Harðar umræður hafa átt sér stað á Alþingi vegna þeirrar stöðu sem er uppi í kjaradeilum opinberra starfsmanna og ríkisins. Í dag svaraði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, um stöðuna á vinnumarkaði og verkföll hjá hinu opinbera.
Þar sagði Bjarni meðal annar að það væri ekki „hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann. Það geta ekki allir endalaust fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum“. Síðar í umræðunni sagði Bjarni: „Lærdómurinn sem við eigum að draga núna er sá að ef við höldum áfram á þeirri braut en ætlum okkur ekki um of í einhverjum leiðréttingum og kjarabótum í gegnum taxtahækkanir eða nafnlaunahækkanir þá getum við notið enn lægri vaxta og viðvarandi lágrar verðbólgu“.
Þessar leiðréttingar sem Bjarni hafnar til að vernda okkur gagnvart verðbólgu eru ekki einu leiðréttingarnar sem hafa verið til umræðu undanfarin ár. Skemmst er að minnast þess að eina stóra málið sem sitjandi ríkisstjórn hefur náð að klára á þessu kjörtímabíli fékk nafnið „Leiðréttingin“ og snérist um að deila skaðabótum með tilviljunarkenndum hætti á þá sem höfðu verið með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. "Leiðréttingin" var svo mikil leiðrétting að rétt þótti að hafa hana með greini.
Alls verður 80 milljörðum króna skipt á milli þess hluta Íslendinga sem tilheyra umræddum hóp. Skiptir þar engu hvað viðkomandi er með í tekjur, hvað hann skuldar í húsnæðislán eða hversu miklar eignir hann á. Allir fá millifærslu úr ríkissjóði, sem hæst getur numið fjórum milljónum króna, svo lengi sem þeir voru með verðtryggt húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Og „Leiðréttingin“ verndar Íslendinga ekki fyrir verðbólgu. Þvert á móti veldur hún verðbólga, enda skapar hún ruðningsáhrif á fasteignamarkaði. Á Íslandi er húsnæðisliðurinn nefnilega hluti af neysluvísitölunni og því leiðir hækkandi húsnæðisverð til…hærri verðbólgu.
Áður en „Leiðréttingin“, með stóru L-i, varð að veruleika hafði hækkandi húsnæðisverð reyndar leiðrétt það tap á eigin fé í húsnæði sem varð við verðbólguskot áranna 2008 og 2009 hjá stórum hluta þeirra sem fengu peninga úr ríkissjóði, en það var ekki talið skipta máli. Skaðabæturnar skyldi samt greiða.
Í aðdraganda hinna umfangsmiklu skuldaleiðréttinga var því ítrekað haldið fram af þingmönnum Framsóknarflokksins að þeir sem voru með verðtryggð lán hefðu „setið eftir“ þegar skuldir fyrirtækja voru afskrifaðar, þegar yfirskuldsett heimili fengu að lækka skuldir sínar niður í 110 prósent af virði húsnæðis og ólögleg gengislán endurreiknuð.
Miðað við umræðuna á þingi að undanförnu er ljóst að það virðist í lagi að læknar fái miklar launahækkanir, en að hjúkrunarfræðingar sitji eftir. Það virðist vera í lagi að hækka lágmarkslaun en láta öryrkja og lífeyrisþega sitja eftir. Það virðist vera í lagi að gefa 80 milljarða króna úr ríkissjóði, meðal annars til fokríks eignarfólks, en að láta opinbera starfsmenn sitja eftir.
Í bakherberginu eru flestir sammála um að það sé skynsamlegt að laun hækki ekki fram yfir það sem hagkerfið hefur efni á að greiða. Líkt og fjármála- og efnahagsráðherra sagði á þingi í dag þá geta ekki allir fengið endalausar leiðréttingar. En menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér. Það er ekki hægt að leiðrétta, og "Leiðrétta", bara suma.