Umræður um samgöngur leiðast oft í umræður um hafnir. Þá er ekkert legið yfir því hvort það sé hagkvæmasti og umhverfisvænasti mátinn, enda fylgir þeirri umræðu oft tillögur um að ríkið eyði svo og svo miklum upphæðum í hafnirnar þar sem tekjur af starfseminni duga ekki til.
Hér eru til skoðunar hugmyndir um stórskipahöfn í Þorlákshöfn, sem betur fer hefur ekki orðið af, og hvort rétt sé, þrátt fyrir að þingmenn kjördæmisins dásami útgerð ekjuskipsins Mykines frá höfninni, að setja mikla fjármuni ríkisins í breytingar á höfninni vegna ekjuskipaflutninga. Ein af rökunum sem beitt er fyrir fjárveitingum í höfnina er meintur umhverfisávinningur af núverandi siglingum þaðan. Hér eru færð sterk rök fyrir að svo er alls ekki.
Ekjuskipasiglingar eru góð viðbót við samkeppni í siglingum milli Íslands og meginmarkaða, en þegar slík starfsemi byggist á ríkisstyrkjum er rétt að staldra við. Spurt er hvort Þorlákshöfn sé besti kosturinn fyrir ekjuskip. Hvort það væri minni heildarkostnaður og minni umhverfisáhrif ef þessir ferjuflutningar færu um náttúrulega höfn í Faxaflóa.
Hlutverk þingmanna
Það hefur verið lenska hjá þingmönnum Suðurkjördæmis að leggja fram fyrirspurnir eða bera fram tillögur á þingi um stuðning úr almannasjóðum við stórskipahöfn í Þorlákshöfn eða aðra aðkomu ríkisins að höfninni. Síðust í röðinni var tillaga Ásmundar Friðrikssonar og fleiri um „innviðauppbyggingu og markaðssetningu“ hafnarinnar á þinginu 2019–20 (61. mál, 150. lögþ.). Tillaga með sama heiti var flutt á þinginu þar áður og efnislega svipaðar nær árlega á undanförnum áratug eða lengur. Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2019–2023 er minnst á framlög úr hafnabótasjóði til rannsókna til að bæta hafnaraðstöðu á Þorlákshöfn, til sandburðarrannsókna í tengslum við nýja innsiglingarlínu, og til endurskoðunar tillagna um stórskipahöfn.
Ein af rökum sem hafa verið kynnt í umræðunni er að „Byggðinni í Þorlákshöfn er valin staður vegna náttúrulegrar hafnaraðstöðu“, eins og segir í umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss til Alþingis í apríl 2014. Hér hefur kannski ekki verið skoðað að höfn sem þarf að loka inni með miklum brimbrjótum er ekki sú náttúrulegasta, ekki sú ódýrasta. Hér má bera saman við höfnina á Seyðisfirði.
Panamax-skip til Þorlákshafnar
Þegar áðurnefnd tillaga var flutt á fyrri þingum, 2014–17, voru menn ákveðnari og sögðu að undirbúa skyldi undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar þannig að höfnin geti þjónustað skip í Panamax-stærðarflokki. Flutningsmenn fyrstu tillögunnar (631. mál, 143.lögþ. 2013–14), sem hafa væntanlega undirbúið tillögu sína vandlega, voru kjördæmisþingennirnir Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Geir Jón Þórisson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Páll Valur Björnsson og Oddný G. Harðardóttir. Þar vilja flutningsmenn að lesendur skilji hvað um er fjallað og segja „Panamax-skip eru allt að 290 metra löng og allt að 80 þúsund tonn að stærð. Þessi skip geta flutt allt að 12 þúsund TEU-gámaeiningar (Twenty-Foot Equivalent Unit)“.
Hætt var að smíða Panamax skip um 2010 enda hafa þau gámaskip verið talin óhentug vegna þess að skipin voru mjó og löng sem þýddi þörf á mikilli kjölfestu. Ef nú ætti að smíða skip af sömu lengd yrði það umtalsvert breiðara. Panamax-skip eru með 13 gáma yfir, en skip sem fær mest út úr lengdinni er a.m.k. 16 raða breitt, ber 30% fleiri gáma með sama rekstrarkostnaði á skip og mun minni kolefnislosun á flutta einingu.
Að skipin beri „allt að 12 þúsund TEU-gámaeiningar“ er ekki ónákvæmni heldur bull. Allra stærstu Panamax-skip bera um 5.000 TEU.
En til hvers slíka burðargetu? Á árinu 2013 var farið vikulega frá Íslandi til hafna í Evrópu. Þá fóru 250 þúsund TEU um Faxaflóahafnir, um 5 þúsund TEU á viku, tómir gámar og fullir, út og inn. Skipin stóru hefðu verið hálfnýtt. Magnið fór mest árinu 2018 í 352 þúsund TEU á ári eða að jafnaði 3.500 TEU í ferð, ef bara eitt sett af skipum væri í förum, en menn greinir á um hversu raunhæft það er.
Hugmyndin þýddi að allar gámar sem fóru um Reykjavík hefðu væntanlega í staðinn geta farið um Þorlákshöfn.
Umskipun gáma aftur
Rök fyrir Panamax-stærðinni voru eftirfarandi: „Auk þess að nýta hafnaraðstöðuna fyrir bæði inn- og útflutning til landsins er höfninni ætlað að vera inn- og útflutningshöfn fyrir iðnaðarsvæðið ásamt því að opna á þann möguleika að höfnin geti sinnt því að vera umskipunarhöfn fyrir vörur á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna.“ Þá var sagt að Sundahöfn væri að springa (ekki að nokkur reiknaði með Grundartanga sem eðlilegri lausn á slíkum vanda, sem hefur aldrei verið til og verður ekki til).
Engar frekari ástæður hafa kynntar til þessa tuga milljarða fjárfestingu. Þetta hljómar dálítið Finnafjarðar; umskipun sem enginn hefur beðið um. Menn sigla einfaldlega ekki norður í Ballarhaf bara til að borga fyrir umskipun í stað þess að sigla beint.
Hafskip sáluga reyndi að samnýta flutninga til Íslands með flutningum til Bandaríkjanna. Þar vantaði aðstöðu, reynslu – og alvöru forsendur – og því fór sem fór.
Eimskip flytur eitthvert hundrað TEU með meginlandaskipum sínum frá Evrópu til Reykjavíkur til áframflutnings með Ameríkuskipunum til Bandaríkjanna og Kanada í hverri viku. Þeir hafa uppgötvað höfn sem enginn annar notar, Portland í Maine, sem er eins konar bandarísk Húsavík hvað varðar fjarlægð frá helsta þéttbýli (Húsavík-Reykjavík = 463 km; Portland Maine-New York = 509 km). Þetta er sem sagt hluti af flutningakerfi Eimskips, ekki umskipun.
Í mjög stuttu máli: Aldrei hefur nokkur flutningur verið í sjónmáli um Stórskipahöfnina.
Fyrirspurn Sigurðar Inga
Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson var á sínu fimmta þingi flutti hann fyrirspurn (223. mál, 141. lögþ.): Hvaða áform eru uppi með stórskipahöfn í Þorlákshöfn? Ráðherra samgöngumála, þá Ögmundur Jónasson, svaraði með upplýsingum um fyrri umræður um sama efni, og sagði þar að 12 árum áður hafi verið gerð frumtillaga að stórskipahöfn.
Ráðherrann lauk svari sínu svo: „Til að grundvöllur sé fyrir að ráðast í vinnu við uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn þarf að vera mikil þörf fyrir slíka fjárfestingu eða miklar og skýrar hugmyndir um uppbyggingu, eins og fyrir hvaða starfsemi eigi að byggja upp höfn í Þorlákshöfn. Það sama er uppi á teningnum við ákvörðun um kostnaðarsamar rannsóknir, þar þarf að liggja fyrir við hvaða starfsemi þær eiga að miða“.
Enn eru engar skýrar hugmyndir komnar fram sem réttlæta kostnað sem áætlaður var 6–10 milljarðar á árinu 2005 sem – á verðlagi 2021 11-19 milljarðar. Þar af á lang stærsti hlutinn væntanlega að koma úr ríkissjóði.
Það má kannski ætla að tillögurnar séu til að ganga í augu á kjósendum kjördæmisins, en umfram það ekki ætlaðar til neins annars en að þær sofni í nefnd.
Siglingar ekjuskipa
Í tillögu Ásmundar Friðrikssonar og fleiri frá þingunum 2018–2020 er ekki lengur talað um Panamax heldur um ekjuskipaflutninga milli Þorlákshafnar, Rotterdam og Þórshafnar í Færeyjum með skipinu Mykines, og um öll þau gæði sem skipið hafi gefið ekki bara Þorlákshöfn heldur landinu öllu. Er farið fram á að ríkið komi að frekari uppbyggingu til að fá meira út úr slíkum flutningum.
Flutningsmenn virðast hafa takmarkaða trú á verkefninu, því fullyrðingarnar í greinargerðinni halda engu vatni.
Hér skulu tvær taldar:
- „16 tíma styttri siglingatími til Þorlákshafnar en til Faxaflóahafna (Sundahöfn)“. Stytting í sjómílum er um 80 sjómílur og raun stytting 10-11 tímar báðar leiðir.
Reyndar var Elliði Vignisson, sveitastjóri í Ölfusi, enn öflugri í viðtali við Morgunblaðið 30. maí 2019 „Það sparast um sólarhrings sigling fram og til baka ef miðað er við Sundahöfn.“
- „Þessi nýja siglingaleið er styttri en aðrar og flutningsgjöld því lægri um sem nemur 40%. Það ætti að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði á Íslandi og gera útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum.“ Leiðin er 6,7% styttri í mílum talið.
Í alvöru
Mykines er svipað á lengd og skip sem bera 900 TEU, með stærri vél sem knýr skipið á að jafnaði 16,7 mílna hraða. Uppgefin burðargeta í vögnum er jöfn 202 TEU og bílageta upp á 500 einingar.
Mykines er í beinni samkeppni við tvö skip Eimskips, systurskipin Jonni Ritscher (byggt 2006) og Veru D (byggt 2004), sem á leiðinni til Rotterdam sigla á 17,3 sjómílna hraða til að ná ferskfiskmörkuðum, eins og Mykines sem heldur sama hraða á útleið. Vegna 80 sjómílna lengri leiðar tekur 4 stundum og 40 mínútum meira að sigla frá Reykjavík en Þorlákshöfn á þessum hraða. Skip Eimskips bera að meðaltali 1.768 TEU, sem er að minnsta kosti 4 sinnum meira en Mykines, en vélarorka skipa Eimskips er 18% meiri en Mykiness. Fullyrðingar um að ekjuskipið frá Þorlákshöfn sé umhverfisvænna eru því líklega á misskilningi byggðar, eða bara einhvers konar ýkjur eins og ýmislegt annað í meðmælunum með þingsályktunartillögunni. Útreikningar um sérstaka olíunotkun þriggja skipagerða, Veru D, Arnarfells í eigu Samskipa og Mykiness, byggðir á upplýsingum frá 2020 (MRV Database) leiðir í ljós að olíunotkun á hverja flutningseiningu er 2,5 sinnum meiri með Mykinesi en gámaskipi Eimskips, sem nýtur hagkvæmni stærðarinnar, og tvöfalt meiri en með gámaskipi Samskipa.
Hér er ekki tekinn með í dæmið lengri akstur til Þorlákshafnar fyrir stóran hluta farms. Það er ekki síst umhverfiskostnaður.
Sveitarstjórinn tjáir sig
Í viðtali við Fréttablaðið 21. apríl 2020 segir Elliði Vignisson: „Siglingar héðan frá Þorlákshöfn eru umhverfisvænni og hagkvæmari og nálægðin við höfuðborgarsvæðið gerir okkur að ákjósanlegum valkosti. Viðbrögðin sýna að markaðurinn hefur beðið eftir þeim tækifærum sem felast í siglingum héðan.“
Það er rétt að Mykines hefur náð 7–8% markaðshlut af útflutningi til Rotterdam, að undanskildum álútflutningi.
Elliði telur að það þurfi að laga höfnina að þessum nýjum flutningum: „Með örlítið meiri breytingum verði hægt að taka inn miklu stærri skip en Mykines og vilji sé til þess að geta tekið inn 180 m löng 30 m breið skip“ (Mbl. 30. maí 2019).
Þann 1. júní, segir Elliði samtali við Morgunblaðið: „Áætlað er að það taki tvö til þrjú ár að ljúka framkvæmdum við höfnina. Kostnaður er áætlaður 4–5 milljarðar. Hlutur ríkisins er fjármagnaður á samgönguáætlun og fjármálaáætlun en hafnarsjóður Þorlákshafnar greiðir hluta kostnaðar.“
Sigrar á kostnað ríkisins
Í þingskjölum er aftur og aftur talað um 40% lægri flutningsgjöld. Viðskiptablaðamenn, sem eru sennilega einhverjir þægilegustu menn þjóðarinnar og vantar stóran hluta þeirra forvitni sem flestum er meðfædd, hafa ekki litið á þessa fullyrðingu gagnrýnum augum. Ef satt reyndist, þá eru gámaskipafélögin að fara mjög illa með sína viðskiptamenn. Ekjuskip eru mun dýrari en gámaskip í smíða- og rekstrarkostnaði á einingu. Hvað er að ske? Eða eru þessar yfirlýsingar bara ábyrgðalaust gaspur?
Vörugjöld
Hvað sem því líður er sannarlega einn þáttur í útgerð Mykinessins sem leiðir til minni kostnaðar fyrir fraktkaupendur. Það eru vörugjöldin. Samkvæmt hafnalögum (61/2003) eru vörugjöld ætluð til uppbyggingar og viðhalds hafna og eru greidd af vörueigenda.
Því verður ekki á móti mælt að Þorlákshöfn er í samkeppni við Faxaflóahafnir. Hæsti flokkur vörugjalda í Þorlákshöfn er 43% af gjöldum Faxaflóahafna fyrir sömu vöruflokka. Í þeim flokki eru væntanlega lang stærsti hluti innflutnings með skipinu. Næsti flokkur fyrir neðan er 92% af gjöldum Faxaflóahafna. Sá flokkur inniheldur væntanleg yfir 90% af útflutningi með skipinu. Og til viðbótar segir í gjaldskrá Þorlákshafnar: „Sérstakir samningar eru gerðir um skipa- og vörugjöld skv. 3. og 6. gr. vegna skipa sem eru í föstum áætlunarsiglingum með vörur og/eða fólk til og frá Þorlákshöfn.“ Þetta merkir að gjöld vegna skipa og vöru með Mykinesi eru samningsatriði og er ekki úr vegi að spyrja hvort til séu sérstakir samningar sem eru hærri en gjaldskrá, sérstaklega ef fullyrt er á Alþingi að kostnaður við flutninga séu 40% lægri en á næstu höfnum.
Staðreynd er að höfnin í Þorlákshöfn, sem er í samkeppni við aðra höfn og fer fram á ríkisstyrki við reksturinn og við frekari stækkun hafnarinnar, hefur lægri vörugjöld í þeim flokkum sem samkeppni snýst um, á vörum sem henta í ekjuskip. Að hafa lægri vörugjöld og gefa afslátt er það sama og að fullnýta ekki tekjumöguleika sína, sem krafist er í reglugerð um hafnamál, númer 326/2004, sem forsendu fyrir þátttöku ríkisins í kostnaði við framkvæmdir. Ef lega hafnarinnar gefur samkeppnisforskot eins og haldið er fram, og þar sem höfnin þarfnast tíðari viðhalds-dýpkana en aðrar vöruhafnir, væri eðlilegt að vörugjöld væru að minnsta kosti ívið hærri en í höfninni sem miðað er við, Reykjavík.
Strangt til tekið er vafasamt – samkvæmt lögum – að ríkið setji fimmeyring í uppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn meðan hún nýtir ekki þá tekjustofna sem lög leyfa. Er þetta smáatriði sem á að láta óátalið? Eða skal land með lögum byggja? Það væri einfaldast að hver höfn stæði fyrir sínum kostnaði og ríkið væri ekki að umbuna atkvæðum með fjárframlögum í rekstur sem getur ekki staðið undir sér, nema í algjörum undantekningatilfellum. Þorlákshöfn lítur ekki út fyrir að vera slík undantekning.
Hvað stendur eftir?
Kosturinn við ekjuskip er hröð og ódýr lestun og losun, og það að skipin eru byggð fyrir meiri ferð en gámaskip. Þau bera hins vegar mun minna miðað við lengd og breidd. Ekjuskip henta sérdeilis vel fyrir bíla og annan farm á hjólum. Þá þarf mun minni búnað í höfnum til losunar og lestunar. Smíðakostnaður á hvert pláss er mun dýrara en í gámaskipum. Þá er olíunotkun meiri, eins og dæmið að ofan sýnir.
Ekjuskip eru mest notuð á leiðum þar sem siglingatíminn er undir sólarhringur, en því lengri sem leiðin er – sbr. leiðina Þorlákshöfn-Rotterdam, þeim mun verr standa ekjuskipin í samkeppni við gámaskip. Þróun þessara skipa á undanförnum áratug hefur leitt til þess að skipin hafa stækkað, þar sem lögð er áhersla á fljóta lestun og losun með því að nota fleiri ekjubrýr í einu. Þá er orkunýting á flutta einingu mun betri en á skipum smíðuðum fyrir aldamót.
Skip sem fer á milli Immingham á norðvesturströnd Englands, þar sem skip Eimskips koma, og Rotterdam, er 237 metra langt og hefur 6.700 rein-metra (e. lane-meters) sem samkvæmt DFDS bera 450 festivagna (14,9 m fyrir hvern vagn). Skipin eru um 12 tíma í hvorri höfn og á að vera hægt að afgreiða fullt skip á þessum tíma. Eru þá afgreiddir 75 vagnar á klukkustund.
Að jafnaði tekur 10 stundir að losa og lesta Mykines í Rotterdam og 18 stundir í Þorlákshöfn. Ef gert væri út skip frá höfn á Íslandi með pláss fyrir tvöfalt fleiri vagna og svipaðan fjölda bíla, sem tæki samtals 15 stundir að losa og lesta í hverri ferð, þá sparast 13 stundir, sem mætti nota annaðhvort til að sigla á minni hraða, sem er mikil umhverfisbót, eða nota aðra höfn en Þorlákshöfn, til dæmis Sundahöfn, og sigla samt umtalsvert hægar. Stærra skip og hægari ferð tryggja minni losun gróðurhúsaloftegunda á flutta einingu.
Skipið og höfnin
Mykines, var smíðað sem bílaflutningaskip á árinu 1996. Skipið er 139,45 m á lengd og 23 m á breidd. Flutningageta ekjuskipa er mæld í lengd geymslureina fyrir festivagna. Útgerðin gefur upp pláss fyrir 90 vagna. Skipið er með 14.480 kW aðalvél.
Þá rekur útgerðin annað skip, Mistral, sem er 153 metra langt og 20,6 metra breitt, þremur árum yngra en Mykines. Það er með 12.600 kW vél og hefur 1.624 rein-metra sem þýðir pláss fyrir um 110 vagna. Skipið siglir milli Þorlákshafnar, Þórshafnar í Færeyjum og Hirtshals í Danmörku. Hringferðin er 2.076 sjómílur sem er 190 sjómílum styttra en hringferð Mykines.
Farmur sem er losaður í Hirtshals fer væntanlega að stærstum hluta til Þýskalands. Ef ekjuskip færi frá Íslandi til Cuxhaven sparast 820 km akstur fyrir hvern vagn fram og til baka en hringferð skipsins lengist um 7,5 stundir.
Niðurstöður
Því ber að fagna að til er samkeppni í sjóflutningum milli Íslands og meginlandsins – sem býður aðra valkosti en þau tvö félög sem fyrir eru. En það er fráleitt að sú samkeppni byggist á að valin er höfn sem þiggur niðurgreiðslur frá ríkinu á mikilvæga kostnaðarliði, sem kosta í raun mun minna annars staðar. Um er að ræða kostnað af byggingu, viðhaldi og rekstri hafnar. Vandinn er sá að Þorlákshöfn er ekki náttúruleg höfn. Seyðisfjörður er náttúruleg höfn. Þangað siglir Norræna vikulega og þangað koma fjöldamörg skemmtiferðaskip. Ríkið er þegar búið að borga 100 milljónir í stofnkostnaði dráttarbáts fyrir Þorlákshöfn. Hann er reyndar kallaður hafnsögubátur til að fá styrkinn. Það er á hinn bóginn enginn dráttarbátur á Seyðisfirði.
Öll umræða um ekjuskip frá Þorlákshöfn byggist á samstarfi við eitt fyrirtæki, Smyril Line. Það má vel velta því fyrir sér hvort betur búið skip, sem gæti verið allt að 170 metra langt, samkvæmt upplýsingum frá höfninni, geti haft 50% meiri flutningsgetu með mun minni orkunotkun á einingu án stórkostlegra breytinga á höfninni. Það að borga fyrir passandi skip er verkefni útgerða, sem almennt velja að reka skip með sem minnstri olíunotkun. Aðlögun að höfn á að vera innan þeirra marka sem tekjur leyfa.
Ef þetta tekst ekki hjá Þorlákshöfn er upplagt verkefni fyrir hafnir í Faxaflóa að selja innlendum eða erlendum útgerðum hugmyndina um hröð ekjuskip milli Faxaflóa og Rotterdam, rekstur sem stæði algerlega á eigin fótum.
Ef til dæmis DFDS, Grimaldi eða Smyril Line væri með vikulegar ferðir nútímalegs ekjuskips milli Reykjavíkur og Rotterdam með stuttum afgreiðslutíma í höfn, þannig að olíunotkun á flutta einingu frá Reykjavík væri alltaf mun minni en með gömlu skipi frá Þorlákshöfn, þá gæti það mætt kröfum markaðarins um flutningstíma án ríkisstuðnings og með mun minni rekstrarkostnað á einingu, þó aldrei lægri en með gámaskipum. Sama fyrirtæki eða eitthvert annað gæti hafið siglingar til Cuxhaven eða annarrar hafnar nær fiskmörkuðunum, þar sem heildarhraði frá dyrum fiskverkunarhúss á Íslandi til dreifingaraðila væri lágmarkaður til að auka markað fyrir matvæli frá Íslandi, hvort sem þau væru ferskt kjöt frá Selfossi, eldisbleikja úr Þorlákshöfn eða þorskur frá Grundarfirði.
Höfundur er hagfræðingur og sérfræðingur í flutningum.