrópunum og jafnvel rangfærslum. Leggjumst frekar á eitt að skilja hvert annað og temja okkur kurteisi þegar við ræðum um mál sem snerta okkur flest, börnin okkar og menntun þeirra, þó að við kunnum að vera ósammála endrum og sinnum. Ræðum málefnin en sleppum ómálefnalegu skítkasti á persónur manna. Slík umræða skilar okkur margfalt meiru.
Höfundur er varaformaður skóla- og frístundaráðs.