Útlit er fyrir að húsnæðismálin blandist inn í kjarabaráttuna sem nú gengur yfir eins og sterk norðanátt með tilheyrandi kulda og látum. Flest verkalýðsfélög hafa mótað sér stefnu í húsnæðismálum og inntak þeirra er nokkuð svipað. ASÍ kallar eftir öruggu og góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum enda sé það grundvallarþáttur í velferð launafólks. Starfsgreinasambandið lýsir yfir þungum áhyggjum af húsnæðismarkaðnum og harmar að sífellt sé erfiðara fyrir fólk að kaupa eða leigja húsnæði og fjölmargir eigi erfitt með að standa undir hækkandi afborgunum lána.
...að pissa í skóna sína
Kröfur flestra verkalýðsfélaga í kjaradeilunni hljóða upp á verulega hækkun launataxta. Í fjölmiðlum er því slegið upp að kröfurnar geti verið á bilinu 20 – 50%. Lítið ber á umræðu um þá stöðu sem gæti komið upp á húsnæðismarkaði verði kröfur verkalýðsfélaganna að veruleika. Á fundi peningastefnunefndar seðlabankans 13. maí var farið yfir möguleg áhrif þess að hækka laun um 30% á þriggja ára tímabili. Niðurstaðan kemur kannski ekki á óvart en verðbólga myndi aukast töluvert og gengi krónunnar lækka. Til þess að vinna gegn verðbólgu þyrftu vextir að hækka sem myndi draga úr atvinnu og fjárfestingu og þar með hagvexti. Sumum (jafnvel hagfræðimenntuðum verkalýðsforkólfum) finnst erfitt að kyngja þessari staðreynd þrátt fyrir að hafa talað ítrekað um mikilvægi stöðugleika fyrir tveimur árum síðan.
Það að verðbólga og vextir hækki hefur í för með sér að húsnæðislán hækka og greiðslubyrði eykst. Það er því í besta falli undarlegt að veraklýðsfélögin reki kjarastefnu sem svo augljóslega vinnur gegn markmiðum verkalýðshreyfingarinnar um öruggt húsnæði á eðlilegum kjörum fyrir launþega. Sem dæmi þá hækkar heildargreiðsla hefðbundins 20 milljóna króna verðtryggðs húsnæðisláns til 40 ára úr 47,9 milljónum króna í 93,6 milljónir króna ef verðbólga á lánstímanum er 5% í stað 1,7% eins og staðan er í dag. Munurinn er því um 46 milljónir króna!
Fyrirhugaðar skattalækkanir teknar í gíslingu
Skattar á Íslandi eru háir og þá mætti lækka til að auka ráðstöfunartekjur almennings. Ríkisstjórnin hefur haft uppi áform um að lækka skatta á almenning t.d. með afnámi tolla. Um áramótin voru vörugjöldin afnumin, en það var 5 milljarða kærkomin skattalækkun. Til þess að hægt sé að ráðast í frekari skattalækkanir þurfa aðstæður að vera með þeim hætti að það ógni ekki stöðugleika. Verði áform verklýðsfélaga að veruleika er ljóst að líkur á miklum skattalækkunum verða hverfandi. Sennilega er það markmið þeirra sem reka baráttuna að koma í veg fyrir almennar skattalækkanir enda samræmist það ekki þeirri stjórnmálastefnu sem flestir verkalýðsforkólfar aðhyllast.
Launahækkanir ógni ekki stöðugleika
Að undanförnu hafa Íslendingar búið við óvenju mikinn efnahagslegan stöðugleika sem hefur skilað auknum kaupmætti launa. Verðtryggð lán hafa haldist stöðug og það mætti hugsa sér að ef þetta ástand verður viðvarandi þá væri hægt að lækka vexti sem er mikið hagsmunamál. Því er brýnt að menn nái saman um raunhæfar launahækkanir þar sem hinum margumtalaða stöðugleika er ekki ógnað með áðurnefndum afleiðingum. Það er hagsmunamál þjóðarinnar að slíkir samningar nái fram að ganga.
Höfundur er verkfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.