Ég vann nokkur sumur sem gjaldkeri í banka. Þegar ég sótti um vorið 2007 voru eftirfarandi stöður lausar:
- Vinna við útreikning á vöxtum innlánsreikninga (Aðeins vélmenni geta sótt um)
- Vinna við bókhald á hlaupareikningum viðskiptavina (Aðeins vélmenni geta sótt um)
- Vinna við útreikning á gengi gjaldmiðla (Aðeins vélmenni geta sótt um)
- Vinna við talningu á mynt og seðlum (Aðeins vélmenni geta sótt um, í neyðartilvikum fólk)
- Vinna við afgreiðslu viðskiptavina (95% staða fyrir vélmenni, 5% staða fyrir fólk)
Auðvitað var þetta ekki sett svona upp. Í raun og veru vantaði eina manneskju í afleysingar. Hefði ég sótt um í útibúinu árið 1950 hefðu þessar stöður heldur ekki verið lausar, enda hefði enginn trúað mér hefði ég sagt þeim hvað við afköstuðum miklu. Við náðum, þrjú talsins, að afgreiða 2-300 manns á dag. Þrír gjaldkerar árið 1950 með stúdentspróf og góða stærðfræðikunnáttu hefðu ekki náð einum tíunda af því sem ég, próflaus menntaskólanemi, gat afkastað eftir tveggja daga kennslu. Tölvurnar sáu um rest, þar á meðal hin 95% viðskiptavinanna sem notuðu heimabanka.
Þegar rætt er um vélar sem taka yfir störf dettur flestum í hug þjarkar í verksmiðjum með svera stálarma að skrúfa tappa á tannkremstúpur eða eitthvað þvíumlíkt. En flest störf sem tölvurnar hafa tekið yfir eru flókin og krefjast menntunar. Með hjálp hugbúnaðar getur nýútskrifaður verkfræðinemi hannað brýr og háhýsi sem hefði tekið heilt teymi marga mánuði að reikna út með blaði og blýanti. Tónlistarpródúser getur búið til lag heima hjá sér á tveimur dögum sem hefði þurft margar vikur í stúdíói fjörutíu árum áður, ótal hljóðfæraleikara, upptökustjóra, hljóðmenn o.s.frv. Ótal ný störf hafa skapast eftir því sem hagkerfi heimsins þróast, en einhvern veginn gera allir ráð fyrir að þau hljóti að vera jafnmörg og þau sem hverfa. Undanfarin árhundruð hefur það haldist nokkurn veginn í jafnvægi, en nýjustu tæknibyltingar munu gerbreyta því.
Starfsöryggi hesta var í stórhættu kringum þarsíðustu aldamót. Bílar ruddu sér til rúms og höfðu brátt tekið yfir nær allar samgöngur í heiminum. Samt datt engum í hug að spyrja við hvað allir þessir hestar ættu þá að starfa. Hvers vegna ætlumst við til þess af mannfólkinu?
Nú eru þau sem vinna undir stýri í sömu stöðu og hestarnir voru einu sinni. Störf tengd samgöngum er risastór geiri, og eftir 20 ár þurfa allir leigu-, flutninga- og strætóbílstjórar að leita að nýrri vinnu. Tölvur keyra nú þegar þúsundir bíla í Bandaríkjunum, og í heiminum öllum munu tugmilljónir manna óhjákvæmilega fara á atvinnuleysisbætur eða detta út úr hagkerfinu. Tölvuforrit geta nú þegar lesið lögfræðitexta, samið tónlist, braskað með verðbréf, skrifað fréttir á netinu og afgreitt gamla fólkið í bankaútibúum á Íslandi. Vélmenni innrita nú fólk á hótelum og munu ábyggilega taka yfir öll önnur afgreiðslustörf. Ein stórkostlegasta tæknibylting sögunnar stefnir í að vera skilgreint sem vandamál út frá hækkandi atvinnuleysi. Hvað segir það okkur um kerfið?
Það er opinbert leyndarmál að vinnustundir í flestum störfum hafa lítið að gera með raunveruleg afköst. Tímakaup átti vel við í iðnbyltingunni og landbúnaðarsamfélögum 19. aldar, en í dag er fáránlegt að nota sömu mælieiningu - það er eins og að verðmerkja föt eftir vigt. Í þessu úrelta vinnukerfi er óhjákvæmilegt að atvinnuleysi myndist - raunar hvetja tækniframfarirnar til þess. Samt njóta hinir efnaminni ekki ávaxtanna til fullnustu af hinum gríðarlegu framförum undangenginna áratuga - þótt vinnusparnaður hafi orðið heima fyrir hefur atvinnuöryggi þeirra minnkað og laun staðið í stað. Þannig veikjast undirstöður hagkerfisins ef hinar „vinnandi stéttir“ halda því ekki uppi með neyslu og þjónustu.
Borgaralaun eða grunnframfærsla myndi leysa stóran hluta þessa vanda, og skilgreina upp á nýtt hvað flokkast undir vinnu, stöðugildi, tímakaup og fleira. Fólki væri einfaldlega greidd föst upphæð á mánuði fyrir það eitt að vera til
En hvað er þá til ráða? Borgaralaun eða grunnframfærsla myndi leysa stóran hluta þessa vanda, og skilgreina upp á nýtt hvað flokkast undir vinnu, stöðugildi, tímakaup og fleira. Fólki væri einfaldlega greidd föst upphæð á mánuði fyrir það eitt að vera til - ólíkt bótum myndi hún ekki dragast frá launum sem fólk ynni sér inn. Þetta myndi líka gera stóran hluta velferðarkerfisins óþarfan - fólk myndi ekki missa hvatann til að vinna, en væri ekki rígbundið við fulla „stöðu“ eins og hún er skilgreind í dag. Hámenntað fólk gæti nýtt sér sérþekkingu sína mun betur, og fátækt yrði nær útrýmt, að minnsta kosti á Íslandi. Gleymum ekki að hún kostar samfélagið óhemju fjárhæðir og lífskjaraskerðingu sem engan verðmiða er hægt að setja á.
Hugmyndin um borgaralaun er ansi gömul og gengur þvert á allar hefðbundnar flokkslínur - hún hefur hlotið stuðning frá hörðustu frjálshyggjupésum eins og Milton Friedman yfir í gallharða sósíalista og allt þar á milli. Þensluáhrif hennar yrðu ekki eins mikil og hefur stundum verið haldið fram, þar sem ekki er verið að prenta peninga heldur yrði að mestum hluta tekið yfir velferðarkerfið sem nú þegar eyðir ótrúlegum fjárhæðum í eftirlit og yfirbyggingu, svo að enginn fái nú neitt sem hann eigi ekki skilið. Að vísu er óvíst hvernig þessu myndi reiða af í jafn sturluðu hagkerfi og hinu íslenska, með sinn ónýta gjaldmiðil og haftabúskap, en að láta það stoppa sig væri eins og að sækja hjónabandsráðgjöf frá Snæfríði Íslandssól sem vildi fremur þann versta en næstbesta.
Efnahagskerfi heimsins þarf að breytast. Grunnframfærsla eða borgaralaun eru ekki bara kjarabót fyrir þau sem hafa minna milli handanna, heldur nauðsynlegt inngrip þegar mannkynið siglir inn í öld þar sem tölvur og vélmenni taka yfir velflest störf. Þessi 5% staða sem ég fékk 2007 er núna óðum að hverfa, og það ættu að vera frábærar fréttir. Fögnum hækkandi atvinnuleysi!