Fyrstu skrefin eru talin eitt gleðilegasta augnablik í lífi hverrar manneskju. Það felast bæði frelsi og forréttindi í því að geta nýtt fæturna sem fararmáta. Orkuskipti og tækniframfarir munu ekki breyta því. Mesta tækniundrið, 100% náttúrulegt og sérhannað til styttri og lengri vegalengda, eru fæturnir á okkur. Sé þessi fullkomna hönnun rétt nýtt er hún öllum til góðs, heilsunni, náttúrunni og efnahagnum.
Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem gengur eða hjólar til vinnu er hamingjusamara en þeir sem fara akandi. Í nýlegri könnun kom einnig í ljós að fleiri borgarbúar kysu að hjóla til vinnu fremur en að aka. Ávinningurinn af gönguvænna umhverfi er ótvíræður, ef fleiri ganga eða hjóla þá hefur það góð áhrif á lýðheilsu og lífsgæði allra aukast með heilnæmara umhverfi. Við þurfum einfaldlega að ganga lengra í að hanna gönguvæna borg fyrir fólk.
Hvað gerir borgir vistvænar?
Við þekkjum nú orðið flest til rótgróinna erlendra borga sem eru eftirsóttar sökum lífsgæða og aðlaðandi andrúmslofts. Borga þar sem fólk virðist njóta lífsins á annan hátt en við gerum hér í okkar daglega lífi. Borga þar sem við njótum þess að fara um gangandi, hjólandi eða þá í almenningsfarartækjum. Borga sem bjóða upp á lifandi götumyndir þar sem margt er að skoða og margs að njóta.
Í því sambandi má nefna almenningsgarða, stóra og smáa staði þar sem staldra má við og njóta, lifandi götulíf með óvæntum uppákomum, matarmarkaði, spennandi verslanir, veitingahús og áhugaverðan arkitektúr. Borgir þar sem eftirvæntingin að sjá hvað leynist bak við næsta götuhorn gerir gönguna létta og skemmtilega. Allt þetta er mögulegt að gera hérlendis, það þarf bara að hanna umhverfið rétt og leggja áherslu á rétta hluti.
Fyrir hverja hönnum við borg?
Það skiptir máli með hvaða augum borgin er séð og fyrir hvaða notendur hún er hönnuð. Þá eru svæði innan miðborga þar sem fólk er í forgangi, oftar en ekki eftirsóknarverðustu svæðin. Smágerðar götur þar sem þú mætir augnatilliti annarra, húsin eru áhugaverð og gerð til að grípa augað á gönguhraða, verslanir, líf á jarðhæðum, jafnvel íbúðir sem mæta götu. Þar er þéttleiki lykilorð, þéttleiki þjónustu, græn svæði, leiksvæði, útskot til að setjast í og byggingar sem standa þétt við götu, hafa mismunandi einkenni og eru byggðar á ólíkum tíma.
Umhverfi hannað fyrir bíla er allt annað en það sem hannað er fyrir fólk. Borgir nútímans eru að miklu leyti mótaðar með þarfir bíla í forgangi og þarfir annarra vegfarenda lúta í lægra haldi. Bílaumhverfið er óáhugavert og tilbreytingarsnautt fyrir gangandi og í því virðast vegalengdir lengjast. Það er stórgert og einsleitt því ætlunin er að skapa bílum öruggt umhverfi og athyglin á jú að vera á veginum. Gæði bílaumhverfisins eru á allan hátt lakari fyrir þann sem gengur. Við skynjum vegalengdir sem styttri þegar við göngum um fjölbreytilegt og áhugavert umhverfi en sú upplifun tapast ef ekið er um í bíl. Þá er maður manns gaman og mikilvægt að skynja nálægð annars fólks. Heyra klið frá fólki en ekki nið frá bílum. Umhverfi þar sem umferð er hæg og umhverfið fjölbreytilegt þykir flestum eftirsóknarvert.
Það sama verður ekki sagt um miklar umferðaræðar. Það myndi skjóta skökku við ef fasteignasalar auglýstu að staðsetning húsnæðis við stofnbraut væri til ávinnings. Nálægð við góð útivistarsvæði og þjónustu þykir líklega flestum betri kostur og gönguvænt umhverfi hefur því bein jákvæð áhrif á fasteignaverð.
Baráttan fyrir göturýminu
Það þarf að sýna nærgætni og huga að gæðum göturýmisins til að fólk kjósi að fara gangandi ferða sinna. Það er mikilvægt að leyfa svæðum að þróast og taka breytingum. Við höfum séð borgir breytast úr gönguborgum yfir í bílaborgir en nú er sú þróun á undanhaldi. Við sjáum sífellt fleiri borgir berjast við að ná götunum til baka fyrir gangandi og hjólandi fólk. Í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, París og New York, hvert sem er litið er verið að stækka svæði fyrir gangandi og breyta bílagötum í göngugötur.
Þá hefur Covid-19 faraldurinn einnig haft þau áhrif að gangstéttir hafa verið breikkaðar á mörgum stöðum og hvílustæðum (e. parklet) með setbekkjum, blómakerjum, hjólastæðum o.þ.h. komið fyrir þar sem bílastæði voru áður. Þetta hefur líka verið gert í Reykjavík en í sumar var komið fyrir 21 hvílustæði fyrir borgarbúa.
Kraftur jarðhæðanna
Jarðhæðir húsa og hvernig þær mæta götunni eru lykilatriði í gönguvænu og þéttu borgarumhverfi. Jarðhæðirnar skipta höfuðmáli því þær mæta hinum gangandi. Þær eru ramminn sem mótar götuna. Þegar talað er um lifandi jarðhæðir er ekki bara átt við verslanir og þjónustu. Jarðhæðirnar geta verið svo miklu meira en það. Íbúðir á jarðhæðum geta til dæmis verið með allt önnur gæði en íbúðir á efri hæðum. Þær geta haft aukna lofthæð, verið með sérinngangi við götu, lítinn forgarð og verið nokkurskonar penthouse-íbúðir á jarðhæð. Þá geta verið margskonar stúdíó, skrifstofur og lítil verkstæði á jarðhæðum og jafnvel leikskólar eða önnur þjónusta við hverfið. Kantar húsanna eru einnig mikilvæg svæði þar sem sköpuð er viss fjarlægð milli vegfarenda og húsveggs á ýmsan hátt með t.d. gróðri, hjólastæðum, bekkjum upp við vegg o.þ.h. En til þess að þetta takist vel þá þarf pláss í götunni, pláss sem alla jafna er nýtt undir bílastæði.
Umfram allt þarf götuumhverfið á fólki að halda en þar eru bílakjallararnir helsta hindrunin. Þegar íbúarnir aka hreinlega inn í húsin sín þá dregur það mjög úr mannlífi á götum úti. Í nágrannalöndum okkar hefur það færst í aukana að byggð séu sameiginleg bílastæðahús innan hverfahluta. Á jarðhæðum þeirra er ýmis þjónusta svo sem endurvinnsla, matvöruverslanir, póstbox, líkamsræktarstöðvar, ungbarnaleikskólar og annað sem nýtist íbúum í þeirra daglega lífi. Þessi hús verða oft miðja hverfisins. Þar hittist fólk í hverfinu kvölds og morgna og gengur svo heimleiðis.
Þessi nálgun á skipulagi minnkar byggingarkostnað umtalsvert en bílakjallarar eru dýr lausn og ætti sparnaðurinn að hafa bein áhrif til lækkunar á íbúðaverði. Íbúar hverfanna hafa þá líka val um það hvort eða hvenær þeir þurfi bílastæði. Þetta fyrirkomulag er kjörið tækifæri fyrir smávöruverslun, veitingastaði og aðra þjónustu innan hverfanna þar sem fólk á gangi er líklegra til að grípa með sér hitt og þetta á leiðinni heim en þeir sem akandi eru. Ófyrirhuguð kaup eru mun líklegri sé vegfarandinn gangandi eða hjólandi. Lykilatriðið er að ná neytandanum út úr bílnum sínum.
Virði tímans og upplifun í samgöngum
Reykjavík er lítil borg og það er einfalt að komast um hana hjólandi og gangandi. Þá eru almenningssamgöngur mjög mikilvægar. Þetta snýst allt um að velja þann fararmáta sem hentar hverju sinni. Rétt verkfæri í rétt verk. Maður notar ekki skeið til að stinga upp kerfil heldur skóflu. Eins er það út í hött að aka styttri vegalengdir því staðreyndin er sú að oft er bæði fljótlegra og handhægara að nota annan samgöngumáta. Margir gleyma einnig að taka með í reikninginn að það þarf að finna stæði og leggja bílnum svo ekki sé minnst á aðra umferð sem getur tafið ferð akandi. Við erum nefnilega ekki föst í umferð eins og oft er sagt heldur erum við umferðin.
Að hjóla, ganga eða nýta almenningssamgöngur getur verið mun skilvirkari leið en að aka og hægt er að leggja hjólinu við inngang áfangastaðar. Það er frelsi fólgið í því að þurfa ekki að gera allar ferðir að hringferðum sem byrja og enda með því að leggja bíl. Hægt er að hoppa úr strætó á einum stað og taka hann heim af öðrum. Flestir sem nú hjóla til vinnu eru ekki líklegir til að óska sér annars fararmáta.
Upplifunin að hjóla fram úr bílaröðum á annatímum er góð, sama hvernig viðrar. Veðrið er reyndar oftast þolanlegra á hjólinu en maður upplifir það innan úr bíl. Hjólaferðin er líka svo miklu ánægjulegri en bílferðin. Hjólið þeysist fram úr bílunum og maður fær um leið hreyfingu og andlega næringu. Hjólaferðin er líka oft svo skemmtileg að maður ákveður stundum að taka lengri leiðina heim. Það er sjaldnast sú tilfinning sem maður fær akandi um á bíl. Vegalengdir innan borgarinnar eru líka alla jafna ekki það langar að ekki sé á færi flestra að hjóla þær. Þá geta einnig deililausnir eins og rafhlaupahjól verið handhægar til að koma manni síðasta spölinn.
Hið eina sanna frelsi innan borgamarka er að vera ekki þræll eins samgöngumáta. Frelsið er að flakka á milli farartækja eftir þörfum. Því fleiri sem kjósa að nýta virka samgöngumáta, því betri verður borgin fyrir alla.
Höfundur er borgarhönnuður.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.