Pétur Halldórsson skrifar mikla grein í Kjarnann um varnir gegn mengun, meðal annars um birkiskóga í Bárðardal.
Þar segir hann að fyrir ofan bæinn á Hlíðskógum sé nú að koma upp birki þar sem sauðfé hafi haldið fjallinu skóglausu með beit.
Frá því að ég man eftir (ég er fæddur 1937) var sauðfénu beitt sem kostur var í fjallið og á Valley þegar Vallakvísl var ísilögð. Að sjálfsögðu var fénu ekki beitt í skóginn nema þegar snjólaust var en á vetrum var skógurinn yfirleitt fullur af snjó, því var beitarsvæðið ofan skógarins. Hafa ber í huga að tilvera fólks hér byggðist að langmestu leyti á sauðfjárbúskap.
Það má segja að það væri töluvert merkilegt, nær ómögulegt, að land tæki ekki breytingum við friðun eða mjög minnkandi ágang sauðfjár, því betur.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_07/40[/embed]
Bændur vel meðvitaðir
Alveg frá upphafi 20. aldar hafa bændur hér verið vel meðvitaðir um gildi birkiskóga og varðveislu þeirra, þó að þá væri hugtakið eða staðreyndin um mengun jarðar af mannavöldum ekki komin til. Allmiklar deilur urðu hérlendis þegar kom fram á Alþingi skömmu eftir aldamótin 1900 tillaga um að friða og girða alla birkiskóga sem þá voru enn eftir á landinu. Margir bændur urðu mjög andvígir og reiðir yfir tillöguflutningi þessum og töldu að óbúandi yrði á jörðunum.
Páll H. Jónsson, hreppstjóri á Stóruvöllum í Bárðardal, skrifaði grein þar sem hann útskýrði tilganginn með hugmyndinni.
Jafnframt skýrði hann hvernig bændum bæri að umgangast birkiskóginn, sem þá var töluverður á flestum jörðum á Vesturkjálka Bárðardals, frá Hlíðarenda til Mýrar. Þar voru þá skógarleifar syðst í landi jarðarinnar og nyrst.
Langmesta skógarjörðin var og er Halldórsstaðir, þar næst Sandhaugar.
Lítill skógur var þá í Stóruvallalandi utan Torfskógurinn sem tæpast var lengur nýtanlegur til eldiviðar, en mikill skógur nyrst í landi Stóruvalla, þar sem frá 1926 er býlið Hlíðskógar (fornt nafn).
Nýting skógarins var til eldiviðar og kolagerðar. Um 1880 var ekki lengur neinn skógur það stórvaxinn í vesturhlíðum Bárðardals að gera mætti þar kol.
Ekki allir skógar friðaðir
Síðast voru gerð kol á Sandhaugum um það árabil. Mikill markaður var fyrir viðarkol t.d. í Eyjafirði enda allur skógur þar upp eyddur. Algengt var að bændur kæmu hestum sínum til vetrarbeitar þangað og greiðslan var ein tunna af viðarkolum með hverjum hesti en það fór saman, að steinkol fóru að berast til Íslands, og féll markaðurinn fyrir viðarkolin og gerð viðarkola hætti.
Hugmyndin um friðun allra skóga á Íslandi náði auðvitað ekki fram að ganga sökum kostnaðar en Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur voru girtir og friðaðir, og ef til vill fleiri skógar á landinu.
Hálsskógur féll sökum Kötlugoss 1755 (sjá Fnjóskdælasögu bls. 249 í neðanmálsgrein, úr ferðabók Ebenezers Henderson) sem var það mesta í sögunni, þá féll líka skógur austur á Héraði.
Séra Gunnar Sigurðsson á Hallormsstað talar um Móðuhallærið hið fyrra.
Gjóskulagið í Skarfártungum var talið að jafnaði á um 30 cm þykkt. Gríðarleg aska féll á skóginn sem þá þakti núverandi Hálsmela. Á þessu sést hve tilviljunarkennt er hvernig áhrifa eldgosa gætir. „Leifar skógarins má sjá austan árinnar (Fnjóskár) er þar fjöldi af rótarstúfum birkitrjáa, sum alltað tvö fet í þvermál“ (úr ferðabók Ebenezers Henderson).
Séra Jón Þorgrímsson var prestur á Hálsi 1739 til 1795 og því var það í prestskapartíð hans sem skógurinn féll.
Ég sóttist mjög eftir að fara með föður mínum á haustin er hann fór til skógar að höggva birkihríslur til eldiviðar. Hann fór eftir fyrirmælum hvernig skyldi höggva, aldrei beint upp brekkuna heldur þvert á brekkuna, höggva helst liggjandi tré, ekki þau beinvöxnu, sem sagt grisja skóginn, því eru hér og þar í brekkunum ennþá reitir þar sem er þyrping fallegra hvítstofna trjáa. Þau eru beinvaxin og standa yfirleitt upp úr öðrum skógi.
Skógurinn í Sandhaugalandi er nær samfelldur frá því nyrst í Vallaklifi að merkjum móti Hlíðarenda og skógurinn á Hlíðarenda endar auðvitað þar sem hlíðin endar.
Svo eru skógar leifar nyrst í Hvarfslandi og syðst í Öxarárlandi.
Allir þessir skógar eru stækkandi og breiðast út. Mestu skipti að eftir smölun í september er sauðfé ekki sleppt aftur í fjallið, á það við á nær öllum jörðum á Veturkjálka. Skógur sem ekki er nytjaður hvorki til eldiviðar né beitar, vex óhindrað og þéttis óhóflega. Á snjóþungum vetrum leggst nýgræðingurinn undan brekkunni og snjóþyngslunum, þá er með öllu ógengt um skóginn og hann ekki smalaður nema með góðum smalahundum.
Rótarskotin þurfa frið
Til þess að skógurinn geti endurnýjað sig þurfa rótarskotin að hafa frið til að vaxa en þau eru konfektið fyrir sauðféð, því skiptir máli fyrir endurnýjun birkiskóga að sprotarnir fái frið á vorin og á haustin. Hins vegar eru eiginleikar nýgræðinganna þannig að þeir eru of þéttir og margir, svo að fá tré vaxa upp og ekki koma upp fallegar hríslur, ekkert vaxtarrými. Þetta er öllum sjáanlegt í Vallaklifi, þar sem vegaskurðirnir eru að fyllast. Nú á síðustu árum hefur birkiskógurinn skriðið upp fjallið hér ofan Hlíðskóga, upp að bratta, eru það runnar, þéttir og liggja undir snjó á vetrum. Hófleg beit á skógivaxið land er í góðu lagi bara ef sauðféð er ekki haft of lengi hvert sumar á landinu.
Mér eiginlega blöskrar hvaða breytingar hafa orðið á skömmum tíma á gróðurríkinu í brekkum Vallafjalls. Lagvaxinn gróður, svo sem hrútaberjalyng og jarðarberjalyng, er að hverfa undan ofríki t.d. blágresis og bláberjalyngið er að kaffærast. Gróðurinn er fábrotnari en var og gönguleiðir torsóttar, svo ekki sé meira sagt, ég ruddi gönguleiðir um brekkuna. Ég tel að mannkynið standi frammi fyrir ógn vegna umsvifa sinna, sem ógna afkomu okkar og við öll berum ábyrgð á. Það er ekki á allt kosið.