Óhætt er að segja að það hafi verið grátbroslegt að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins þegar hann tjáði sig á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Formanni flokks þar sem lýðræðisveislur ber gjarnan á góma.
Ekki er að heyra formaðurinn hafi hug á að bjóða þjóðinni í þess lags veislu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn er greinilega tryggast að spyrja þjóðina ekki neins nema alveg öruggt sé að svarið verði í samræmi við skoðanir og vilja Sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans.
Þá vitum við það. Niðurstaðan er sem sagt sú að óþarft er að spyrja þjóðina nokkurs hlutar. Lýðræðisveislan er háð eignarhaldi Sjálfstæðisflokksins. Engum skal bjóða í þá veislu nema skoðanir séu kórréttar.
Nú hefur formaðurinn bætt um betur og bent á að auðvitað skapi það tóm vandræði ef þjóðin felur Alþingi og ríkisstjórn verkefni. Tóm vandræði fyrir hvern? Varla er það þjóðin sem lendir í vanda, nei það er formaðurinn sjálfur.
Ekki hvarflar að formanni Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir þessi tómu vandræði með því að ríkisstjórn og Alþingi sem lendir í því að vera í andstöðu við þjóðarviljann víki til hliðar og aðrir taki við sem treysta sér til þess að verða vandræðalaust við þjóðarviljanum.
Nei, það samræmist ekki þeirri lýðræðisveislu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. Nýju kenningunni um tóm vandræði er ætlað að skýra það og réttlæta. Það er nefnilega þannig að þjóð sem skapar tóm vandræði á ekkert erindi í lýðræðisveislu.
Þér er ekki boðið eru skilaboðin sem formaður Sjálfstæðisflokksins sendir þjóðinni.
Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar.