Það rignir í palestínsku borginni Hebron sunnarlega á Vesturbakkanum og regnið streymir niður bratta brekku í hverfinu Tel Rumeida. Palestínskir skólakrakkar skoppa í pollum með misstórar skólatöskur á heimleið. Hróp og köll á arabísku heyrast um allt hverfið og skyndilega þurfa börnin að víkja fyrir fólksbíl sem keyrir á 80 kílómetra hraða niður brekkuna, á meðan ökumaðurinn liggur á flautunni. Ökumaðurinn er ísraelskur landtökumaður úr nálægri landtökubyggð og í framsætinu situr sonur hans sem hoppar og klappar af kátínu þegar börnin og ég þurfum að hlaupa frá í skyndi.
Bryndís Silja Pálmadóttir, háskólanemi sem starfað hefur sem sjálfboðaliði á Vesturbakkanum síðastliðna sex mánuði.
Foreldrar þessara sömu palestínsku barna hafa ekki fengið að keyra í hverfinu sínu síðan Ísraelinn Baruch Goldstein myrti 29 Palestínumenn í Ibrahimi moskunni árið 1994. Eftir morðin hófst aðskilnaðarstefna Ísraelsríkis á svæðinu af fullum krafti.
Stöðugt ofbeldi frá sívaxandi landtökubyggðum
Hebron er eina borgin á Vesturbakkanum þar sem ísraelskar landtökubyggðir hafa tekið yfir svæði inni í palestínskri borg en eftir Hebron samningana árið 1997 var borginni skipt upp í tvo hluta. Samkvæmt alþjóðalögum eru þessar landtökubyggðir ólöglegar og hafa þær verið fordæmdar út um allan heim þó ekkert stórtækt hafi verið viðhaft. Stærstur hluti Hebron á að vera undir fullum yfirráðum palestínskra yfirvalda þó Ísraelsher fari þar inn reglulega, þá sérstaklega til þess að sinna tilviljannakenndum húsleitum og handtaka unga menn. Í ísraelska hluta borgarinnar, sem gengur undir nafninu H2 búa í kringum þrjátíu þúsund Palestínumenn en landtökufólkið telur um 700 manns. Landtökufólkið fær ýmis fríðindi frá Ísraelsríki fyrir að búa á svæðinu, til dæmis í formi skattaafslátta. Hlutverk þeirra fjölmörgu hermanna sem þar starfa er fyrst og fremst að tryggja öryggi landtökufólksins.
Íbúar landtökubyggðanna í Hebron eru að mestu strangtrúaðir gyðingar og telja sig hafa tilkall til borgarinnar af trúarlegum ástæðum. Ofbeldisfullt landtökufólk hefur ótal sinnum ráðist á palestínsk börn, konur og menn í gegnum tíðina, en réttarkerfið er algjörlega andsnúið Palestínumönnum og fá slík mál oftar en ekki litla sem enga meðhöndlun í dómskerfinu. Í nóvember mætti maður úr nálægri landtökubyggð í palestínskan skóla með M16 vélbyssu, skelfdi börnin sem eru í fyrsta bekk og kennara á meðan hann valsaði um svæðið. Hann yfirgaf skólann á endanum en nálægir hermenn og lögreglumenn gerðu ekkert til þess að stöðva hann eða rannsaka málið eftir á. Þurftu kennarar að sækjast eftir nærveru algjörlega valdalausra alþjóðaliða til þess að finnast nemendur þeirra öruggir, en oftar en ekki er vera alþjóðaliða og myndavélar það eina sem Palestínumenn geta kastað fram gagnvart þessu ofbeldi og kúgun. Herinn hefur engin yfirráð yfir landtökufólkinu og sjaldnast er nokkuð viðhafst þegar að árásir eða hótanir eiga sér stað.
Daglegt áreiti frá ókunnugum her
Gamli bærinn í Hebron, sem eitt sinn var miðstöð menningar á svæðinu og blómstraði með iðnaði og mannlífi, er hægt og rólega að hverfa. Á síðustu áratugum hafa 1.014 palestínsk húsnæði verið yfirgefin á svæðinu og 77 prósent af þeim verslunum sem voru starfræktar hefur verið lokað. Stórum hluta verslanna og hluta fjölskyldanna á svæðinu hefur verið gert að yfirgefa húsnæði sitt af ísraelska hernum. Aðrar fjölskyldur neyddust til þess að yfirgefa heimili sín vegna stöðugs áreitis frá hermönnum og landtökufólki á svæðinu og skorts á tækifærum sökum vaxandi fátæktar.
„Að sjá sjö ára barn borið á milli tveggja hermanna, öskrandi, grátandi og sparkandi með Spiderman skólatöskuna vafða um axlirnar á meðan kennarinn reynir að frelsa barnið mun aldrei hverfa úr minni.“
Þeir Palestínumenn sem enn búa í H2 hafa síðastliðna áratugi þurft að búa við gífurlega kúgun frá ísraelskum yfirvöldum, ofbeldi af hálfu landtökufólks og hersins og skert lífsgæði vegna aukinnar fátæktar á svæðinu. Daglegt líf fyrir palestínskar fjölskyldur í H2 Hebron er stöðug barátta og ber með sér gífurlegt óöryggi. Hver einasti einstaklingur getur verið stöðvaður hvenær sem er af þeim mörg þúsund hermönnum, landamæralögregluþjónum og svæðislögreglumönnum sem starfa á svæðinu. Oft er fólk látið standa klukkutímum saman í hvaða veðri sem undir þeim formerkjum að verið sé að athuga skilríki þeirra í kerfinu. Palestínskar fjölskyldur mega ekki byggja á svæðinu og eini leikskólinn sem starfræktur er í hverfinu sem ég bjó í fær ekki að hafa salerni vegna þess að salernið var viðbygging við hús sem áður stóð og var skilgreint ólöglegt og niðurrifð af hernum. Skólum í hverfinu er reglulega gert að loka í kringum hátíðir gyðinga ef þeir eru staðsettir óheppilega fyrir ísraelsk yfirvöld. Ísraelski herinn notar svo táragas óspart á börn á leið í skólann ef tíu ára krakkar kasta steinum í áttina að þeim, eða ef þá grunar að börnin gætu kastað steinum. Öll nálæg börn, niður í fimm ára aldur, verða fyrir áhrifum af táragasinu og börn sem þurfa daglega að ganga í gengum eftirlitsstöð (checkpoint) á leið í skólann sjást hlaupandi um í angist hóstandi að reyna að ná andanum eftir gasið.
Sek frá fæðingu
Eftir að hafa búið á svæðinu í yfir sex mánuði hef ég séð þá kúgun sem hinn almenni Palestínumaður þarf að búa við í Hebron. Að sjá ísraelskan landtökumann stíga út úr bílnum sínum mitt á milli palestínskra skólakrakka og hrinda tíu ára barni í götuna, keyra svo burt glottandi og veifa næsta hermanni sem lokaði augunum fyrir þessu atviki er stund sem seint gleymist.
Að sjá sjö ára barn borið á milli tveggja hermanna, öskrandi, grátandi og sparkandi með Spiderman skólatöskuna vafða um axlirnar á meðan kennarinn reynir að frelsa barnið mun aldrei hverfa úr minni. Kennarinn var síðan handtekinn.
Í vitnaskýrslum frá fyrrverandi hermönnum, sem starfað hafa á svæðinu, sem ísraelsku samtökin Breaking the Silence hafa staðið fyrir sést skýrt hverskonar hugarfar hermenn koma með inn á Vesturbakkann og Hebron. Þetta unga fólk, mest megnis piltar, er flest í kringum tvítugt. Ungt fólk sem hefur stimplað inn í huga sína að líta ekki á Palestínumenn sem fólk. Þetta eru ekki börn, sem þú heldur hálstaki og reynir að handtaka, heldur óvinurinn. Aldur þeirra skiptir ekki máli, né brot þeirra, sem sjaldnast er nokkurt. Þau eru öll sek frá upphafi.
Það er ótrúlegt að það sem gengur á í Hebron eigi sér stað, ár eftir ár. Aðskilnaðarstefnan, kúgunin og mannréttindarbrotin eru staðreynd. Það er greinilegt að markmið landtökufólksins og Ísraelsríkis er hægt og rólega að gera borgina ísraelska og flæma burt þá Palestínumenn sem enn búa á svæðinu. Átökum sem áttu sér stað fyrir áratugum er haldið á lofti til þess að refsa núverandi borgurum með kerfi sem gert er til þess að mismuna. Aðskilnaðarstefna Ísrael verður að linna, hvarvetna. Hernáminu verður að ljúka og ofbeldið verður að hætta. Það er okkar skylda að gleyma ekki Palestínu. Það sem á sér stað í Hebron er svartur blettur á nútímann, fortíðina en vonandi ekki framtíðina. Sýnum samstöðu með Palestínumönnum, látum ekki raddir þeirra hljóðna.