Foreldrar mínir voru verkafólk og því hef ég fylgst með verkamannafélaginu Dagsbrún og síðar Eflingu frá því ég man eftir mér. Í upphafi voru forystumenn kempur á borð við Eðvarð Sigurðsson og Guðmund J. Guðmundsson sem maður heyrði af í fjarlægð, en við nafni minn kynntumst vel síðar. Þeir höfðu báðir pólitískt baklandi í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu.
Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kosin formaður Eflingar hafði hún ekkert bakland annað en verkafólkið sjálft. Strax eftir kjörið hófst grimmúðleg barátta Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins gegn henni og hennar baráttu fyrir bættum kjörum verkafólks. Linnulitlar árásir og óhróður um hana og verk hennar voru daglegt brauð. Dapurlegast var að fylgjast með mönnum sem lutu í lægra hald í kosningum sem gerðust nú stéttarsvikarar og réðust á Sólveigu, vegna þess að þeir voru ekki menn til að tapa kosningum.
Enn hefur Sólveig Anna ekkert bakland. Þeir flokkar sem eitt sinn kölluðu sig verkalýðsflokka eru það ekki lengur, hafa meiri áhuga á loftslagi en lifandi fólki. Nú hefur verkafólkið tækifæri til að segja sína skoðun umbúðalaust.
Komið er að mikilvægasta prófsteini þess um áratuga skeið.
Höfundur er lektor emeritus og hagfræðingur.