Árið er 1940. Stríð geisar í Evrópu. Bretar hertaka landið. Hafin er leit að stað fyrir herflugvöll nálægt Reykjavík. Bessastaðarnesið verður fyrir valinu. Þar er minni hætta á að íbúðabyggð verði fyrir loftárásum og herinn þarf ekki að flytja burt fjölmörg hús í Skerjafirði til að geta athafnað sig. Líkt og raunin hefði orðið ef Vatnsmýrin hefði orðið fyrir valinu.
Stríðinu lýkur. Herflugvöllurinn stendur áfram og gegnir hlutverki miðstöðvar innanlandsflugs. Stórhuga þingmenn leggja kapp á að tengja Bessastaðarnes við Suðurgötuna með heljarinnar brú. Það verður loks raunin í djúpu áttunni. Aksturstíminn milli Alþingis og innanlandsflugvallar á Bessastöðum verður aðeins 8 mínútur.
Vatnsmýrin byggist smám saman upp. Skerjafjörðurinn stækkar og íbúðir flæða neðan úr Öskjuhlíð. Ráðandi húsaform eru þriggja hæða fjölbýlishús, klædd skeljasandi. Eins og við þekkjum í Hlíðunum og á Melunum.
Í aðalskipulagi er tekið frá pláss fyrir nýjar byggingar fyrir Háskóla Ísland. En ráðamenn í Reykjavík vanmeta það hve mikið háskólinn á eftir að stækka. Strax í kringum 1985 fer að bera á miklum þrengslum. Skólinn þarf að leigja húsnæði út um allann bæ. Stórhuga menntamálaráðherra lofar að ganga í málið af metnaði. Hafin er leit að nýrri staðsetningu. Niðurstaðan er að háskólinn fær úthlutað 150 hektara landsvæði hjá Reynisvatni.
Stjórnendur skólans eru spenntir. Talað eru um háskóla 21. aldarinnar og allt kapp lagt á að opna hann árið 2000. Lögð er áhersla á að bílastæðavandinn verði úr sögunni, og nóg pláss fyrir kennara og nemendur til að leggja. Ný hús rísa við Reynisvatn. Gamla háskólabyggingin er tekin undir Stjórnarráðið og nálæg hús notuð sem skrifstofur fyrir ýmis ráðuneyti.
Kennarar og nemendur eru sammála um að öll kennsluaðstaða á nýja staðnum sé til fyrirmyndar. Óneitanlega er þó aðeins meiri deyfð yfir svæðinu. Einungis tvær strætóleiðir ganga að háskólasvæðinu og eru þær lítið notaðar. Eftir að aðalmötuneytið lokar kl. 16 á daginn er lítið hægt að fá að borða. Engin búð er á svæðinu, enginn bar og engin sundlaug. Utan prófatíma er fámennt um að líta flest kvöld.
***
Þótt þessi saga sé skáldskapur hefði þetta vel getað farið svona. Það gerði það í mörgum öðrum borgum. Á þann hátt getum við þakkað flugvellinum fyrir að passa upp á landið fyrir okkur og þannig óbeint að passa upp á háskólann sjálfan. Við geymdum Vatnsmýrina meðan verstu skipulagsmyndir seinustu aldar gengu yfir. Við höfum nú tækifæri til að byggja upp nýtt háskólasvæði í Vatnsmýri og tengja saman HÍ, HR og Landspítalann. Þetta tækifæri er einstakt. Það er mikilvægt að nýta það vel.
Höfundur er í öðru sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.