Á meðan áhyggjurnar magnast upp í heimsbúskapnum, meðal annars vegna vandræða í Kína, er uppi stórmerkileg staða á Íslandi. Skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar tiltölulega hratt niður að undanförnu, eru nú komnar niður í 63 prósent af árlegri landsframleiðslu, en þær voru yfir 100 prósent af landsframleiðslu eftir hrunið.
Sérstaklega hefur staðan batnað hvað erlendar skuldbindingar varðar. Áætlunin um losun fjármagnashafta hefur fengið góðar viðtökur, bæði hjá stjórnmálamönnum og einnig hjá þeim sem greina stöðu Íslands erlendis, þar á meðal lánshæfismatsfyrirtækjum. Almenn tiltrú virðist vera á því að Ísland geti losað um höft, og losað um spennuna á krónuna, þannig að stöðugleika hagkerfisins sé ekki ógnað.
Það sem einnig er áhugavert við stöðuna, er að íslenska ríkið getur bætt stöðu sína stórkostlega í þessum aðgerðum, ekki aðeins með því að fá mörg hundruð milljarða í sinn hlut, heldur getur einnig skapast mikilvæg staða þegar kemur að því að stýra endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, hefur bent á að það geti verið hætta í því fólgin að greiða niður ríkisskuldabréf, og um leið draga hratt úr framboði af ríkisskuldabréfum. Það kunni að valda miklu ójafnvægi á markaði og valda mikilli þenslu.
Hvernig sem fer, þá verður það töluverður vandi fyrir stjórnvöld að halda þannig á spöðunum að jafnvægi verði ekki raskað. Einn möguleikinn sem ríkið mun standa frammi fyrir er að vinna upp gríðarlega uppsafnaða skekkju í opinbera lífeyriskerfinu, en hún nemur hátt í sex hundruð milljörðum króna eins og mál standa nú. Einnig gæti ríkið styrkt innviði landsins, t.d. með nauðsynlegum endurbótum í heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu eða þjóðgörðum, svo fátt eitt sé nefnt.
Einn möguleikinn sem getur komið upp, er að íslenska ríkið eignist eignarhlutina í fjármálafyrirtækjunum endurreistu, Arion banka og Íslandsbanka, að nánast öllu leyti, en ríkið á Landsbankann að nánast öllu leyti núna. Þá væri ríkið komið með svo til allt fjármálakerfið í fangið, og mikil verðmæti á sama tíma, þar sem eigið fé bankakerfisins er nú nálægt 600 milljörðum króna. Síðan þegar kæmi að sölu á hlutunum, þá myndi málið vandast og mikilvægt að allt ferlið væri algjörlega gagnsætt svo að almenningur hefði á því traust. Annars er voðinn vís.
Það er óhætt að segja að áhyggjur stjórnmálamanna og ýmissa fjárfesta séu svolítið annars eðlis í flestum öðrum löndum, en eru fyrir hendi á Íslandi núna, jafnvel þó vaxtahækkanir og verðbólguþrýstingur séu til umræðu. Áætlunin um losun hafta er risavaxinn atburður sem getur haft mikil áhrif til langrar framtíðar, þegar henni er hrint í framkvæmd.
Vonum það besta...