Stefna okkar í Viðreisn hefur verið að byggja þétt og þeirri stefnu hefur verið framfylgt í Reykjavík. Í nýju hverfi á Ártúnshöfða sem var samþykkt í skipulagsráði fyrir áramót er gert ráð fyrir 1600 íbúðum á 16 hektara svæði. Það gerir um 100 íbúðir á hektara.
Þau sem gagnrýna þessa stefnu tala jafnan fyrir því að borgin skipuleggi í staðinn „ódýrar“ sérbýlishúsalóðir. Í dæmigerðum nýjum hverfum í bæjum sem liggja í um klukkustundarfjarlægð frá Reykjavík er einmitt veðjað á ódýrar sérbýlishúsalóðir, byggð eru 6-8 íbúða raðhús og kaupendur fá íbúðirnar afhentar fokheldar. Algengur þéttleiki í þessum hverfum er 20 íbúðir á hektara.
Það er ekkert að 6-8 íbúða raðhúsum. En þau geta ekki verið hryggjarstykki í lausn á húsnæðismálum Reykvíkinga. Rúmfræðin er einföld: Ef við hefðum skipulagt Ártúnshöfða fyrst og fremst fyrir ódýr sérbýli þá hefðum við getað komið fyrir 320 nýjum íbúðum í stað 1600. Við hefðum leyst húsnæðisþörf fimmfalt færri Reykvíkinga á sama landsvæði.
Lóðir í Reykjavík geta aldrei orðið hræódýrar. Ástæða þess að land kostar meira í Reykjavík er að það er eftirsótt, eins og land í höfuðborgum gjarnan er. Eftirsótt land á að nýta á hagkvæman hátt, og það er gert með því að byggja þétt eins og markaðurinn oftast vill gera. Og við eigum alls ekki að berjast gegn því. Þétting byggðar er skynsöm. Með henni fáum við meiri borg. Fimmfalt meiri borg.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík.