Hún er sérkennileg blinda þingmanna og ráðherra Sjálfstæðismanna sem geta ekki séð einfalt samband orsakar og afleiðingar. Þau hafa talað fyrir frelsi á tíma heimsfaraldrar og talið sjálfum sér og örlitlum hópi skoðanasystkina að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda sé um að kenna en það sé ekki veiran sjálf sem valdi þessu. Ráðherrar eru nú í óða önn að beita frelsi barna fyrir sér. Þetta eru að mínu mati ódýrir og næstum ógeðfelldir pólitískir frasar meðan þau leggja aldrei fram nein rök máli sínu til stuðnings.
Við megum aldrei falla í þá gryfju að tala í frösum, að lofa einföldum lausnum. Mér finnst næsta augljóst að það er veiran sem hefur skert frelsi okkar. Auðvitað kann ég að hafa rangt fyrir mér en mín skoðun byggist meðal annars á því að ég hef ekki enn séð neitt dæmi um þjóð sem hefur farið þá leið að halda samfélaginu opnu en hafa ekki seint og um síðir þurft að beygja sig undir vilja veirunnar með mun harðari aðgerðum en við höfum séð hér á landi. En auðvitað kann ég hafa rangt fyrir mér, en ég vildi þá gjarnan heyra af slíkum dæmum. Þórdís Kolbrún ráðherra kvartar yfir því að bara sé horft á sýkingartölur og dauðsföll Það er einn mælikvarði. Þórdís virðist þó gefa í skyn að þessi góði árangur hér á landi hafi verið keyptur með frelsisskerðingu okkar, ekki síst barna og unglinga.
En hvað með stöðu ungmenna og barna hér á landi? Það er látið í það skína að þessi hópur hafi þurft að taka á sig byrðar umfram jafnaldra sína í nágrannaríkjum. Börn og unglingar þurfa félagslíf, þau þurfa að umgangast jafnaldra og þau þurfa frelsi. Þegar við beitum börnum og unglingum fyrir málstað okkar þá er það minnsta sem maður getur gert að færa einhver rök fyrir máli sínu. Ég hef engin rök séð að börn og ungmenni á Íslandi hafi þurft að færa meiri fórnir en í nágrannaríkjum austan hafs eða vestan. Ég held raunar að þau hafi fengið meira frelsi á þessum hrikalega erfiða tíma en í mörgum nágrannaríkjum okkar. Enn og aftur, kannski hef ég rangt fyrir mér en ef svo er vildi ég sjá í það minnsta einhver rök í málinu. Hvað með athafnafrelsi og atvinnulíf. Hefur það verið takmarkað meira hér á landi en annar staðar? Ef að viljum tryggja frelsi þurfum við að vita hvernig það er gert á tímum heimsfaraldurs. Við þurfum rök og við þurfum gögn. Annars er líklegt að frelsinu verði fórnað á altari pólitísks rétttrúnaðar.
Ef að forysta Sjálfstæðisflokksins hefur aðra framtíðarsýn þá þarf hún að skýra hana út með betur útfærðum hætti en að bera fyrir sig frelsi barna og ungmenna án þess að hafa nein handbær rök fyrir máli sínu. Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins vill hafa fleiri mælikvarða á árangur vil ég vita hvaða mælikvarðar það eru og sjá hvernig við stöndum okkur í samanburði við aðrar þjóðir. Það er svo sannarlega í lagi að spyrja spurninga. En þegar forystufólk í samfélaginu spyr mánuðum saman sömu spurninganna án þess að gera minnstu tilraun til að svara þeim sjálft eða með hjálp sérfræðinga og fræðimanna sem þau hafa aðgang að þá finnst mér lítið mark takandi á slíkum spurningaflóði. Ég vona að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leiti markvisst að svörum við spurningum sínum á nýju ári. Næst þegar þau vilja nýjar leiðir þá er óskandi að þau hafi svör við spurningum sínum og leiðir til lausnar byggt haldgóðri þekkingu. Það hafa farsóttaryfirvöld gert og á það hefur heilbrigðisráðherra hingað til hlustað. Meginþorri þjóðar hefur stutt heilbrigðisyfirvöld og það geri ég líka.
Höfundur er prófessor við Læknadeild HÍ.