Frá sjónarhóli barna eru flutningar eitt það versta sem getur gerst. Þá þarf barnið að kveðja vinina og byrja nýtt líf á nýjum stað, í nýju hverfi og nýjum skóla. Það er ekki að ósekju að sagt er að börnin séu þannig rifin upp með rótum.
Auðvitað geta flutningar verið nauðsynlegir og nokkuð sem fjölskyldan kýs. Þeim fylgir hins vegar alltaf álag. En það gerist líka að fjölskyldur flytja á milli hverfa gegn vilja sínum, fjölskyldur sem missa húsnæði sitt og finna ekki annað í hverfinu sínu og neyðast til að flytja í annan bæjarhluta eða í annað byggðarlag. Þetta er raunveruleiki leigjenda á hinum óhefta stjórnlausa leigumarkaði á Íslandi. Þessar fjölskyldur ráða ekki lífi sínu, eru háðar duttlungum okurmarkaðar þar sem allt aðrir hagsmunir ráða för en öryggi fjölskyldna og barna.
Réttur barna til öruggs húsnæðis
Mikill skortur er á leiguhúsnæði og leigjendur, þar á meðal margar fjölskyldur með börn, búa við mikið óöryggi. Fyrir nokkrum árum óskuðu samtök leigjenda eftir áliti umboðsmanns barna á því hvort ríki og sveitarfélög væru að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna annars vegar og húsnæðislögum hins vegar með skeytingarleysi gagnvart þessum vanda.
Og hún sagði að brýnt væri að bæta húsnæðismálin hér á landi, meðal annars með því að styrkja stöðu foreldra á leigumarkaði. Yfirvöldum ber að setja hagsmuni barna í forgang og sjá til þess öll börn og fjölskyldur þeirra hafi tök á því að búa við aðstæður þar sem öryggi, stöðugleiki og velferð þeirra eru tryggð. Umboðsmaður barna benti líka á að þetta ástand stangaðist á við markmið barnalaga, laga um húsnæðismál og líka ákvæði stjórnarskrá um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
Ástandið grefur undan markmiðum skólanáms
Við þetta má bæta að í aðalnámskrá grunnskóla segir að menntun og velferð nemenda sé sameiginlegt verkefni heimila og skóla og að samstarfið þurfi að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð. Jafnframt að mesta áherslu beri að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og að bæði heimili og skóli sé vettvangur menntunar.
Hvernig á þetta að geta gengið upp þegar börnin eru rifin upp reglulega og flutt milli hverfa? Börn sem eru á flandri fá ekki viðunandi stuðning innan skólans, svo ekki sé minnst á börn með sérþarfir. Sífelldir flutningar rjúfa tengsl við skólann, kennarann og vinina og hafa neikvæð áhrif á námsárangur barna en líka sjálfsmynd þeirra og almenna lífsánægju.
Ekki verður séð að við núverandi aðstæður húsnæðismála takist það að tryggja öllum börnum viðunandi námsaðstæður með traustum tengslum heimilis og skóla.
Það hefur oft verið bent á húsnæðiskerfið sé grunnur sem öll félagsleg kerfi byggja á. Ef húsnæðiskerfið er valt er hætt við að gagnsemi annarra kerfa eyðist. Það á svo sannarlega við um markmið aðalnámskrár. Þau ná til barna sem búa við öryggi, en ekki þeirra sem lifa flökkulífi vegna ótryggs leigumarkaðar.
Af hverju erum við alltaf bara tvö ár á hverjum stað?
Í nýlegri rannsókn Hervarar Ölmu Árnadóttur og Soffíu Hjördísar Ólafsdóttur á fátækt barna á Íslandi bentu þær á að þegar fátæk börn lýstu aðstæðum sínum höfðu þau einna mestar áhyggjur að húsnæðisvanda fjölskyldunnar, en öllu bjuggu þau í leiguhúsnæði eða hjá skyldmennum. Börnin sögðust þurfa að flytja oft og stundum að búa langt frá sínum skóla. Fyrir þessar fátæku fjölskyldur virkaði hinn almenni leigumarkaður ekki og gat ekki tryggt börnum nægilegt félagslegt öryggi til að blómstra í námi.
Börnin voru meðal annars spurð að því hversu oft þau hefðu flutt. Í mörgum svörum mátti sjá þreytuna og vonleysið sem fylgir eilífum flutningum: „Mjög oft sem við skiptum alveg um stað. Ég spurði af hverju erum við alltaf bara tvö ár á hverjum stað og pabbi sagði bara, það er ekki satt, stundum erum við hálft ár og stundum eitt ár og stundum þrjú ár. Eins og það breyti einhverju!”
Ég er félagi í Samtökum leigjenda og hvet aðra leigjendur til að ganga í samtökin og berjast með okkur fyrir réttlæti. Það er hægt að skrá sig í samtökin á leigjendasamtokin.is.
Höfundur er formaður Samtaka leigjenda á Íslandi