Stríð er hafið í Úkraínu. Rússar hafa látið verða af því að ráðast inn undir því yfirskyni að stilla til friðar í landamærahéruðum sem hafa lýst yfir sjálfstæði.
Það er reyndar gömul aðferðafræði frá tíma Sovétríkjanna að færa til þjóðir og menningarbrot til þess að tryggja það að sterk mótspyrna gegn Moskvu væri óáreiðanleg. Rússneskumælandi voru flutt til landa með aðra menningu og annað tungumál, og innfæddir íbúar fluttir, oft nauðugir, annað þar sem þeir voru nýir og í minnihluta.
Þessi aðferðafræði er þekkt og enn eru sár eftir hana víða, svo sem hjá vinum okkar í Eystrasaltsríkjunum, en það eru síður en svo einu dæmin.
Og við sáum þessa aðferðafræði gagnast Rússum þegar þeir gerðu innrás og innlimuðu Krímskaga, þá undir því yfirskini að vernda rússneskumælandi íbúa þar. Og núna eru það rússneskumælandi í landamærahéruðunum sem mynda aðskilnaðarhreyfinguna. Á síðustu dögum hafa aðskilnaðarsinnar verið að flytja íbúa héraðanna austur, til Rússlands. Það gerir að verkum að héruðin verða ‘rússneskari’, aðrir en Rússar dreifast og blandast við rússneska fjöldann.
Þetta er í raun vopnvæðing á sjálfsákvörðunarréttinum. Í grunninn eiga auðvitað íbúar rétt á að skilgreina hvernig þeir vilja lifa, hvaða ríki þeir vilja tilheyra. En gildir það ef stórveldi hefur róið að því öllum árum að koma fólki með sína menningu fyrir á landamærasvæðum og flytja fólk með aðra menningu burtu?
Á sama tíma hafa Rússar haldið uppi linnulausum árásum á upplýsingarnar sem umheimurinn notar til að átta sig á því hvað sé að gerast. Tala um að þetta séu lygar vesturveldanna, að í raun sé það Nató sem sé árásaraðilinn.
Á síðari árum er fólk orðið réttilega gagnrýnna á Nató, Bandaríkin og hernaðarbrölt þeirra, við eigum ekki að trúa áróðri þeirra gagnrýnislaust. En mótsvarið við því að trúa áróðri Bandaríkjanna er ekki að kokgleypa gagnrýnislaust áróður annarra hernaðarvelda.
Í grunninn snýst þetta um það að Rússland vill tryggja áhrifasvæðið sitt, fyrir Rússum er það ógn við þeirra tilveru að landamæraríki þeirra gangi í Evrópusambandið og sérstaklega Nató. Úkraína og önnur landamæraríki Rússlands hljóta samt að mega velja hvernig þau stilla sér upp, og þegar stórt herveldi er í bakgarðinum, þá upplifa þau mjög sterkt að þau þurfi annað hvort að gangast því ríki á hönd að meira eða minna leyti, og leyfa því að vasast til um utanríkisstefnu og jafnvel innanlandsmál, til að halda friðinn, eða ganga í annað bandalag sem geti verndað þau fyrir ágangi. Inn í þetta blandast líka að Rússar vilja tryggja sér hafnaraðstöðu við Svartahafið. Þeir munu kannski ekki sjálfir hertaka land Úkraínu, heldur munu aðskilnaðarsinnar sjá um það, Rússarnir munu sennilega bara eyðileggja innviði og her Úkraínu til að koma í veg fyrir að hægt verði að stöðva það.
Að mörgu leiti minnir þetta á tilburði Þýskalands í landamærahéruðum Austurríkis í aðdraganda seinna stríðs, en yfirskinið þá var einmitt að verja þýskumælandi íbúa þar.
Rússar vilja fullvissu fyrir því að Úkraína muni ekki fá inngöngu í Nató, nokkurn tíma. En það er ljóst að ef það er ekki á borðinu, þá mun landið þurfa að friðþægja Rússa og haga sér eftir þeirra höfði í meiriháttar málum.
Ef við viljum hafa áhrif á þessa atburðarás, þessa hegðun, þá verður að ganga lengra í að gera Rússum það ljóst að þessi hegðun sé ekki í boði. Þetta mun alltaf verða vandamál á meðan Rússland er ólýðræðislegt fáræðis- eða alræðisríki sem upplifir sér ógnað af því að ríkin í kring hallist að Evrópusambandinu og innleiði lýðræðislegri stjórnarhætti.
Styrkur Rússlands felst í því hve hátt hlutfall Evrópu er háð innflutningi á gasi frá Rússlandi (og í minna mæli olíu). Því miður eru engir innviðir tilbúnir til að taka við þeirri þörf og ríki Evrópu upplifa sér ekki fært að skera á það viðskiptasamband, ekki af græðgi heldur af því að fólk myndi deyja án þess að hafa gas til hitunar, eldunar og orkuframleiðslu. Fyrsta skrefið í því að losa okkur út úr því er að búa til valkost við þetta gas, og auðvitað væri óskandi að það gæti verið vind-, sólar- og jarðvarmaorka, eða ný tækni svo sem samrunaorka. En raunhæfasti kosturinn er því miður sennilega að byggja upp kjarnorkuver aftur. Það er eina tæknin sem er tilbúin og nægilega þróuð til að byggja upp á þeim skala sem þarf til að losa Evrópu undan gasfíkninni á milli-stuttum tíma (kannski 10-15 árum á að giska).
En, það er samt of seint, við verðum að bregðast við hraðar en sú aðferð getur boðið. Ég fordæmi þessa innrás heilshugar og hvet íslensk stjórnvöld til að vísa sendiherra Rússlands úr landi og slíta á stjórnmálasamband og öll viðskipti við Rússland og Hvíta-Rússland. Ég hvet ríki Evrópu til að gera hið sama. Við getum ekki viðhaldið auð og valdi Pútíns og kóna hans, þó svo það að standa gegn þeim þýði sársaukafullar umbreytingar í orkubúskap.
Höfundur er borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar Reykjavíkurborgar.