Samfylkingin hefur gefið út nýja stefnuskrá núna korter í kosningar. Í loftslagsmálum er stefnan sett fram í 10 liðum.
Sá fyrsti er að lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun fyrir árið 2030. Hina 9 liðina má líta á sem leiðir að þessu markmiði. Nú brestur mig lögfræðiþekkingu. Væri það lögbrot ef svona lögfest markmið næðist ekki? Mér finnst þetta lykta af tilhneigingu til að yfirtrompa aðra. Sem er marklítið svona rétt fyrir kosningar.
Annar liður er um að móta nýja og metnaðarfyllri aðgerðaáætlun. Ekki er nú farið djúpt í málin og engar beinar aðgerðir nefndar, aðeins klisjukennd upptalning.
Þriðji liður fjallar um, að því hægt er að skilja, betri og umhverfisvænni samgönguleið milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Svokallaða Keflavíkurlínu sem væntanlega þýðir sérstaka akrein fyrir almenningsvagna á Reykjanesbrautinni. Á vegi sem er með tvær akreinar í hvora átt myndi slík framkvæmd skila litlu sem engu. Einnig er talað um að flýta framkvæmdum við Borgarlínu. Eitthvað minnst á að byggja upp heildstætt almenningsvagnanet svo það verði raunhæfur kostur fyrir almenning. Hið síðast nefnda er gott markmið en sennilega meginverkefnið að fá fólk til að nota almenningssamgöngur.
Fjórði liður er að gera átak í lagningu hjólastíga um allt land. Sem hjólreiðamaður get ég ekki verið á móti því, en set spurningamerki við „um allt land“.
Fimmti liður er að hraða orkuskiptum í samgöngum. Í samgöngum eru orkuskipti komin vel af stað og uppbygging verður vafalaust í takt við tækniþróun og fjölgun farartækja knúinna af vistvænni orku. Atriðið með að rafvæða bílaleigubíla er í sjálfu sér gott mál, en spurningin er hvort uppbygging á almenningssamgöngum ætti ekki að minnka þörf fyrir bílaleigubíla og einkabíla yfirleitt.
Sjötti liður er úr gömlu stefnunni óbreyttur. Að stofna grænan fjárfestingarsjóð. Spurning er hvort þörf sé á grænum fjárfestingarsjóði eða hvort ekki sé frekar þörf á þróunarsjóði til að koma á nauðsynlegum breytingum til orkuskipta.
Sjöundi liður er um umbætur í landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur. Það er gott mál og göfugt. Þar er nefnd kolefnisbinding með breyttri landnotkun. Það er verkefni út af fyrir sig, en spurningin sem eftir stendur er um hvernig bændur eigi að halda sínum tekjum. Maður skyldi ætla að það yrði með framleiðslu matvæla, sem vissulega er nefnt, en dálítið óljóst. Aðalatriðið hér er að fækka ef hægt er jórturdýrum eins og sauðfé og nautgripum. Og einhver matvælaframleiðsla verður að koma í staðinn. Ekki hvað síst til að tryggja fæðuöryggi.
Áttundi liður er um að banna flutninga og notkun á svartolíu í lögsögunni, rafvæða hafnir og leggja bann við olíuborun í efnahagslögsögunni. Rafvæðing hafna er mikilvæg en verður að vera á viðskiptalegum grunni, það er að kostnaður veitufyrirtækja yrði greiddur með raforkusölu. Uppbyggingin myndi þá haldast í hendur við tækniþróun. Varðandi svartolíu, þá er hún vissulega óæskileg, en má búast við því að hún sé á útleið eins og annað jarðefnaeldsneyti. Þangað til er gott að vera laus við svartolíuna en það getur verið erfitt að fylgjast með því hvort skip séu með svartolíu í tönkunum þegar þau sigla nálægt Íslandi.
Níundi liður er um að styðja markvisst við tæknilausnir við kolefnisföngun og kolefnisförgun. Af hverju ekki að styðja markvisst við allar tæknilausnir sem miða að minni losun gróðurhúsalofttegunda?
Tíundi liður er um græna utanríkisstefnu og að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð fyrir rannsóknir þróun lausna í loftslagsmálum. Þetta vekur mér hroll. Vissulega getum við lagt margt til mála en við megum ekki líta of stórt á okkur. Þessi liður minnir óþægilega mikið á þegar Ísland átti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð.
Þessum tíu liðum er síðan fylgt eftir með aðgerðaáætlun í 50 liðum. Þó svo að kjörtímabil séu 4 ár ætti að íhuga þá spurningu hvort liðirnir mættu ekki vera færri og leggja þá meiri áherslu á að ljúka þeim. Í þessum liðum eru atriði sem þegar hafa verið nefnd. Eitt mál er þar þó sem vekja ætti athygli á, en það er að auka eftirlit með svonefndum F gösum, (kælimiðlum og slíku). Samfylkingin fær plús fyrir það. En enn betra væri að styðja við viðleitni til að nota aðra kælimiðla. Fleira mætti ef til vill nefna, en ég reyni að hafa greinina ekki of langa þannig að ekki verður farið nánar út í þá sálma.
Samantekt:
Pólitískt einkennist þessi stefna talsvert af yfirtrompun. Þarna eru mál sem eiga samhljóm í öðrum flokkum þannig að það ætti ekki að vera erfitt að koma þeim áfram. Kjósendur eiga síðan erfitt með að velja á milli flokka á grundvelli þessarar stefnu. Hún er einfaldlega svo lík stefnu annarra.
Efnahagsleg skírskotun stefnunnar er lítil. Grænn fjárfestingarsjóður er eitt af hinum tíu atriðum en ekki ljóst hvernig á að fjármagna hann. Og yfirhöfuð lítið vikið að því hvernig eigi að fjármagna verkefni.
Samfélagsleg áhrif stefnumiða eru lítil. Einna helst er athygli beint að samfélagi varðandi almenningssamgöngur og einnig að breytingar í landbúnaði og landnotkun komi ekki niður á bændum. Hvort tveggja er af hinu góða.
Tæknileg atriði eru fá nefnd, en þó er talað um stuðning við kolefnisföngun og förgun sem vissulega er tæknilegt mál. Tækni í almenningssamgöngum er þekkt. Þannig að tæknilega gengur þessi stefna algerlega upp.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.
Hægt er að lesa allar greinar Steinars hér.