G20 fundinum í Indónesíu er ný lokið. Eins og vænta mátti var framganga Rússa í Úkraínu fordæmd og skilyrðislauss brotthvarfs Rússa af yfirráðasvæði Úkraínu krafist. Þó er tekið fram í fundargerð að ólík sjónarmið hafi komið fram á fundinum og ljóst að G7 löndin undir forystu Bandaríkjanna og svo BRICS löndin undir forystu Kínverja sjá stríðið ólíkum augum (BRICS löndin sem ásamt Kína og Rússlandi eru Brasilía, Indland og Suður Afríka). Sagt er í fundargerð að G20 sé ekki vettvangur til að leysa öryggisvandamál en málið rætt í ljósi alvarlegra áhrifa á hagkerfi heimsins. Vladímír Pútin mætti ekki á G20 fundinn sem þýðir að engar viðræður við Rússa gátu farið fram, en jákvætt má teljast að Joe Biden og Xi Jinping hittust sem vonandi minnkar spennuna í kringum Taívan.
Í kjölfar Úkraínustríðsins hefur mikil og vaxandi harka einkennt alþjóðasamskipti í heiminum og víða horfir ófriðlega. Hugsanleg notkun kjarnorkuvopna er rædd daglega í fjölmiðlum. Síðustu daga hafa verið átök í kringum Zaporizhzhia stærsta kjarnorkuver Evrópu.
Gríðarleg hernaðaruppbygging hafin um allan heim með tilheyrandi kostnaði og sóun. Þetta mun setja mikla pressu á ríkisfjármál margra ríkja, rýra lífskjör á vesturlöndum og minnka svigrúm til að takast á við málefni sem varða allt mannkynið. Baráttan gegn fátækt í heiminum og gegn loftslagsbreytingum er forgangsraðað lægra, hernaðaruppbygging er forgangsraðað hærra. Er þetta leiðin til betra lífs á jörðinni?
Deilur, bandalög og stöðug hernaðaruppbygging um allan heim
Bandaríkin sem er forysturíki vesturlanda leiðir G7, vill stækka NATO og mynda bandalög víðar eins og t.d. AUKUS (Ástralía, Bretland og Bandaríkin) og Quad (Ástralía, Bandaríkin, Indland, Japan). Það er ekki bara stríð í Evrópu heldur eru stanslausar heræfingar í Austur-Asíu.
Kína styrkir stöðu sína með því að leiða BRICS hópinn. Nú sækjast Argentína, Íran og Saudi Arabía eftir aðild. Sérstaka athygli vekur að stærstu ríki Suður Ameríku, Argentína og Brasilía vilja vera í bandalagi með Kína. Íran sendir dróna til Rússlands og vill í BRICS. Því hefur verið haldið fram að í staðinn vilji Íran fá aðstoð Rússlands til að búa til kjarnorkuvopn. Sé það rétt teljast það varla góðar fréttir fyrir Vesturlönd?
Bandaríkin eiga nú í deilum í öllum þeim heimshlutum sem skipta landið mestu máli. Í Austur-Asía eru harðar deilur við Kína vegna Taívan. Einnig ágreiningur um fleiri svæði eins og Suður Kínahafið. Ófriðlegt er á Kóreuskaganum og Norður Kórea er iðinn við að skjóta upp eldflaugum sem vekur ugg enda hefur landið kjarnorkuvopn. Við Persaflóann eru komnar upp deilur milli Bandaríkjanna og Saudí-Arabíu sem nú ásamt OPEC ríkjum takmarkar framboð á olíu á versta tíma fyrir Vesturlönd. Þetta bætist ofaná hatrammar deilur við Íran. Það er afleit staða fyrir Bandaríkin að bæði Saudi-Arabía og Íran vilji ganga til liðs við BRICS undir forystu Kína.
Í Evrópu geisar nú stríð við Rússland. Mörg Evrópuríki, helstu bandalagsríki Bandaríkjanna, sem stóðu illa efnahagslega fyrir stríðið í Úkraínu, standa nú enn verr meðal annars vegna verðhækkana á olíu og gasi sem er afleiðing stríðsins. Áður hafði COVID-19 faraldurinn leikið mörg þeirra grátt. Verðbólga er komin úr böndunum. Nú er þeim sagt að auka útgjöld sín varnarmála, kaupa vopn á sama tíma og þau þurfa að aðstoða sína ríkisborgara sem margir upplifa þrengingar. Þetta er líklegt að leiða til pólitískra sviptinga sem öfgahópar nýta sér.
Á öllum vígstöðvum er lítið um samræður til að leysa deilumál á friðsamlegan hátt. Í staðinn koma heræfingar og aukinn kraftur er settur í vopnaframleiðslu. Á Vesturlöndum er umræðan líka einhliða. Hugmyndin um að vinna stríð gegn Rússlandi sem er kjarnorkuveldi er ráðandi hvað sem það kostar. Þetta er skiljanleg afstaða en er hún raunsæ? Er það besta lausnin fyrir Úkraínu eða fyrir heiminn?
Uppbygging Úkraínu að stríði loknu mun taka áratugi
Afleiðingar stríðsins í Úkraínu verða gríðarlegar. Alþjóðabankinn og ESB meta að tjónið í landinu frá 24. febrúar til 1. júní 2022 hafi verið um kr. 50.000 milljarðar (um USD349 milljarðar) að meðaltali yfir kr. 500 milljarðar á dag. Í júlí 2022 kynntu stjórnvöld í Úkraínu 10 ára áætlun um endurreisn landsins uppá enn hærri fjárhæð eða um kr. 110.000 milljarða (um USD750 milljarða). Fyrir utan eignatjónið er mannfallið óbætanlegt.
Tjónið á innviðum er óheyrilegt og erfitt að sjá hver muni fjármagna uppbyggingu þeirra nema á löngum tíma, mörgum áratugum. Hverjir gætu komið að þessari uppbyggingu? Geta Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína eða Alþjóðabankastofnanir endurreist Úkraínu að stríði loknu?
Bandaríkin eru auðugt land, en Bandaríkin virðast eiga fullt í fangi að viðhalda og endurnýja sína eigin innviði sem mörgum þykja bágbornir í samanburði við sum ríkari aðildarríki ESB eins og til dæmis Þýskaland. Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO hafa veitt Úkraínu hernaðaraðstoð sem sennilega hleypur á tugum milljarða Bandaríkjadala auk efnahagsaðstoðar vegna stríðsins. Varla munu Bandaríkin þó endurreisa innviði Úkraínu að stríði loknu nema að takmörkuðu leyti? Mikil óvissa er nú í Bandaríkjunum vegna sviptinga í stjórnmálum. Demókratar haf misst meirihluta sinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og Donald Trump hefur lýst yfir framboði til forsetaembættisins. Óvíst er um framboð Joe Biden sem varð áttræður þann 20. nóvember sl.
Kína gæti einna helst staðið fyrir hraðri uppbyggingu innviða í Úkraínu eftir stríð, en það yrði Bandaríkjunum varla að skapi sem líta á Kínverja sem bandamenn Rússa og myndu ekki vilja sjá aukin ítök Kínverja í Úkraínu. Kínverjar ásamt Rússum eru andvígir frekari stækkun NATO til austurs. Fyrir utan það fylgja Kínverjar ekki endilega ESB stöðlum við framkvæmdir og vilji Úkraína á næstu áratugum fá aðild að ESB þarf landið að vinna eftir ESB stöðlum, ekki Kínverskum. Hvorki Bandaríkin né ESB vilja sjá Úkraínu í skuldagildru vegna lánveitinga frá Kína.
Auðvitað munu stofnanir eins og Alþjóðabankinn og Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu koma að uppbyggingu Úkraínu eftir stríð, auk þess mun banki ESB, Fjárfestingabanki Evrópu koma að þessari uppbyggingu, en miðað við það fjármagn sem þessar stofnanir hafa yfir að ráða mun taka marga áratugi að byggja landið upp. Auk lánveitinga og styrkja gætu þessar stofnanir einnig veitt ábyrgðir vegna samstarfsverkefna hins opinbera í Úkraínu og einkaaðila (e. public private partnerships) og virkjað þannig einkageirann um allan heim, en slíkar framkvæmdir eru torveldar í löndum með veikt laga- og reglugerða kerfi auk veikra stofnana til að framfylgja lögum og reglum, fyrir utan spillinguna. Það virðist því blasa við að uppbygging Úkraínu eftir stríð verður áratuga ferli.
Sumir hafa látið sér til hugar koma að hluti gjaldeyrisforða Rússlands sem frystur hefur verið á Vesturlöndum verði notaður til uppbyggingar í Úkraínu. Það getur hinsvegar haft afleiðingar ef BRICS löndin, þar á meðal Kína, hætta að treysta Vesturlöndum og vestrænum bönkum í fjármálum. BRICS löndin munu þá einnig að öllum líkindum flýta aðgerðum sínum í þá átta að hætta að nota Bandaríkjadollar sem gjaldmiðil í viðskiptum sín á milli. Sú þróun er þegar hafin.
Að stríði loknu mun Úkraína fá aðstoð meðal annars frá ESB, Bandaríkjunum og alþjóðastofnunum, en miðað við þá eyðileggingu sem þegar er orðin mun uppbygging taka mjög langan tíma. Það gæti verið besti kosturinn að stofan sérstaka alþjóðastofnun sem myndi leiða einhverskonar Marshall áætlun fyrir Úkraínu. Slík stofnun gæti hraðað framkvæmdum sem myndi eftir sem áður myndu taka langan tíma. Áratugi.
Heræfingar og stríð í stað viðræðna og samninga
Eins og staðan er í alþjóðasamskiptum í heiminum í dag hafa viðræður milli stórveldanna og samningar orðið undir. Afleiðingin er stríð í Evrópu og hernaðaruppbygging og heræfingar um allan heim. Þessi staða hefur að miklu leyti skapast vegna samkeppni stórveldanna um yfirráð í heiminum. Staða Úkraínu í dag sýnir vel hversu skelfilegt er fyrir land að verða peð í átökum stórveldanna. Þessi staða hlýtur að vekja óhug í Taívan.
Bandaríkin vilja viðhalda ráðandi stöðu í heiminum. Kínverjar vilja aukin áhrif um allan heim og Bandaríkin burtu úr Asíu. Rússland, vill tryggja sína öryggishagsmuni og þó það sé mun veikara stórveldi en Bandaríkin og Kína er Rússland kjarnorkuveldi, hefur yfir að ráða miklum auðlindum og er landfræðilega stærsta land í heimi. Heimurinn sem við lifum í er hættulegri en áður hefur sést með þeim gereyðingarvopnum sem nú eru til. Hugsanleg notkun kjarnorkuvopna í Úkraínu er oft rædd í fjölmiðlum út um allan heim. Þetta brjálæði verður að stöðva.
Verði samið þurfa Vesturlönd að standa að baki Úkraínu til að tryggja hagsmuni landsins. Þó verður það ekki auðvelt. Úkraína lét af hendi öll sín kjarnorkuvopn árið 1994 með samkomulagi við Rússland að í staðinn yrðu landamæri landsins virt (svokallað Búdapest Memorandum). Bandaríkin og Bretland voru aðilar að þessu samkomulagi til að tryggja að því yrði framfylgt en það var svo svikið fyrst með töku Krímskagagans 2014. Afleiðingarnar voru refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússlandi sem hafa litlu skilað. Á sínum tíma kallaði Warren Christopher þáverandi utanríkisráðherra stríðið í Bosníu og Hersegóvínu „A Problem From Hell." Þessi ummæli koma stundum í hugann þegar staðan í Úkraínu er skoðuð.
Staða Íslands
Staða smáríkja er oft veik í þeim óstöðugleika sem skapast í harðri samkeppni stórvelda. Þrátt fyrir allt stendur Ísland þó vel að mörgu leyti. Landið er vel staðsett í miðju Atlantshafi langt frá stríðinu í Úkraínu og líklegum átakasvæðum í öðrum heimsálfum. Efnahagur Íslands er frekar traustur. Matvælaöryggi er meira en í mörgum öðrum löndum. Staðan í orkumálum öfundsverð í samanburði við önnur Evrópuríki.
Ísland er í NATO og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Með öðrum orðum, Ísland er undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna. Þetta nægir og óþarfi, og beinlínis óráðlegt að biðja NATO um aukna hernaðarviðveru á Keflavíkurflugvelli, að minnsta kosti að svo stöddu.
Ísland hefur átt góð samskipti við Kína og skiptir miklu fyrir smáríki eins og Ísland að viðhalda. En brjótist út heimsstyrjöld með notkun kjarnorkuvopna er enginn óhultur. Ekki heldur Ísland. Þess vegna ættu Íslenskir ráðamenn að tala fyrir friði í heiminum á alþjóðavettvangi þegar færi gefst. Varla viljum við lifa í heimi sem búið er að breyta í spilavíti kjarnorkuvopna?
Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um 12 ára skeið þar á meðal í Evrópu og Asíu.