Sumum finnst að með þessari ríkisstjórn fái þeir það besta úr báðum stefnum: vinstri og hægri. Fjármálavit og rekstrarkunnáttu frá hægri en varðstöðu um almannahag og mannréttindi jaðarsettra hópa frá vinstri.
Ég er ekki viss. Kannski fáum við frekar það versta úr báðum stefnum; miðstýringaráráttu og valdasýki. Flokkarnir sameinast um stjórnsemi þegar kemur að opinberum rekstri: Sjálfstæðismenn tortryggja kennara, Samkeppniseftirlitið og starfsfólk Ríkisútvarpsins og vilja hafa hönd í bagga og eftirlit með störfum þeirra – ef þeir leggja ekki hreinlega niður starfsemina eins og Skattrannsóknarstjóra og Nýsköpunarmiðstöðina. Vinstri græn aðhyllast miðstýringu. En Framsókn kinkar kolli til hægri og vinstri á víxl. Og brýn verkefni bíða.
Við sjáum biðlistastefnu ríkisstjórnarinnar í því að nú bíða 700 manns eftir því að komast að í Tækniskólanum. Ráðist var í velheppnað átak til að hvetja fólk til starfsgreinanáms, en svo var eins og gleymdist að gera ráð fyrir nemendunum. Við sjáum biðlistastefnu ríkisstjórnarinnar þó skýrast í heilbrigðismálum þar sem þjáðir sjúklingar mega bíða og bíða og bíða eftir því að komast í nauðsynlegar aðgerðir; þar sem konur þurfa að bíða eftir niðurstöðum úr krabbameinsrannsókn eftir afar illa undirbúna flutninga þessara rannsókna frá Krabbameinsfélaginu til Landspítalans – miðstýringaráráttan – og það eru meira að segja biðlistar barna og unglinga eftir bráðnauðynlegri þjónustu hjá Barna- og unglingageðdeild.
Ríkisstjórnin sameinast um að grípa ekki til alvöru aðgerða í loftslagsmálum. Hún sameinast um að afgreiða ekki rammaáætlun eða þjóðgarð eða yfirleitt nokkur mál umhverfisráðherra. Hún sameinast um að fara ekki að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrámálinu. Hún sameinast um að halda Íslandi utan við ESB. Hún sameinast um krónuna. Sameinuð stendur hún vörð um skerðingar lífeyris. Ríkisstjórnin er sameinuð um misvægi atkvæða eftir kjördæmum. Samhugur ríkir um áframhald á landbúnaðarstefnunni og ríkisstjórnin stendur vörð um óbreytt fyrirkomulag í sjávarútvegi. Og þannig koll af kolli. Stóru málin bíða. Stöðugleikinn er stöðnun.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.