Viðtal við matvælaráðherra á Fréttavaktinni 17. feb. sl. vakti fyrir margt athygli. Í fréttaskýringu á Kjarnanum degi síðar eru meginatriði viðtalsins greind og vísað til orða ráðherrans um „hættulegan kokkteil viðskipta og stjórnmála“, um „að það séu of fáir sem verða of ríkir“ og „að við þurfum að taka til hendinni að því er varðar samþjöppun valds og samþjöppun auðmagns í þessu kerfi.“ Boðað var að sjást myndu merki þess að í stóli ráðherra sjávarútvegs sæti manneskja með heildar- og almannahagsmuni númer eitt og að hún sé ráðherra allrar þjóðarinnar en ekki ekki tiltekinna hagsmuna. Þetta viðhorf til hlutverks ráðherra sjávarútvegsmála er út af fyrir sig stórtíðindi. Frá setningu kvótalaganna hafa nær allir sjávarútvegsráðherrar litið á það sem sitt hlutverk að þjóna stórútgerðarinni og hafa þeir mótað framkvæmd laganna að ósk hennar með úthlutun gjafakvóta og slöku eftirliti með framkvæmd laganna.
Undantekningin og veiðigjöldin
Undantekning frá hlýðni við útgerðarvaldið var stjórnartímabili- 2009 til 2013, einkum tími Steingríms J. Sigfússonar sem ráðherra sjávarútvegsmála 2012 - 2013. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sýndi einnig af sér ákveðið sjálfstæði þótt ekki hafi reynt á það í kvótamálunum á þeim stutta tíma sem hún gegndi embættinu. Þrátt fyrir harðvítuga andspyrnu sægreifa og málsvara þeirra á Alþingi knúði Steingrímur í gegn fyrstu og einu raunverulega gjaldtöku af fiskveiðum.
Fram að þeim tíma voru veiðigjöld sýndarmennska sem nægði ekki til að greiða kostnað ríkisins af þjónustu við sjávarútveg. Þau voru innan við milljarður kr. á ári til 2009 en hækkuðu með setningu nýrra laga í yfir 10 milljarða 2012 og 2013 og hefðu hækkað í 20 til 30 milljarða á nokkrum árum hefðu þau fengið að standa óbreytt. En ný ríkisstjórn 2013 lét það vera meðal sinna fyrstu verka að stýfa þessi gjöld og síðan hefur tekist að koma þeim aftur niður fyrir það sem til þarf til að standa undir kostnaði ríkissjóðs af sjávarútvegi.
Lagasetningin frá 2012 hefur þrátt fyrir niðurrifið skilað almenningi 70 til 80 milljörðum króna á þeim tíu árum sem liðin en það er þó innan við 15% af auðlindarentu tímabilsins sem er líklega 500 - 600 milljarðar króna. Hefðu lögin staðið óbreytt hefðu þessar tekjur orðið 250 til 300 milljarðar eða um 50% af auðlindarentunni á þessu tímabili. Lækkun veiðigjalda eftir 2013 hafa því lækkað tekjur ríkissjóðs um 170 - 230 milljarða króna sem í stað þess að koma almenningi til góða söfnuðust upp í eignarhaldsfélögum útgerðaeigenda og fjárfestingum þeirra í fjármálafyrirtækjum, tryggingafélögum, olíufélögum og fasteignafélögum með trygga ávöxtun í skjóli fákeppni. Fjárhæðin svarar til þriggja eða fjögurra nýbygginga Landspítalans.
Stjórnarskráin og auðlindirnar
Engum þeirra sem nú nú sitja í ríkisstjórn er betur treystandi til að vera „ráðherra allrar þjóðarinnar og alls samfélagsins“ en ráðherra matvæla eins og hann sýndi í síðustu ríkisstjórn. En til þess þarf að taka fast á málum sem skipta almenning í landinu miklu. Ráðherrann bendir réttilega á að það að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrárna sé „algjört lykilatriði“ til að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Náttúruauðlindir hvort sem það er fiskurinn, fallvötnin eða vindurinn, eru auðlindir, “sem enginn getur átt annar en þjóðin öll.” Orð ráðherra verður að túlka svo að verið sé að tala um virkt eignarhald með tilkalli til auðlindaarðsins.
Það er ekki aðeins vegna fiskveiðanna að þörf er á að setja almenna grundvallarreglu um þjóðareign á öllum náttúruauðlindum og það þarf að gerast áður en fiskirækt verður búin að grafa sig frekar niður í farveg sjávarútvegsins og orkuvinnslu verður komið í hendur fjármagnseigenda eins og nú er boðað. Sjávarútvegurinn hefur ákveðna sérstöðu innan auðlindageirans að því leyti að lög kveða þegar á um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni.
Samþjöppun auðs og valds og hagur almennings
Ráðherrann bendir á það að stór hluti kvótans hefur safnast á fáar hendur með tilheyrandi fjárhagslegum ávinningi og völdum og boðar átak gegn því með bættu eftirliti og hugsanlega með lagabreytingu. Ekki skal dregið í efa nauðsyn þess að framfylgja lögum og koma í veg fyrir að þau séu sniðgengin eins og ljóst er af því að fjórar blokkir nátengdra útgerðarfyrirtækja halda á 60% kvótans þrátt að lögin heimili tengdum aðilum aðeins 12% hlutdeild hverjum hópi.
Það verður hins vegar draga í efa þá ályktun ráðherrans að viðhorf almennings mótist helst af því „að það séu of fáir sem verða of ríkir“. Öfund yfir pyngju annarra ræður ekki afstöðu almennings. Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að almenningi misbýður það að fáir útvaldir sem hafa notið velvildar stjórnvalda við úthlutun gjafakvóta notfæri sér frjálst framsal kvóta og heimild til óbeinnar veðsetningar á honum til að sölsa sífellt meira undir sig og stinga arðinum af auðlind þjóðarinnar í eigin vasa.
Lungi kvótans er nú í höndum um 10 hópa innbyrðis tengdra aðila. Það að fjölga þeim með löggjöf t.d. með því að lækka hámarkið um helming myndi vissulega tvöfalda fjölda hinna “of ríku” en gerir það kerfið réttlátara fyrir almenning. Tuttugu aðilar í stað tíu myndu að öðru óbreyttu skipta sín á milli um 50 milljarða króna auðlindarði ár hvert en almennings sæti eftir sem áður uppi án endurgjalds fyrir afnot af lögmætri eign sinni.
Afstaða almennings snýst ekki um það hvort hinir „of ríku“ séu fáum tugum fleiri eða færri. Hún stafar af því óréttlæti að fámennur hópur sópi til sínum tugum milljarða ár hvert af eign þjóðarinnar fyrir tilverknað stjórnvalda sem eiga að hafa almannaheill í fyrirrúmi en ekki sérhagsmuni fárra.
Eignarhald og nýtingarréttur
Í grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Vísi og í Mannlífi 18. og 19. febrúar sl. rekur hann hvernig ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða eru til komin og dregur fram megininntak lagagreinarinnar svo og ákvæða um framsal aflaheimilda og veðsetningu þeirra. Í stuttu máli er inntakið skýrt:
- Fiskveiðiauðlindin er sameign íslensku þjóðarinnar. Ekkert í lögunum skerðir eða takmarkar þann eignarrétt og lagalegt tilkall þjóðarinnar til fulls arðs af auðlindinni.
- Úthlutun veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt og er afturkallanleg hvenær sem er.
- Framsalið felur ekki í sér sölu á eign þar sem eign er ekki er til staðar. Kaupandinn fær tímabundnar og afturkallanlegrar veiðiheimildir og tekur áhættuna af afturköllun eða lækkun kvóta.
- Kvóti er ekki veðhæf eign eða réttindi. Lög gera lánveitanda mögulegt að setja það skilyrði fyrir láni með veði í skipi að kvóti verði ekki fluttur af því nema með samþykki hans. Bankinn tekur áhættuna af því að kvótinn verði afturkallaður eða lækkaður.
Lagafyrirmælin eru skýr og þau koma ekki í veg fyrir að þjóðin fái notið eignar sinnar. Það stafar hins vegar af því hvernig framkvæmd þeirra hefur verið. Stjórnvöld hafa vanrækt það að tryggja hagsmuni almennings af eign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. Með gjafakvóta og með því að innheimta ekki eðlilegt endurgjald fyrir nýtingu á eign þjóðarinnar.
Vilji þjóðarinnar og vald Alþingis
Sighvatur Björgvinsson „fyrrverandi stjórnmálamaður“ og alþingismaður var einn þeirra sem á sínum tíma unnu að því að tryggja það í lögum um fiskveiðar að úthlutun veiðiheimilda myndaði hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði einstakra aðila á þeim. Hann rekur í grein í grein í Kjarnanum 21. febrúar sl. hvernig afstaða meginþorra þjóðarinnar til þess, „ - sem mestu máli skiptir- hvernig sameign þjóðarinnar hefur verið nýtt í þágu hinna fáu sem fengið hafa leyfi til að nýta sér eign fólksins í landinu í eigin þágu“ hefur margoft komið fram og síðast nýlega í könnun Fréttablaðsins þar sem 5/6 aðspurða lýstu andstöðu sinni við framkvæmd kvótakerfisins. Þrátt fyrir þann mikla meirihluta nái vilji hans ekki í gegn þegar til kastanna kemur á Alþingi vegna fylgispektar kjósenda við sérhagsmunaflokka og tvískinnung annarra kosinna fulltrúa.
Lögin um stjórn fiskveiða koma eins og áður segir ekki í veg fyrir breytingar til bóta. Lögin um veiðigjöld frá 2012 sýna ótvítætt að unnt er að innheimta auðlindagjald í samræmi við rétt þjóðarinnar. Það sem skortir er að alþingismanna virði vilja meirihluta þjóðarinnar. Þau stjórnmálaöfl, sem vilja gera það þurfa að mynda samstöðu um aðalatriði málsins, þ.e. þjóðareign og nýtingarrétt á auðlindinni en eiga ekki að láta tæknilega útfærslu á gjaldtöku sundra sér. Þau gætu t.d. beitt sér fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiðar með lagaákvæði um skyldu ríkisins til að framfylgja lögunum þannig að almenningur í landinu njóti allrar auðlindarentu af fiskveiðum, hagnaðar umfram eðlilega ávöxtum fjármagns. Það er sú leið sem Norðmenn o.fl. ríki hafa farið í umgengni um auðlindir sínar.
Sátt við hina „fáu ríku“?
Góð og gild áform um að jafna innbyrðis hlut hinna „fáu ríku“ mega ekki beina athyglinni frá hinni raunverulegu ástæðu fyrir óánægju almennings. Sama er að segja um endurskoðun á kerfinu í samræmi við stjórnarsáttmálann. Hann setur þeirri vinnu hvorki markmið né tímaramma og einhver samanburður við kerfi annarra landa felur ekki í sér lausn á séríslenskum vanda kvótakerfisins en verður til þess eins að draga málið á langinn. Sú mantra að bíða þurfi með stór mál eins og auðlindaákvæði í stjórnarskrána eða eðlilega gjaldtöku í sjávarútvegi eftir víðtækri sátt á ekki við um auðlindamál á Íslandi. Það er víðtæk sátt á Íslandi um það að þjóðin eigi náttúruauðlindir landsins og að hún eigi að njóta arðsins af þeim. Þeir sem fénýta eign þjóðarinnar sjálfum sér einum til hagsbóta eru ósáttir við það. Þess munu fá dæmi að með sátt hafi tekist að ná náttúruauðlindum þjóða úr höndum þeirra sem slegið hafa eign sinni á þær með valdi eða pólitískri vild. Það væri eins og að semja við hund um að sleppa beini sem hann hefur sett tennur í.