Nú er nýliðin ráðstefnan COP26 um loftslagmál, sem haldin var í Glasgow. Fyrir liggur lokasamþykkt þeirra ríkja sem að ráðstefnunni komu, fögur loforð um aðgerðir þegar fram líða stundir. Það er þó ágætt að draga fram það sem ekki er minnst á í þessari samþykkt. Það sem er skilið út undan og ekki rætt segir hugsanlega jafn mikið um eðli þessarar samkomu og það sem á endanum var sett niður á blað.
Það var til dæmis ekki rætt um kolefniskvóta í Glasgow þrátt fyrir að sú nálgun hafi verið meginstef og mjög skýrt sett fram í nýrri skýrslu milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Það var minnst á kolefniskvóta í drögum að samþykktinni en setningin var klippt út úr endanlegu útgáfunni. Við höfum mjög góð gögn og mjög skýr takmörk um hvað við getum sett mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið ef við ætlum að halda okkur innan þeirra hlýnunar marka sem hafa verið samþykkt. Það eru á bilinu 300 til 900 GtCO2 (milljarðar tonna af koltvíoxíði) ef við viljum lenda á bilinu 1,5 til 2°C af hlýnun.
Sem stendur brennir heimsbyggðin um 37 GtCO2 á ári. Ef okkur tekst að standa í stað, sem væri afrek út af fyrir sig miðað við söguna, brennum við í gegnum kvótann á 8 til 24 árum. Þetta er kvótinn sem við höfum, ef okkur er alvara með að halda okkur við 1,5°C af hlýnun þá höfum við 300 GtCO2. Það þarf að dreifa þessum kvóta á milli heimshluta og yfir þann tíma sem við viljum hafa til að aðlagast.
En það er ekki rætt um þessar tölur, þetta er ekki nálgun sem þjóðir heimsins vilja taka á vandann. Ein ástæða er sú að enginn vill samþykkja aðgerðir sem setja hart þak á útblástur því það gæti valdið efnahagslegum samdrætti. Þær aðgerðir og áætlanir sem settar eru fram eru mýkri og sveigjanlegri (lesist: auðveldara að komast í kringum eða einfaldlega hunsa þær). Þær ganga að mestu leyti út á kolefnisbindingu í framtíðinni, með tækni sem ekki er enn til, og að setja upp grænt hagkerfi til hliðar við algerlega óheft jarðefnaeldsneytishagkerfi og vonast til að með tímanum muni draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta þegar og ef græna hagkerfið nær yfirhöndinni á frjálsum markaði.
Æpandi þögn um jarðefnaeldsneyti
Þetta er einfaldlega ekki góð aðferðafræði þegar við vitum nákvæmlega hversu mikinn kvóta við höfum. Þetta leiðir okkur líka að hinu atriðinu sem var æpandi þögn um í Glasgow, lykilatriði sem verður ekki leyst nema í breiðri alþjóðlegri samvinnu. Það þarf að gera alþjóðlegan sáttmála um að byrja ekki á nýjum uppgreftri jarðefnaeldsneyta, og skilja þau jarðefnaeldsneyti sem ekki er nú þegar byrjað að vinna eftir óhreyfð í jörðinni.
Það lengsta sem náðist í þá átt á COP26 var samþykkt 40 ríkja um að hætta að nota kol fyrir 2040, en stærstu kolanotendur heims skrifuðu ekki undir það samkomulag. Í lokasamþykktinni sem allar þjóðir skrifuðu undir var talað um að „flýta aðgerðum til að draga úr kolanotkun“ frekar en að hætta kolanotkun. Reyndar er það eina málsgreinin í lokasamþykktinni þar sem orðin kol eða jarðefnaeldsneyti koma fyrir og það er hvergi minnst einu einasta orði á olíu.
Ef við fullnýtum allar þær námur og borholur sem til eru í dag förum við yfir þann kvóta sem við höfum. Ef við ætlum ekki koma af stað keðjuverkandi hlýnunar vítahringrás í andrúmslofti jarðarinnar þá má einfaldlega ekki byrja á nýjum námum eða borholum. Þau fyrirtæki og þjóðríki sem eru að grafa upp jarðefnaeldsneyti eru engu að síður að skipuleggja áframhaldandi uppgröft að minnsta kosti 30 ár fram í tímann og fjárfesta í dýrum innviðum á borð við olíuborpalla og risavaxnar námur. Ef, þegar fram líða stundir, við setjum bann á frekari uppgröft í samræmi við kvótann sem er til staðar verða þetta strandaðar fjárfestingar. Verðmæti sem var búið var að reikna með inn í hagkerfi heimsins verða allt í einu innantómri bólu sem springur og getur hæglega valdið hnattrænni fjármálakrísu.
Það virkilega þarf að nást alþjóðlegur sáttmáli um bann á frekari uppgreftri á jarðefnaeldsneytum og stýringu á alþjóðlegum mörkuðum með þau. Slíkur sáttmáli verður að vera alþjóðlegur, það er ekki nóg að stök ríki skuldbindi sig til þess að hætta. Ástæðan er sú að á meðan verslað er með jarðefnaeldsneyti á frjálsum markaði heimshorna á milli þá vill samdráttur á einum stað í kerfinu valda bakslagi annarstaðar. Ef neysla á olíu dregst til dæmis saman á einum stað þá lækkar markaðsverð og hún verður að ákjósanlegri orkugjafa einhverstaðar annarstaðar. Þessum bakslagsáhrifum má líkja við blöðru, ef maður kreistir hana saman á einum stað blæs hún út annarstaðar. Eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkt bakslag er að hleypa lofti úr blöðrunni. Víðtækt alþjóðlegt bann við nýjum uppgreftri jarðefnaeldsneyta er eina skynsamlega leiðin til að hleypa loftinu úr blöðrunni. Allar aðrar aðgerðir eru líklegar til að valda bakslagsáhrifum og enda með tilfærslu á vandamálinu frekar en að leysa það.
Þetta er ekki auðvelt verkefni. Það eru risavaxin fyrirtæki sem hafa gífurlega hagsmuni að verja og nánast ótæmandi fjármuni sem þau veita í að hafa áhrif á stjórnmálin í þeim gagngera tilgangi að koma í veg fyrir slíka stefnu, og það eru þjóðríki sem eiga nánast allan sinn efnahag undir vinnslu jarðefnaeldsneyta. En þetta er staðan sem við erum í, hún er ekki góð og ekki auðveld, en vísindin eru skýr og eðli verkefnisins liggur fyrir. Leiðtogar þjóðríkja heimsins kusu að horfa fram hjá þessu í Glasgow, það er okkar allra að láta þau ekki komast upp með það.
Höfundur er heimspekingur og félagi í Umhverfisráði Sósíalistaflokks Íslands.