Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tjáði sig um vandræði Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra í ríkisstjórn hans, í tíufréttum RÚV í gær. Þar sagðist hann ekki skilja hvað Illugi hefði gert rangt og að tengsl ráðherrans við Orku Energy hefðu engin áhrif á setu Illuga í ríkisstjórn. Illugi neyddist til að selja íbúð sína vegna fjárhagsvandræða og fékk vin sin, Hauk Harðarson, til að kaupa hana og leigja sér síðan til baka. Haukur er stjórnarformaður Orku Energy, félags sem Illugi starfaði stuttlega fyrir sem ráðgjafi á árinu 2009 þegar hann var í leyfi frá þingstörfum. Illugi hefur legið undir ámæli um að hafa gert Hauki viðskiptalega greiða með því að opna fyrir hann viðskiptalegar dyr í Kína sem ráðherra.
Í bakherberginu þótti mörgum þessi orð forsætisráðherra athyglisverð í ljósi eigin orða í viðtali við Fréttablaðið 21. febrúar 2009, mánuði eftir að hann var kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Fyrirsögn viðtalsins var: „Nánast neikvætt að eiga peninga“.
Þar sagði núverandi forsætisráðherra meðal annars að það að tengja hann við fólk sem ætti peninga, til dæmis konuna hans, þætti nóg til að koma á hann höggi. Sigmundur Davíð rakti síðan að fjölskylda eiginkonu hans, Önnu S. Pálsdóttur, hefði byggt upp fyrirtækið P. Samúelsson, umboðsaðila Toyota og fleiri bifreiðamerkja á Íslandi, á 40 árum áður en það var selt til Magnúsar Kristinssonar í lok árs 2005 fyrir um sjö milljarða króna. Fyrirtækið hefði verið vel rekið og ekki hluti af loftbóluhagkerfinu sem var fyrir hrun. Þess vegna ætti eiginkona hans að vera stolt af sínum auði.
Síðan sagði Sigmundur Davíð: „Hvað mig varðar þá er þetta líka ágætt. Ég er í ágætu skjóli svo lengi sem konan mín gefst ekki upp á mér, ég fæ þá að borða og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sé hægt að ná til mín með fyrirgreiðslu eða ég þurfi að setja mig í þá stöðu að ég skuldi mönnum greiða. Ég er því frjáls til að fylgja eingöngu skoðunum mínum og beita mér jafnvel hart fyrir þeim.“
Sigmundur Davíð hafði því þá skoðun að það væri ekki hægt að ná til hans „með fyrirgreiðslu eða ég þurfi að setja mig í þá stöðu að ég skuldi mönnum greiða“ vegna þess að hann ætti svo mikla peninga. En hann hefur ekki áhyggjur af því að peningaleysi hafi mögulega sett Illuga, ráðherra í ríkisstjórn hans, í nákvæmlega þá stöðu.