Kristinn Karl Brynjarsson
Fyrrum stjórnarflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, tala nú fyrir því og krefjast þess að forgangsraðað sé í þágu grunnþjónustu. Eitthvað lítið fór fyrir slíkri forgangsröðun hjá þessu fólki er það sat í ríkisstjórn.
Reyndar stóðu menn lengst af blóðugir upp fyrir axlir í niðurskurði í velferðar og heilbrigðismálum á valdatíma hinnar norrænu velferðarstjórnar. Á meðan stóðu svo fjárhirslur ríkisins galopnar fyrir eftirlitsiðnaðinn umhverfismál, menningu, utanríkismál og ýmis félagsmál. Eða í flest annað en heilbrigðis og velferðarmál.
Farið var í stórt atvinnuátak, að mati þáverandi stjórnvalda. Átak sem að mestu gekk út á það að tvöfalda framlög til listamannalauna. Framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs voru svo aukin um 498%.
Bankasýsla ríkisins og Fjölmiðlanefnd eru svo dæmi í um nýjar stofnanir frá síðasta kjörtímabili, með takmarkaða gagnsemi, en sjálfvirka útgjaldaaukningu ár frá ári.
Á meðan allt þetta gekk á var gríðarlegur halli á fjárlögum. Jafnvel mun meiri halli en fjárlög gerðu ráð fyrir. Árin 2010 og 2011 var hallinn 40 milljörðum meiri , hvort ár, en fjárlög þessara ára gerðu ráð fyrir.
Það var ekki fyrr en í fjárlögum 2013 (kosningafjárlögum velferðarstjórnarinnar) sem að heilbrigðis og velferðarmál, nutu einhverrar náðar velferðarstjórnarinnar norrænu, með auknum fjárframlögum.
Á því eina og hálfa ári sem núverandi ríkisstjórn hefur verið við völd, hafa framlög til heilbrigðismála aukist um ca. 20%, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Samhliða því sem ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi. Svo miklum að á yfirstandandi ári er afkoma ríkissjóðs 40 milljörðum betri en fjárlög gerðu ráð fyrir.
Það má því alveg segja það um þá félaga í Samfylkingu og Vinstri grænum, að þeim láti það best að krefjast þess af öðrum að forgangsraða fjármunum almennings í þágu þeirra málaflokka er við getum flest öll verið sammála um að þeim sé forgangsraðað í.
Enda virðast þessir tveir flokkar, sem á tyllidögum kenna sig við, jöfnuð, velferð og réttlæti, ekki vera færir um annað en að forgangsraða fjármunum í þágu eigin vinsælda.
Höfundur er verkamaður og á sæti í framkvæmdastjórn verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.