Rannsóknir og þróun eru drifkraftur efnahagsframfara í nútímasamfélagi. Án þeirra getur nýsköpun ekki orðið að veruleika. Margir þeirra sem lifa og hrærast í samfélagi vísinda og nýsköpunar hafa bent á mikilvægi þess að stórauka fjárfestingu í nýsköpun, en hafa talað fyrir daufum eyrum. Á það hefur verið bent að síðastliðinn áratug hafi miklum fjármunum verið varið til nýsköpunar og hafa opinberar tölur meðal annars sýnt að 2,5-3 prósent af vergri landsframleiðslu sé varið í þennan geira samfélagsins.
Viðmið margra þjóða er að ná 3 prósenta markinu og við höfum því, samkvæmt opinberum tölum verið aðeins herslumun frá því viðmiði. Vísinda- og tækniráð setti sér það sem markmið fyrir árið 2016 og það var því samkvæmt opinberum gögnum raunhæft að við gætum náð þessu mikilvæga viðmiði.
Nú bregður svo við að Hagstofan gaf út nýjar tölur í síðustu viku um fjárfestingar í rannsóknir og þróun. Tölurnar fyrir 2013 eru hvorki meira né minna en þriðjungi lægri en við höfum séð síðastliðinn áratug; þær nema 1,88 prósentum af vergri landsframleiðslu, eða sem nemur rúmlega 35 milljörðum. Hvað gerðist? Hefur orðið hrun í þessum geira?
Skýringanna er sennilega ekki leita í hruni. Líklegra er að við höfum reiknað vitlaust síðustu áratugi. Nýlega var tekin sú ákvörðun að flytja þessa mikilvægu en flóknu útreikninga frá Rannís til Hagstofunnar enda skiptir meginmáli að við getum borið okkur saman við nágrannalöndin en í flestum tilvikum eru þessir útreikningar í höndum hagstofa viðkomandi landa. Aðferðir eru flóknar og niðurstaðan hefur afgerandi áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og atvinnulífs í vísinda- og nýsköpunarmálum.
Á meðfylgjandi línuriti má sjá í blárri línu opinberar tölur um framlög til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu undanfarin ár. Við sjáum að samkvæmt þessum tölum varð gerbreyting frá 2011 til 2013. Allt frá árinu 2000 og þar til nýjustu tölur fyrir 2013 voru birtar hefur hlutfallið verið 2,5-3 prósent. Eina augljósa breytingin sem hefur orðið er sú að útreikningar eru nú gerðir hjá þeirri stofnun sem hefur víðtækasta yfirsýn í hagtöluútreikningum.
Það má því álykta sem svo að útreikningar síðustu áratuga hafi verið ríflega þriðjungi of háir. Ef tölur fyrri ára eru leiðréttar samkvæmt þessum forsendum þá getum við séð leiðréttar tölur í rauðu línunni. Hér er um að ræða 10-15 milljarða skekkju á ári eða vel yfir hundrað milljarða síðasta áratug. Það munar um minna.
Þessar tölur setja alla opinbera stefnumótun í þessum málaflokki í uppnám. Við erum ekki að að fjárfesta til framtíðar eins og við héldum að við værum að gera. Við þurfum að snúa við blaðinu, það þolir ekki bið.
Höfundur er prófessor í lyfja- og eiturefnafræði og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands.