Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, hefur greint frá því að hætt hafi verið við hraðan flutning Fiskistofu til Akureyrar. Hann segist reyndar ekki lengur leggja allt kapp á að áætlanir um að klára flutninginn á þessu ári standist. En niðurstaðan er skýr, Fiskistofa verður ekki flutt í bráð til Akureyrar. Að minnsta kosti ekki fyrr en heimild til þess fæst hjá Alþingi.
Þessi U-beygja ráðherrans er mikill sigur fyrir starfsfólk Fiskistofu, sem hefur verið mjög gagnrýnið á ákvörðunina um flutning stofnunarinnar allt frá því að tilkynnt var um hana síðasta sumar. Starfsfólkið ætlar enda ekki að flytja með. Þ.e. fyrir utan forstjóra Fiskistofu.
Mótmæli starfsfólksins hófust nánast samstundis eftir að tilkynnt var um ákvörðunina um flutninginn. Í lok júní sendi það frá sér yfirlýsingu þar sem það gangnrýndi „vinnubrögð stjórnvalda við þá aðferðarfræði leifturárásar sem beitt var“, þeir töldu verulegan vafa á því að heimild væri fyrir flutningunum í lögum og sögðu að ákvörðunin, ásamt ummælum forsætisráðherra um flutning stofnana út á land, gerðu það að verkum að starfsöryggi starfsmanna opinberra stofnana væri „háð geðþóttaákvörðunum valdamanna, sem minna fremur á vinnubrögð í alræðisríkjum en það sem við væri að búast í nútímalegu, lýðræðislegu samfélagi“. Félag stjórnsýslufræðinga tóku undir með starfsmönnunum skömmu síðar í ályktun þar sem sagði að ákvörðunin væri ekki í anda vandaðrar stjórnsýslu.
Í september sendi starfsfólkið síðan frá sér tilkynningu þar sem sagði m.a. að hugmyndir um flutning Fiskistofu væru „vinnubrögð sem ættu ekki að tíðkast í siðuðu samfélagi“.
Borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð Hafnarfjarðar hoppuðu síðar á vagninn og gagnrýndi flutning Fiskistofu harðlega. Ákvörðunin sé dæmi um óundirbúinn og óvandaðan flutning stofnunar.
Í byrjun desember mættu um 40 starfsmenn Fiskistofu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í von um að hitta ráðherrann, eftir að hafa reynt að ná í hann í tæpar þrjár vikur. Sigurður Ingi var ekki við en starfsmennirnir lásu upp áskorun. Þar sagði m.a. :„Þú [Sigurður Ingi] yrðir maður að meiri og um leið leiddir þú málið út úr því öngstræti sem það er komið í. Erindi umboðsmanns Alþingis ætti eitt og sér að nægja til að vekja þig til umhugsunar“.
Starfsmennirnir héldu áfram mótþróa sínum og í janúar sendu þeir athugasemdir til umboðsmanns Alþingis vegna flutnings stofnunarinnar. Þar sagði að „ráðherra getur ekki bent á lagaheimildir fyrir ákvörðun sinni, sem eðlilegt er, þar sem þær eðli málsins samkvæmt finnast ekki.[...] Þótt vissulega mætti fagna því ef ráðherra hefði enga ákvörðun tekið hér að lútandi, er sú stjórnsýsla sem fólst í ákvörðun ráðherra og nú í svari hans stórlega ámælisverð. Ákvörðunin hefur verið mjög skaðleg stofnuninni, viðskiptavinum hennar, en ekki síst starfsmönnum Fiskistofu og fjölskyldum þeirra“.
Og nú hefur verið hætt við flutninginn, að minnsta kosti tímabundið. Starfsmenn Fiskistofu hljóta að skála fyrir þessum áfangasigri þótt stríðinu um atvinnu þeirra sé sannarlega ekki lokið.