Sundabraut var fyrsta innkoma mín í borgarpólítík út frá hverfissjónarmiðum. Íbúasamtökin beggja megin við sundin, bæði í Laugardalnum sem og í Grafarvogi spruttu upp eða stórefldust, íbúar töluðu saman, sóttu samtalið við borgaryfirvöld til að standa vörð um hagsmuni sína.
Sundabraut hefur verið á teikniborðinu frá því seint á síðustu öld. Nú er aftur komið að því að leggja drög að henni, en síðast var mikið talað um hana á fyrsta áratug þessarar aldar. Eftir ýtarlegt samráð borgar og ríkis við íbúana í Grafarvogi og Laugardalshverfi varð niðurstaða borgarinnar sú að Sundabraut skyldi lögð í göngum. Hvorki borgin né íbúar vildu hindra framkvæmdina, einungis að hún yrði sem skaðaminnst fyrir íbúana. Allir flokkar í borgarstjórn árið 2008 samþykktu að gangnaleiðin yrði farin, en svo kom hrunið og allir peningarnir fóru upp í svokallað „peningahimnaríki“ eins og frægt varð.
Ákvörðunin af hálfu borgarstjórnar frá 2008 var sameiginleg og stendur enn. Það er rangt að borgin hafi stoppað framkvæmdina eins og borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson hefur rakið, en rétt er að borgin hefur staðið vörð um hagsmuni sinna íbúa.
Næsti kafli í langri sögu Sundabrautar var skrifaður nú nýlega. Fyrir um ári kom út skýrsla starfshóps á vegum samgönguráðuneytisins þar sem fjallað var um möguleikana og öfugt við síðustu skýrslu sérfræðinga þar á undan var allt í einu talið að brú þvert yfir hafnarsvæðið væri besti kosturinn, en ekki var gengið svo langt að slá göngin út af borðinu. En það var greinilegur pólitískur vilji til að byggja brú yfir Kleppsvíkina hvað svo sem íbúum hverfanna þætti um það. Nafnið Sundarbrú var svo oft notað að það virtist nánast frágengið.
En brúarkosturinn myndi einmitt þýða stóraukna umferð í gegnum bæði íbúahverfin. Í Laugardalnum myndi öll umferð sem fer í Skeifuna og víðar beinast upp Holtaveg og svo Langholtsveginn og Álfheimana, framhjá 3 skólum og 4 leikskólum. Grafarvogur yrði svo gegnumkeyrslubær eins og Mosfellsbær er núna fyrir alla umferð milli Breiðholts, Árbæjar, jafnvel úr Kópavogi á leið vestur og öfugt.
Síðan kom út á dögunum svokölluð félagshagfræðileg greining á þessu stóra verkefni. Hún vekur furðu af ýmsum ástæðum. Þetta er plagg sem íslensk stjórnvöld gefa út til að upplýsa almenning, geri ég ráð fyrir, og þess vegna er það furðulegt að það sé gefið út á ensku. Aðeins er stuttaraleg samantekt á íslensku. Síðast þegar ég vissi var íslenska opinbert mál á Íslandi en ekki enska. Ég lagði heilmikið á mig til að læra íslensku til að geta tekið fullan þátt í samfélaginu. Það er stjórnvöldum til skammar að gefa út upplýsingar til borgaranna á erlendu máli, skiptir engu þótt margir séu þokkalegir í ensku, við eigum rétt á því að notað sé hið opinbera mál í landinu þegar verið er að fjalla um svo mikilvæga framkvæmd sem hefur áhrif á tugþúsundir íbúa borgarinnar.
Valkostirnir eru orðnir þrír núna. Brú I yfir Kleppsvík sem tengist „í plani“ við Holtaveg sunnan megin og Hallsveg norðan megin. Ekki þarf sérfræðing til að sjá að mikil umferðaraukning verður um þessar götur þegar tugþúsundir bíla fara um brautina, en áætlað er að um 45 þúsund bílar fari um hana á dag. Brú II gerir ráð fyrir mislægum gatnamótum við Sæbraut og Holtaveg og við Hallsveg og Borgarveg hafi ég lesið rétt. Reyndar hlýtur áfangaskipting verkefnisins að vekja nokkurn ugg með Grafarvogsbúum, því ef fyrsti áfangi er kláraður og sá síðari upp á Kjalarnes þarf að bíða, þá rennur öll umferðin um Sundabraut í gegnum hverfið. Þriðji kosturinn, jarðgöngin, er ekki aðeins heppilegastur fyrir hverfin tvö, heldur verður umferðin tafaminnst þar vegna þess að gatnamótum á leiðinni fækkar.
Það vekur líka furðu að sjá hvað félagshagfræðileg greining er lítt „félagsleg“ og eiginlega eingöngu hagfræðileg. Fjallað er um hvernig Sundabraut hefur jákvæð áhrif á ökutíma fólks og hver svokallaður „notendaábati“ er efnahagslega og hann er umtalsverður, reyndar mestur í göngum. Svo er tæplega blaðsíða um umhverfisáhrif og hún snýst einungis um útblástur og annað sem varðar bílana á brautinni, virðist vera, þetta er svo stuttaralegt að jaðrar við að vera hlægilegt. Mat á umhverfisáhrifum tekur vonandi á fleiri þáttum því að mörgu fleira er að hyggja, umferðarálagi og mengun í Laugardals- og Grafarvogshverfum, áhrif á fasteignaverð íbúa í hverfum troðfullum af gegnumumferð og fleira og fleira.
Svo má einnig velta fyrir sér hagfræðilegum forsendum þessarar greiningar sem einnig vekja furðu. Kostirnir þrír eru bornir saman og göngin eru dýrust í framkvæmd að því er sagt er, þótt allir þrír möguleikar teljist þjóðhagslega hagkvæmir. En inn í kostnaðaráætlunina fyrir brýrnar er ýmsu bara sleppt sem að mínum dómi ætti að vera þar. Í fyrsta lagi mun helmingur Sundahafnar verða lokaður af með brúnum að miklu leyti og gríðarleg fjárfesting í mannvirkjum þar verður til lítils og bæta verður upp þann missi fyrir þá aðila sem fyrir því verða. Í öðru lagi þarf að búa til nýja vegtengingu frá Sæbraut niður að höfninni vestan megin vegna þess að ekki hægt að komast niður að afganginum af höfninni annars. Starfshópurinn sem gerði skýrsluna í janúar í fyrra skilaði einhvers konar „skilagrein“ vegna þessarar nýju „félagshagfræðilegu“ greiningar og þar kemur skýrt fram á síðu þrjú og fjögur:
„Greiningin tekur ekki til kostnaðar við breytingar á lóðum á hafnarsvæðinu í Sundahöfn, byggingu nýrra hafnarmannvirkja og nýrrar vegtengingar inn á hafnarsvæðið sem nauðsynleg er ef ráðist verður í gerð Sundabrúar. [...] Kostnaður vegna þessara þátta er gróft áætlaður 4-5 milljarðar kr. en ræðst m.a. af samkomulagi milli Faxaflóahafna, Reykjavíkurborgar, ríkis og þeirra lóðarhafa sem brúargerð hefði áhrif á.“
Ég spyr mig hvers konar „hagfræðileg greining“ þetta sé. Þarna er „gróft áætlaður“ kostnaður um margra milljarða framkvæmdir að ræða sem eru nauðsynlegar „ef ráðist verður í gerð Sundabrúar“ og þær eru einfaldlega teknar út fyrir sviga þegar framkvæmdakostnaður er reiknaður. Það verður að bjóða borgurum þessa lands upp á eitthvað betra en þetta þegar á að fara setja gífurlega fjármuni í svona verkefni og það þarf að hlusta á raddir íbúa sem verða fyrir mestum áhrifum af svona framkvæmdum. Og vinsamlegast svara okkur á íslensku.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.