Lífeyrissjóðir eru allt of margir í landinu fyrir tæplega 369.000 manna þjóð. Það eru allt of margar stjórnir, framkvæmdastjórar, lífeyrissjóðsstjórar o.s.frv. á launum. Þar er að auki svimandi hár rekstrarkostnaður. Skemmst er að minnast þegar að upp komst um svindl í apríl að Init hefði um árabil rukkað lífeyrissjóði fyrir vinnu sem efasemdir væru um að stæðist lög. Þá hefðu hundruð milljóna króna streymt úr félaginu til dótturfélagsins Init-reksturs, sem virtist ekki hafa annan tilgang en að fela arðgreiðslur þess.
Oft eru það atvinnurekendur stórfyrirtækja sem að sitja í stjórnum þessara sjóða og kaupa hlutabréf í fyrirtækjunum sínum eða vina sinna sem að skipta milljörðum, jafnvel tugum. Líka eru tekin ríkisbankalán út frá því og stofnað til skulda. Eigendur borga sjálfum sér arð út frá þessum kaupum og lánum sem að renna svo í skattaparadís til að sleppa við skattlagningu. Þá lenda þessi fyrirtæki í rekstrarvanda sem að er oft reddað með því að skipta um kennitölu. Í öðrum löndum t.d. í Frakklandi þá er óheimilt að borga arð sem að kemur inn vegna lífeyrissjóða eða ríkisbankalána. Í Þýskalandi sem er 84 milljóna manna þjóð er einn lífeyrissjóður sem að gildir fyrir alla. Við viljum í stefnuyfirlýsingu Landsflokksins nánari samvinnu við lífeyrissjóði og að þeir dreifi sér betur á atvinnugreinar í landinu og fjárfesti í fleiri litlum og meðalstórum fyrirtækjum í formi smærri styrkja, lána og hlutabréfakaupa. Að öllum verði óheimilt að borga arð úr fyrirtækjum sem eru á ríkisbankalánum, ríkisstyrkt eða fjárfest er í af lífeyrissjóðum.
Við munum koma með tillögur að sameiningu lífeyrissjóða, lækkaðan rekstrarkostnað og að félagsmenn verði kjörnir fulltrúar í stjórn. Stjórnarmenn mega ekki hafa nein hagsmuna- eða persónuleg tengsl við ákvarðanatöku eða hverskyns vanhæfi. Við ætlum einnig að beita okkur fyrir því að stórafskriftir fyrirtækja verði rannsakaðar. Finnist eitthvað óeðlilegt og óheiðarlegt við afskriftirnar verða þeir sóttir til saka sem á þeim bera ábyrgð. Allar eigur þeirra verða gerðar upptækar í ríkissjóð sem skilar sér í formi bættra atvinnuvega, uppbyggingu innviða landsins og lægri sköttum á almenning og fyrirtæki í landinu.
Hrokafull sjálfhverf spillingapólitík í landinu
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að gamla pólitíkin vinnur ekki fyrir fólkið í landinu? Þá á ég við flokka sem að eru Samfylkingin, Vinstri grænir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eða flokkar klofnir út frá þeim s.s. Miðflokkurinn og Viðreisn. Þessir flokkar hafa ekki áhuga á að breyta neinu til góðs í þjóðfélaginu þó að þeir segi það alltaf fyrir hverjar kosningar. Vegna þessa fá örfá mál fram að ganga. Í undirliggjandi stefnu þessara flokka eru þeir allir tengdir við fáveldisstjórn. Óformlega getur hugtakið fáveldi vísað til fámenns hóps sem vegna einhverskonar sérréttinda hefur komist til valda. Flokkarnir hafa einnig verið tengdir við fáveldisstjórn sökum ítaka stórfyrirtækja og margmiljarðamæringa við stjórn landsins.
Þjóðin á að fara að hugsa sem heild, en ekki fyrir einhverjar smáklíkur sem þessir flokkar eru. Þeir eru að sundra fólki í samfélaginu. Það er hrokafull spillingar og hægræðingarpólitík í landinu sem að kemst upp með hvað sem er, því það er ekki neitt aðhald. Megnið af íslenskum þingmönnum og ráðherrum líta svo stórt á sig að þeir kunna ekki að fara með völd. Vald er ekki eitthvað sem kemur frá hroka, frekju, hræðsluáróðri, þvingunum, skipunum eða að valta yfir fólk með niðurlægingu. Það er sjálfsprottið þegar að þú sýnir fólki í kringum þig umhyggju, skilning, virðingu og leiðsögn. Þá fær fólk trú og treystir á þig. Það eru raunveruleg völd.
Löngu fullreynt og úrelt kerfi afleitra stjórnmálaflokka
Það ætti að löngu vera búið að fullreyna þetta kerfi sem að þessir flokkar eru. Þeir virka bara ekki fyrir almenning. Það tekur of langan tíma að keyra málum í gegn. Flokkar í ríkisstjórn þurfa að koma sér saman um stjórnarsáttmála sín á milli og kljást svo við stjórnarandstöðu. Væri ekki nær að hafa þingmenn frjálsa og óháða frá stefnum flokkanna?
Ef það yrðu persónukjör þá myndu valdagræðgi, spilling og ósamvinnuþýðu frekju vandamál heyra sögunni til. Það yrðu engir stjórnmálaflokkar, hvorki í ríkisstjórn né í stjórnarandstöðu. Fólk gæti þá líka væntanlega starfað saman á Alþingi. Almenningur gæti lagt af þessa klíkumyndun sem að þessir flokkar eru og sameinað þannig betur þjóðina. Landsflokkurinn leggur til að sett verði ný lög á Alþingi Íslendinga í lok kjörtímabils 2025 um að næstu- og framtíðarkosningar um að einstaklingar með kosningarstefnumál verði einungis kosnir á þing, en ekki stjórnmálaflokkar. Munu þá fulltrúar setjast á þing með þjóðarstefnumál sem að fá hvað mest fylgi almennings og eru réttkjörnir fyrir málefni sín. Þessi lög eiga að vera til þess að sporna við hverskyns spillingu og misbeitingu valds pólitískra hópa í þjóðfélaginu, klíkumyndunar og vegna sameiningar lands og þjóðar.
Við teljum að flokkspólitík eigi ekki við lítil lönd eins og Ísland, þar sem að hætta er á klíkuskap í opinberum geira sem er miður gott fyrir þjóðfélagið og getur sundrað þjóð sem heild. Við viljum að almenningur í landinu fái að kjósa um lögin í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Vegna þessarar stefnu þá verður engin skráning í Landsflokkinn. Fólk fer bara á kjörstað í haust og kýs flokkinn án allra skuldbindinga.
Höfundur er listamaður, kvikmyndagerðarmaður og formaður Landsflokksins.