Auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið mikið til umræðu síðastliðin misseri og ár. Það er ekki að undra enda eru náttúruauðlindir á einn eða annan hátt undirstaða okkar þriggja stærstu útflutningsgreina og skapa þjóðarbúinu gríðarleg verðmæti. Nálægðin og tengslin við náttúruna hér á landi eru slík að það er mikið tilfinningamál fyrir okkur flest hvernig við göngum um hana og gæði hennar. Því er það okkur Íslendingum mikilvægt að skýra stöðu náttúruauðlinda í stjórnarskrá.
Í upphafi árs lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fram breytingar á stjórnarskrá og þar með talið auðlindaákvæði. Auðlindaákvæðið grundvallast á margra áratuga vinnu og hafa ólíkir aðilar komið að því. Það hefur fengið mikla umfjöllun hjá stjórnmálamönnum og fræðimönnum. Ákvæðið tel ég vera það besta sem við höfum séð hingað til.
Auðlindalandið Ísland
Ísland er auðlindaríkt land. Á láði höfum við ósnortin víðerni, náttúrufegurð og ýmsar uppsprettur grænnar og endurnýjanlegrar orku eins og jarðvarma og fallvötn. Landið er umkringt gjöfulum fiskimiðum, sem hafa verið ein helsta undirstaða efnahagslegrar framfara síðastliðna öld. Það er því eðlilegt að fólk hugsi fyrst og fremst um þessar náttúruauðlindir þegar þær ber á góma.
En þar með er ekki sagt að listinn sé tæmdur. Eins og Carbfix aðferðin hefur sýnt okkur er Ísland til dæmis tilvalinn staður til að dæla niður kolefni og umbreyta í stein. Þá má spyrja hvort hið hola íslenska basalt sem má nota í þessum tilgangi sé ekki náttúruauðlind. Og hvað með vindinn sem blæs á okkur í gríð og erg allan ársins hring? Eru mögulega aðrar auðlindir sem gætu nýst í framtíðinni en okkur dytti ekki í hug að nýta í dag?
Tímabundin notkun eða uppsegjanleg?
Í frumvarpinu segir að enginn geti fengið náttúruauðlindir í þjóðareign eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. En náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru skilgreind sem þjóðareign, en þar erum við t.d. að tala um þjóðlendur og fiskinn sjónum. En hvað þýðir þetta?
Þetta þýðir að samningar við þá sem vilja nýta þjóðareignirnar okkar verða annað hvort að vera uppsegjanlegir eða tímabundnir. Ólíkar auðlindir og ólíkur tilgangur nýtingar þeirra kunna að réttlæta ólíkar nálganir varðandi það hvort við höfum samningana tímabundna eða uppsegjanlega, en almennt höfum við Vinstri græn talað fyrir tímabundnum samningum.
Það er líka algjört lykilatriði að enginn geti eignast þjóðareign. Þjóðareign er eign íslensku þjóðarinnar, en löggjafinn og framkvæmdarvaldið fara með forræði þeirra í umboði þjóðarinnar. Úthlutun nýtingarleyfa verður að vera lögbundin og gagnsæ og gæta verður jafnræðis.
Gjaldtaka fyrir notkun
Það er tekið skýrt fram í frumvarpsákvæðinu að með lögum skuli ákveða gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni. En hvernig á að haga slíkri gjaldtöku? Þar kunna ólík sjónarmið að spila inn í og eðlilega því að tilgangurinn auðlindanýtingar kann að vera mismunandi. Tilgangurinn kann til dæmis fyrst og fremst að vera að efla byggð í landinu eða bjóða landsmönnum upp á ákveðna þjónustu á hagstæðu verði. Félagslegi potturinn í sjávarútvegi er gott dæmi um hið fyrrnefnda og hitaveitan og rafmagnssala til heimilanna í landinu hið síðarnefnda.
Til eru þau sem vilja innleiða þá markaðshugsun í stjórnarskrána okkar að við eigum að miða gjaldtökuna af auðlindunum okkar við hvað markaðurinn býður í nýtinguna hverju sinni. Það er einstrengingsleg nálgun, sem lítur algjörlega fram hjá til að mynda félagslegum, byggðalegum og umhverfislegum þáttum sem geta allir haft áhrif á gjaldtöku. Það takmarkar því löggjafann í því að beita eigendavaldi þjóðarinnar um það hvernig gjaldtökunni skuli háttað. Samtalið um hvernig nýtingin og gjaldtakan skuli vera verður að eiga sér stað milli eigendanna, fólksins í landinu, og stjórnmálamanna á hinum pólitíska vettvangi. Ekki á forsendum markaðarins.
Sjálfbærni í stjórnarskrá
Síðast en alls ekki síst kemur fram það atriði sem ég tel vera það þýðingarmesta. Það er að auðlindir skuli nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Það kann að vera merki um að það sé almenn samstaða um að ósjálfbær auðlindanýting sé ekki í boði og að nýtingin skuli fyrst og fremst hagnast fólkinu í landinu.
Þetta auðlindaákvæði í stjórnarskrá yrði risastórt skref fram á við og myndi tvímælalaust tryggja rétt og hagsmuni þjóðarinnar í auðlindamálum. Ég vil því hvetja þingmenn til að samþykkja frumvarp Katrínar Jakobsdóttur þjóðinni allri til heilla.
Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.