Í upphafi seinustu aldar fékk vinnandi fólk loksins þann rétt að kjósa sér fulltrúa á Alþingi. Á undan því var lítill hópur af landeigendum og auðmönnum sem nutu þessara sérréttinda. Ástæðan fyrir því að þeir réðu landinu, og skildu vinnandi fólk þar útundan, var einföld: þeir áttu landið. Það að leyfa óbreyttu vinnufólki að kjósa var einfaldlega brot á þeirra eignarrétt.
Núna finnst okkur þetta hljóma fáránlega og við lítum niður á lönd þar sem fólk nýtur ekki lýðræðis. Við hreykjum okkur af því að vera lýðræðislegt samfélag, samt sem áður hunsum við þann stað samfélagsins þar sem við eyðum stærsta hluta okkar vakandi lífs: vinnustaðinn.
Um leið og þú mætir í vinnuna stígurðu inn í annan heim þar sem litlir einræðisherrar ráða öllu. Þeir ákveða hvað þú gerir, hvernig þú gerir það og hvað er gert við verðmætin sem þú skapar. Þín skoðun skiptir ekki máli, ekki ef hún er atvinnurekandanum í óhag. Fyrirtækið er hans eign og getur hann gert nánast hvað sem hann vill við það.
Þú mætir í vinnuna fimm sinnum í viku, notar þína vöðva og heila til að búa til verðmæti og þegar vinnudagurinn er búinn ferðu heim og skilur verðmætin eftir hjá atvinnurekandanum. Í staðin borgar hann þér laun.
Það er mikilvæg forsenda fyrir því að þetta fyrirkomulag eigi sér stað. Heildar verðmætin sem þú býrð til þurfa að vera meiri en peningurinn sem atvinnurekandinn borgar þér til baka. Ef þú býrð til stól sem er 10.000 kr. virði í sölu, þarf atvinnurekandinn að borga þér minna en 10.000 krónur. Ef þér er borgað virði vinnu þinnar er enginn afgangur fyrir atvinnurekandann. Í kapítalísku kerfi munt þú aldrei fá borgað virði vinnuframlagsins sem þú skilar.
Þér er sagt að þetta sé sanngjarnt vegna þess að atvinnurekandinn er að taka áhættu. En þú tekur líka áhættu. Þegar þú tekur starfinu setur þú þína framtíð í hendur atvinnurekandans. Hans ákvarðanir hafa bein áhrif á hversu góð eða slæm framtíð þín verður og þú færð ekki að taka þátt í þeirri ákvarðanatöku. Þegar vel viðrar fá eigendur meiri arð en þú færð hins vegar ekkert nema þín föstu laun. En þegar illa viðrar þá tekur atvinnurekandinn það ekki á sig. Fyrirtækið er rekið í hagnaðarskyni og ef þú stendur í vegi fyrir hagnaði, þá þarft þú að fara. Þú ert neyddur til að taka ábyrgðina og afleiðingunum af fullum þunga. Því af hverju myndi atvinnurekandi halda þér í vinnu ef hann græðir meira á að segja þér upp. Þetta hefur verið auðsjáanlegt í röðum fjöldauppsagna á seinustu árum.
Nærtækt dæmi er WOW Air. Fall WOW átti sér stað eftir röð ákvarðana frá eigendum þess. Þeir tóku áhættu, áhættu sem var tekin til að reyna að hámarka hagnað þeirra sjálfra. Útkoman var að fyrirtækið fór á hausinn. En hvað kom fyrir starfsfólkið? Það þurfti að taka afleiðingunum með fullum þunga. Það tók áhættu með því að tileinka þessu fyrirtæki stóran hluta af sínu lífi án þess að fá að taka neinar ákvarðanir um reksturinn. Eigendur WOW tóku ákvarðanir með sína hagsmuni í huga en ekki hagsmuni starfsmannanna. Starfsfólk WOW endaði atvinnulaust, með engin laun út heilan mánuð. Logið hafði verið að þeim, að laun þeirra væru örugg ef eitthvað kæmi upp á, en eigendurnir sáu sér frekar hag að nota laun starfsfólksins til að halda fyrirtækinu gangandi aðeins lengur. Ef verkalýðshreyfingin hefði ekki bjargað þessu fólki með því að lána því pening þar til þau fengu úr þrotabúinu, hefði það verið tekjulaust í meira en mánuð, áður en þau hefðu fengið atvinnuleysisbætur. Fólk hefði hrapað algjörlega á botninn, með engan pening til að borga af lánum, leigu, mat, og aðrar nauðsynjar. Fólk hefði hrapað í skuldargröf sem það kæmist jafnvel aldrei uppúr.
Þetta valdaójafnvægi tekur sér einnig ógeðfeldari mynd sem við höfum fengið að kynnast í #MeToo byltingunni, bæði innan- og utanlands. Þá var það gert auðsjáanlegt þær hræðilegu afleiðingar sem fylgja því þegar ein manneskja hefur líf annarrar í hendi sér. Þar heyrðum við ótal hrillingssögur af verknaði og aðstæðum sem fórnarlömb voru neydd í í krafti valdsins. Konum hefur verið neitað starfsframa nema það sé borgað fyrirfram kynferðislega. Fólk hefur þurft að spyrja sig hvað það er tilbúið að gera til að halda vinnunni. Síðan hefur þeim, sem gefa ekki eftir, verið refsað með uppsögnum og útskúfun úr sínu fagi af því valdamikið fólk hefur sagt öðru valdamiklu fólki að þau séu ekki þess virði að vinna með.
Þetta snýst ekki um góða og vonda atvinnurekendur, þetta snýst um það vald sem atvinnurekendur hafa yfir vinnandi fólki; hvort sem þeir misnota það eða ekki.
Samfélagið okkar er lýðræðislegt að forminu til, en atvinnurekendur hafa mikið vald yfir því hvernig því er stjórnað. Við búum í samfélagi þar sem litið er upp til fólks sem græðir mikinn pening. Það er tekið mark á skoðunum þess og þær skoðanir eru sýnilegastar í fjölmiðlum og í tali þingmanna.
Það er óþarfi að færa frekari rök fyrir því að fjölmiðlar tali almennt fyrir hag þeirra ríku; nóg er að benda á að það eru almennt þeir ríku sem eiga fjölmiðlana. Þannig hafa þeir ríku tækifærin og getuna til að móta umræðuna í samfélaginu sér í hag.
Auðmenn og fyrirtæki geta fjármagnað og styrkt stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn, beint eða óbeint. Hversu margir eiga hundruð þúsunda króna afgangs til að gefa stjórnmálaflokkum? Á sama tíma getur eitt útgerðarfyrirtæki eytt næstum því 3 milljónum í að halda þingflokkunum á sinni hlið. Til að nefna, var þriðjungur af öllum styrkjum til þingflokka, árið 2017, frá útgerðarfyrirtækjum. Hvernig á almennt vinnandi fólk að keppa við það þegar það nær varla endum saman?
Á orði eigum við öll jafna rödd í lýðræðinu. En ef sumir geta borgað til að gera rödd sína hærri en hinar þá erum við ekki með lýðræði.
Á meðan við höfum ekki efnahagslegt lýðræði mun ójöfnuðurinn alltaf grafa undan pólitíska lýðræðinu. Það að rífast um hvort ríkið eiga að hafa meira eða minna vald á efnahagskerfinu er að misskilja vandamálið. Sú umræða á að eiga sér stað eftir að við ræðum um ákvörðunarvaldið sem starfsfólk á að hafa yfir sinni eigin vinnu.
Starfsfólk myndi ekki kjósa að að flytja störfin sín út úr landi. Starfsfólk myndi ekki að kjósa að láta sig lifa á fátæktarlaunum og starfsfólk myndi ekki kjósa að gefa forstjórum ofurlaun. Starfsfólk myndi ekki kjósa að skemma náttúruna í umhverfinu sem það býr í, og starfsfólk myndi ekki segja upp fjölda fólks til að halda uppi hámarksgróða.
Það er óviðunandi að leyfa fáum að hafa svona mikið vald yfir lífi annarra og þetta valdaójafnvægi þarf að leiðrétta með tveimur aðgerðum.
I. Atvinnulýðræði
Að starfsfólk geti kosið sér fulltrúa í stjórnir þeirra fyrirtækja þar sem það starfar. Þetta fyrirkomulag er algengt í Evrópu og er til staðar í einni eða annarri mynd í flestum Evrópusambandsríkjum og öllum norðurlöndunum - nema Íslandi.
Þar sem gróði fyrirtækja eru algjörlega háður framlagi vinnuaflsins, ætt það að teljast sanngjarnt að starfsfólk skipi helming stjórnarmanna á móti fjármagnseigendum. Þannig getur starfsfólk varið sína hagsmuni, tekið þátt í að móta stefnu fyrirtækisins og dregið úr því mikla valdaójafnvægi sem ríkir í dag.
II. Starfsmanna-samvinnufélög
Ryðja þarf veg fyrir starfsmanna-samvinnufélög, hér á landi. Fyrirtæki sem eru algjörlega - og eingöngu - í eigu starfsmannanna sem þar vinna. Slík fyrirtæki eru til um allan heim og er einstaklega algengt í Ítalíu; en þar, í sumum héröðum, mynda starfsmanna-samvinnufélög meira en helminginn af hagkerfinu. En þar hefur það verið stefna ríkisins að hvetja til, og aðstoða við uppbyggingu slíkra fyrirtækja.
Í ritgerðinni ‘What do we really know about worker cooperatives’, eftir hagfræðinginn Virginie Pérotin, er farið yfir tvo áratugi af alþjóðlegum gögnum og tölfræði um starfsmanna-samvinnufélög og borið saman við hefðbundin fyrirtæki. Þetta er stærsta rannsókn sinnar tegundar.
Út frá gögnunum kemst hún að 5 niðurstöðun.
- Starfsmanna-samvinnufélög eru að jafnaði stærri en hefðbundin fyrirtæki.
- Starfsmanna-samvinnufélög lifa að minnsta kosti jafn lengi og önnur fyrirtæki og hafa meira atvinnuöryggi.
- Starfsmanna-samvinnufélög eru afkastameiri en hefðbundin fyrirtæki, þar sem starfsfólk vinnur „betur og gáfaðra“ og framleiðsla er skipulögð á skilvirkari hátt.
- Starfsmanna-samvinnufélög endurfjármagna stærri hluta af hagnaði sínum aftur í fyrirtækinu en önnur viðskiptamódel.
- Launamunur milli stjórnenda og almenns vinnufólks er mun minni í starfsmanna-samvinnufélögum en í öðrum fyrirtækjum.
Þetta félagsform er ekki til í lögum, hér á landi, og það þarf að laga. Slík félög eiga að njóta jafnræðis á við önnur rekstrarform og hafa jafnan aðgang að almennum sjóðum. Það þarf að vera auðvelt að stofna starfsmanna-samvinnufélög og það þarf að tryggja að verkalýðs-frumkvöðlar hafi aðgang að hagkvæmu fjármagni til að stofna slík félög.
Blása þarf vind í segl slíkra félaga með því að:
- Gefa starfsfólki forkaupsrétt á vinnustöðum sínum.
- Gefa atvinnulausum kost á fjármagni til að koma saman og stofna starfsmanna-samvinnufélag (í stað atvinnuleysisbóta).
- Veita starfsmanna-samvinnufélögum aðstoð í ýmsu formi, eins og námskeið og skattaafslætti.
Við ættum að gera þetta fyrir það eitt að finnast lýðræði nógu mikilvægt til að aðstoða og vernda. Fáir flokkar hafa myndað sér stefnu um þessi mál, og af þeim þykir flestum nóg að rétt nefna atvinnulýðræði.
Það er bara einn flokkur sem ég hef heyrt tala um atvinnulýðræði og starfsmanna-samvinnufélög í þessari kosningabaráttu og sá flokkur er Sósíalistaflokkurinn. Hann er eini flokkurinn sem virðist hafa það að áhersluatriði að vinnandi fólk hafi vald yfir sínu eigin lífi, eigin starfi og eigin afkomu.
Ég veit hvað ég mun kjósa í komandi kosningum og ég hvet aðra til umhugsunar um hvaða málefni þeim þykir nógu merkileg til að kjósa. En valdaójafnvæginu verður að linna. Því við erum ekki örugg á meðan aðrir hafa vald yfir okkar lífi. Því að á meðan við höfum ekki efnahagslegt lýðræði mun ójöfnuðurinn alltaf grafa undan pólitíska lýðræðinu.
Höfundur er formaður framtíðarnefndar VR.