Stór hluti efnismassa mannvirkja er tilkominn vegna burðar á eigin þyngd. Eiginþyngd steyptra mannvirkja vegur um 50 til 80% heildarálags. Steinsteypa í mannvirkjum ber þannig mikið til einungis sjálfa sig. Þegar byggt er upp - hærri byggingar - versnar staðan hlutfallslega þar sem vaxandi þungi efri hæða kallar á meira efnismagn neðar í mannvirkinu. Þetta á sérstaklega við jarðskjálftasvæði.
Á meðal þess versta sem burðarvirkishönnuður gerir í hönnun sinni er of mikill efnismassi í efri hæðir mannvirkis. Afleiðingin mælist í umfram efnisnotkun, sem eykur verulega byggingarkostnað, hægir á framkvæmdahraða og margfaldar jafnvel neikvæð umhverfisáhrif; mælt í kílógrömmum losunar koltvísýrings.
Efnissóun í mannvirkjagerð er hulið vandamál. Þessu má líkja við matarsóun, sóun í mannvirkjagerð er síst minni. Þetta má meðal annars skýra með 1) of stuttum undirbúnings- og hönnunartíma, 2) hlutfallslega lágum efnisverðum (sem hafa þó hækkað tímabundið) og 3) staðnaðri hönnunarhugmyndafræði. Virk samkeppni gengur því miður ekki út á hæfni, þekkingu og reynslu/árangur, heldur tengsl og valdastöður. Vini sem hringja í vini. Og skiptir þá engu hvaða tjónaslóð fyrirtæki draga á eftir sér.
Skortur á framþróun og markviss útilokun þekkingar er meiriháttar vandamál á íslensku umhverfis- og mannvirkjasviði, s.s. á orku-, samgöngu- og húsbyggingasviði. Vandinn byrjar í undirfjármögnuðum háskólum landsins, þar sem stór ráðgjafarfyrirtæki með langa tjónaslóð eru jafnvel í veigamiklum hlutverkum kennslustarfs. Hér er aðkoma sérhagsmunavæddra stórfyrirtækja að kennslustarfi gagnrýnd, ekki óháðir kennarar. Samvinna atvinnulífs og háskóla er af hinu góða og þekkist víða, en ekki á þeim formerkjum sem sjást hérlendis.
Verkin tala sínu máli; myglufaraldur, óvirkar verksmiðjur, myglandi verksmiðjur og ónýt burðarkerfi. Stöðnun. Flughálir nýlagðir akvegir, met í losun gróðurhúsalofttegunda, braggablús o.s.frv. Þetta sogar gríðarlega háar fjárhæðir úr fjárhirslum almennings sem hægt væri að nýta til annarra verkefna, s.s. í baráttu gegn fátækt í stað þess að auka hana. Norðurlöndin glíma ekki við þessi vandamál í mannvirkjagerð.
Mannvirkjagerð skapar yfir 40% gróðurhúsalofttegunda heimsins; steypa, stál og grjót. Umferð á vegum telur 5%. Efnismagn í mannvirkjum hefur mest um það að segja hve mikil losun gróðurhúsalofttegunda heimsins er. Verandi þjóð sem notar hlutfallslega meira efni en nokkur önnur í mannvirkin sín, má telja víst að Ísland sé ókrýndur heimsmeistari í losun gróðurhúsalofttegunda í mannvirkjagerð. Athygli vekur að merki um notkun umhverfisstaðals sem tók gildi árið 2011 sjást hvergi jafnvel á meðal stærstu ráðgjafarfyrirtækja landsins, sem hafa meira og minna eignað sér opinberan markað umhverfis- og mannvirkjasviðs með skelfilegum afleiðingum. Undantekningar finnast á meðal lítilla einkafyrirtækja, sem eiga hrós skilið, en ekki útilokun frá opinberum mannvirkjamarkaði eins og nú tíðkast.
Mikil umframefnisnotkun í mannvirkjum og röng skapar tjón fyrir skattgreiðendur á Íslandi, á hverjum degi. Hún er mjög íþyngjandi þáttur á stjórnlausum húsnæðismarkaði og eykur efniskostnað bygginga líklega um 30 til 40%. Annar afleiddur kostnaður fylgir í réttu hlutfalli við efnissóunina. Hrein íslensk orka réttlætir ekki efnissóun og hlutfallslega mikil neikvæð umhverfisáhrif mannvirkja á Íslandi.
Það ber einhver ábyrgð á stöðunni, það er ljóst. Ábendingar um núverandi vegferð stjórnvalda hefur ekki skort. Víða skortir á skilning, verra er að hann virðist ekki þurfa. Ímyndaráróður sjálftökufræðinga um græna vettvanga og grænar byggðir á fagurskreyttum heimasíðum fyrirtækjanna sem sköpuðu vandann skortir ekki. Starfsvettvangur mannvirkjagerðar á Íslandi er á verulega miklum villigötum.
Lítil sjálfstætt starfandi sérfræðingafyrirtæki eiga enga möguleika á að sækja atvinnu hjá opinberum aðilum á forsendum hæfni, þekkingar, reynslu og árangurs. Þetta meðal annars afleiðing af lobbíisma. Þetta er alvarlegt, því húsnæðisvandi landsins er bundinn fúskmenningu og afturhaldi í vinavæddum tengslanetum sterkum böndum. Jafnvel í mestu útflutningslöndum heims eru lítil sérfræðifyrirtæki fullgildir þátttakendur í heimsklassa vöruþróun, oft leiðandi frumkvöðlar tækniframfara, en ekki jaðarhópur sem útiloka ber kerfisbundið. Þetta er því miður staðan enn í dag þegar skortur á sérfræðingum og vinnuafli almennt er mikill.
Almenningur tekur þetta náttúrulega allt saman brosandi á bringuna – tilneyddur – með aðstoð stjórnvalda. Vel að verja ekki mörgum orðum í grænþvottarbylgjuna sem hinir útvöldu fáu standa þessa dagana fyrir í eigin upphafningu um mikið frumkvöðlastarf á umhverfissviðinu, með skilaboðum um breytingar – síðar. Á meðan stækkar sótspor íslenskra mannvirkja að tilstuðlan sama fólks og stefnir nú á nýja toppa.
Það virðist sem stjórnvöld viti einfaldlega ekki sitt rjúkandi ráð, kunna ekki einu sinni að leita uppi hæft fagfólk, þurfa ekki. Á meðan lengist tjónaslóðin og reikningurinn hækkar í samræmi við það, nokkurn veginn línulega með hækkandi yfirborði sjávar. Eftir fjórtán ára starf með umhverfismál mannvirkja, sem enn er ekki hægt að hafa atvinnu af utan klúbbsins sem velur sig sjálfur, er ástæða til að spyrja enn á ný:
Hvað er til ráða? Eru allir sáttir við að horfa á þetta aðgerðalaust?
Höfundur er verkfræðingur.