Nýlega lauk ég við að skrásetja lífssögu Ibrahems Al Danony Mousa Faraj sem kom til Íslands og sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður sumarið 2002 eftir að hafa lent á svörtum lista stjórnvalda fyrir að gagnrýna Gaddafi stjórnina. Sagan fjallar um ástæður þess að hann lenti á flótta, biðina eftir úrlausn sinna mála á Íslandi og lífið sem hann gerði sitt besta til að lifa vel á meðan.
Í fyrsta hluta bókarinnar rekjum við fjölskyldusögu Ibrahems í gegnum sögu Líbíu frá miðbiki byrjun 20. aldarinnar til dagsins í dag. Við gerum grein fyrir Nýlendustríðinu við Ítali, þegar langafi Ibrahems barðist og féll með uppreisnarforingjanum Omari Mukthar. Við fylgjum Faraj fjölskyldunni í gegnum sjálfstæði Líbíu og lífið undir Idris konungi í fyrstu nýlendunni sem fékk sjálfstæði þegar nýlendutímanum lauk, en pabbi Ibrahems gekk í her konungs árið 1964 með hjartað barmafullt af von um að loksins væri frjálst líf innan seilingar fyrir íbúa landsins. Við segjum frá því hvernig sú von gufaði upp í loftið eftir valdarán Gaddafi og martröðinni sem almenningur í Líbíu lifði þau fjörutíu og tvö dimmu ár sem Gaddafi fór með völd. Við rekjum atburðarrás 17. febrúar byltingarinnar sem var hluti atburðarrásar sem hófst snemma árs 2011 í mörgum Mið Austurlöndum og við þekkjum flest sem Arabískt vor. Að lokum reynum við að gera grein fyrir þeim erfiðleikum sem líbíska þjóðin stendur frammi fyrir við að ljúka byltingunni sem endaði með falli og dauða Gaddafi, hvernig skortur á trausti sem var markvisst brotið niður á Gaddafi tímanum hefur sundrað og skemmt fyrir almenningi sem vill bara fá að lifa lífi sínu í friði.
Endurnýjuð vinátta
Einn merkilegur hluti þessarar sögu er að skoða hvernig Gaddafi lagði sig fram við að stjórna og stýra Vesturlöndum í þágu síns eigin málstaðar með því að misnota ótta sem hóf að grafa um sig á Vesturlöndum á 21. öldinni. Ekki síst eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York og fleiri skotmörk í september 2001. Í kjölfar þeirra voðaatburða endurnýjaði Gaddafi vináttu og samstarf við stjórnvöld á Vesturlöndum (eftir að hafa verið útskúfað og sætt alsherjar viðskiptabanni um árabil vegna hryðjuverka) um baráttu gegn íslamistum í stríðinu gegn hryðjuverkum. Gaddafi hafði um árabil barist gegn hópum íslamista innan Líbíu og bjó yfir verðmætum upplýsingum sem ráðamenn á Vesturlöndum töldu sig hafa gagn af. Ryki var sumsé slegið yfir fjölmörg hryðjuverk Gaddafi í gegnum tíðina – meðal annars Locerbie árásina sem átti sér stað 1988 – til þess að hafa hendur í hári annarra meintra eða mögulegra hryðjuverkamanna.
Annað verkfæri sem Gaddafi beitti nokkuð grímulaust í þeirri viðleitni sinni að byggja upp „vináttusamband“ við Evrópu var örvænting flóttamanna sem með lífið sjálft að veði leggja upp í glæfraför yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í von um að geta búið sjálfum sér og börnum sínum lífvænlegar aðstæður. Síðla árs 2010 undirituðu Mousa Kousa, utanríkissráðherra Líbíu sem um árabil stýrði einhverri grimmustu leyniþjónustu heims, Cecilia Malmström utanríkisráðherra Evrópusambandsins og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins, þriggja ára samstarfssamning upp á milljónir evra um málefni flóttamanna. Í grundvallaratriðum fól samningurinn í sér að Líbía sæi til þess að flóttafólkið næði ekki ströndum Evrópu. Sjá hér. Áður en samningurinn komst til framkvæmda braust Arabíska vorið út, en þegar ástandið í mannréttindamálum í Líbíu er haft í huga er nánast óskiljanlegt að hann hafi nokkurntíma verið undirritaður.
Þegar Arabíska vorið brast á reyndi Gaddafi stjórnin að nota örvæntingu flóttafólks til þess að kaupa sér stuðning Evrópu og í ræðu sem sonur Gaddafi – Said Al Islam Gaddafi – hélt nokkrum dögum eftir að uppreisnin sem leiddi til falls Gaddafi stjórnarinnar hófst, hótaði hann því að ef Evrópa myndi ekki styðja stjórnvöld við að berja niður uppreisnina myndi „straumur flóttamanna til Evrópu aukast en straumur olíu minnka.“ Hann hafði þó ekki erindi sem erfiði því ráðamenn í álfunni tóku afstöðu með uppreisninni og Nato hóf hernaðaraðgerðir gegn Gaddafi stjórninni fáum mánuðum eftir að átökin hófust. Eftirmála þeirrar sögu þekkjum við – Gaddafi hrökklaðist frá völdum og var fáum mánuðum síðar handsamaður og drepinn af uppreisnarmönnum.
Í júní 2012 birti Amensty International frétt þess efnis að Ítalía hefði gert leynisamning við líbíska herinn um að ítalska strandgæslan hefði heimild til þess að handtaka flóttamenn í hafi og afhenda þá líbíska hernum sem sneri þeim aftur til strandar í Líbíu þar sem þeir áttu ekki sjö dagana sæla, samkvæmt Amensty International. Sjá t.d. hér.
Flóttamenn skiptimynt í pólitískum viðskiptum?
Eins og allir vita breyttist Arabíska vorið fljótt í mikinn frostavetur og ekki er ætlunin að rekja þá þróun hér. En afleiðing þessa fyrir Evrópu er meðal annars sú að hótun Saif Al Islam Gaddafi hefur orðið að veruleika og undanfarna mánuði hefur aukinn straumur flóttamanna sem leggja upp frá ströndum Líbíu í leit að lífi orðið að veruleika, eins og Íslendingar hafa fylgst með í gegnum björgunarstörf varðskipsins Týs á Miðjarðarhafi. Aldrei fyrr hefur jafn mörgum verið bjargað í hafi og aldrei fyrr hafa jafn margir glatað lífinu í stað þess að bjarga því á flótta yfir Miðjarðarhafið.
Í hugum margra í Líbíu er það ekki hending að þessir atburðir eru að eiga sér stað nú, þegar átök í landinu hafa þróast yfir í borgarstyrjöld þar sem að minnsta kosti þrjár blokkir takast á; lýðræðislega kjörin stjórn landsins, hópur sem kenna má við íslamista og herinn undir stjórn Kalhifa Haftar hershöfðingja. Í Líbíu er um það hvískrað að Haftar sjálfur stjórni og stýri umfangsmiklum og grimmdarlegum fólkslfutningum yfir Miðjarðarhaf í von um að geta beitt lífi flóttafólks sem skiptimint í pólitískum viðskiptum við Evrópu, hafandi í huga samninginn sem Ítalía gerði við herinn fyrir réttum þremur árum síðan og Evróupsambandi við stjórnvöld fyrir tæpum fimm árum. Að með því að bæta verulega í straum flóttafólks yfir hafið vonist Haftar til þess að magna svo ótta Evrópu að hún snúi stuðningi sínum frá lýðræðislega kjörinni stjórn landsins til hans sjálfs og hersins, sem er líklegastur til þess að geta stöðvað straum flóttamanna og hert landamæragsælu.
Hvort þessi orðrómur er sannur eða loginn get ég auðvitað ekki sagt um. Hitt er vít að nú fer um marga ráðamenn í Evrópu og vandi flóttamanna hefur heldur betur komist á dagsrká stjórnmála í álfunni. Það sem meðal annars er varað við er að hryðjuverkamenn, þar á meðal lisðmenn Íslamska ríkisins, blandi sér í straum flóttamanna og komi sér fyrir í Evrópu með illt í huga. Hvort áhyggjurnar reynast nægilegar til þess að falla fyrir áformum Haftar hershöfðingja, að því gefni að hann hafi einhvers slík áform, verður tíminn að leiða í ljós.