Daður íslenskra stjórnmálaafla við útlendingaandúð og hræðslu við hið óþekkta hefur verið fyrirferðamikið fréttamál annað veifið undanfarin misseri. Frjálslyndi flokkurinn reyndi á sínum tíma að notfæra sér slíkt daður fyrir þingkosningarnar 2007 án þess að það skilaði þeim öðrum árangri en að flokkurinn lognaðist út af skömmu síðar. Framsókn og flugvallarvinum tókst betur til í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna 2014 þegar fylgi framboðsins fór úr undir þremur prósentum upp í 10,5 prósent á nokkrum dögum eftir að moskumálið svokallaða komst í hámæli.
Sá árangur sem daðrið við útlendingaandúðina skilaði hefur vakið önnur stjórnmálaöfl til umhugsunar um hvort þetta sé pottur sem vert sé að hræra í til að ná í atkvæði. Hóflegir leiðarar um harðari innflytjendastefnu hafa verið skrifaðir í Morgunblaðið um málið og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor og fyrrum áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað opinberað skoðanir sínar um hertari innflytjendastefnu. Hann setti síðast inn Facebook-stöðuuppfærslu um liðna helgi þar sem stóð: „Málið er einfalt: Við eigum að opna landið fyrir duglegu hæfileikafólki (eins og gyðingarnir voru til dæmis fyrir stríð), sem vill vinna í eigin þágu og annarra. Okkur er það líka skylt skv. alþjóðasamningum. En við eigum að loka landinu fyrir afbrotamönnum, bótaleitendum, áreitnum öfgamönnum og smitberum. Enginn getur bannað okkur það.“
Þá er frægt þegar Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðraði hugmyndir sínar um að bakgrunnur allra múslima á Íslandi yrði kannaður vegna þess að hann væri hræddur um að þeir væru hryðjuverkamenn. Forysta Sjálfstæðisflokksins, og ungliðar hans, brugðust hart við og skoðunin fékk engar undirtektir. Það virðast því ekki miklar líkur á því að Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar muni hræra í útlendingaandúðarpottinum þótt gömlum valdaöflum innan flokksins hugnist það augljóslega.
Umræðan um útlendingaandúð hefur blossað upp á ný undanfarna daga eftir fréttaflutning af mögulega HIV-smituðum flóttamanni sem mögulega hefur smitað konur af veirunni. Í þeirri umræðu hefur komið í ljós að nóg er til af fólki sem er meira en tilbúið að kjósa stjórnmálaafl sem berst fyrir harðari innflytjendastefnu.
Einn staður þar sem slíkar yfirlýsingar er að finna er þráður á Facebook-síðu Gústafs Níelssonar, manns sem Framsókn og flugvallarvinir skipuðu á sínum tíma í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, en sú skipun var síðan dregin til baka eftir að skrif hans um Islam og samkynhneigða voru dregin upp á yfirborðið.
Fósturlandsins Freyja lætur ekki að sér hæða. Auðvitað er það partur af nútíma kvenfrelsi að mega girða niðrum sig fyrir...Posted by Gústaf Níelsson on Friday, July 24, 2015
Í stöðuuppfærslu Gústafs er látið að því liggja að mál flóttamannsins sýni þeim sem hafi gagnrýnt málflutning hans í innflytjendamálum í gegnum tíðina að hann hafi rétt fyrir sér. Og ummælin sem fylgja fréttinni sýna að það er alls ekki skortur á fólki sem deilir skoðunum hans.
Það verður áhugavert hvort eitthvert stjórnmálaafl ákveði að svala þessari eftirspurn í aðdraganda næstu þingkosninga.