Í þeim umræðustormi sem blásist hefur upp í kjölfar ákvörðunar rússneskra stjórnvalda í síðustu viku að setja innflutningsbann á sjávar- og landbúnaðarafurðir frá Íslandi hefur utanríkisráðuneytið legið undir þungri gagnrýni. Utanríkisþjónustan er ýmist sögð óvandvirk, ófagmannleg eða taglhnýtingur Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Gagnrýnendur vilja helst að stefnu stjórnvalda verði snúið við til að tryggja útflutningsmarkaðinn í Rússlandi. Með þessu vinna þeir gegn hagsmunum þjóðarinnar.
Utanríkisstefna Íslands í Úkraínu
Gagnrýnendur utanríkisþjónustunnar beita strámönnum í rökum sínum og gera því skóna, að íslensk stjórnvöld búi ekki yfir sjálfstæðri utanríkisstefnu varðandi Úkraínu. Staðreynd er að allt síðan utanríkisráðherra var staddur í Kænugarði í byrjun desember 2013, á ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), steinsnar frá uppsprettu þeirrar byltingar sem skók landið, hefur stefna Íslands í þessu máli verið skýr. Í upphafi einkenndist hún af afdráttarlausum stuðningi við grundvallarmannréttindi á borð við samkomu- og málfrelsi, en eftir því sem atburðir í Úkraínu tóku á sig alvarlegri mynd þróaðist stefna Íslands í að standa vörð um alþjóðalög og -gildi. Rauður þráður í þeirri nálgun hefur verið að bera skuli virðingu fyrir landamærum fullvalda ríkja og að einhliða beiting hervalds í milliríkjadeilum sé óásættanleg.
Breytt umhverfi íslenskrar utanríkisþjónustu
Síðastliðna viku var mikið legið á utanríkisráðuneytinu fyrir að hafa ekki "leikið í báðum liðum” í Úkraínudeilunni. Þarna er verið að visa til kaldastríðsáranna og er átt við að stjórnvöld haldi að sér höndum í alþjóðlegum deilumálum. Samskiptum við alla deiluaðila sé haldið þannig að unnt er að stunda viðskipti beggja vegna borðsins á sama tíma og landið njóti verndar innan NATO. Í þessari fortíðarþrá gleymist hins vegar að taka með í reikninginn þá byltingu sem hefur orðið í alþjóðasamfélaginu á síðasta aldarfjórðungi. Ísland nýtur ekki lengur sömu lykilstöðu í vörnum Vesturlanda og það gerði á meðan heimurinn lifði á barmi kjarnorkustríðs. Ísland er ekki lengur útvörður bandarísks hervalds og fremsta víglína í baráttunni um Norður-Atlantshafið. Ísland er ekki lengur mikilvægt í þessu samhengi.
Geta utanríkisþjónustunnar
Ekki er nóg með að forsendur utanríkisþjónustunnar til að vera beggja vegna borðsins í deilum stórvelda hafi horfið, geta hennar hefur kerfisbundið verið skorin niður.
Ekki er nóg með að forsendur utanríkisþjónustunnar til að vera beggja vegna borðsins í deilum stórvelda hafi horfið, geta hennar hefur kerfisbundið verið skorin niður. Líkt og aðrar ríkisstofnanir hefur utanríkisþjónustan farið í gegnum mikinn niðurskurð frá hruni. Sendiskrifstofur eru nú 22 talsins og sendierindrekum hefur fækkað um fjórðung frá 2008. Einnig reiðir íslenska utanríkisþjónustan sig mun minna á staðarráðið starfsfólk en önnur Norðurlönd, en slíkt starfsfólk er í eðli sínu ódýrara í rekstri en útsent starfsfólk. Á meðan 70% starfsfólks á sendiskrifstofum hinna Norðurlandanna var staðarráðið að meðaltali árið 2013 var þetta hlutfall ekki nema 53% hjá íslensku utanríkisþjónustunni.
Í skýrslu lávarðadeildar breska þingsins frá febrúar á þessu ári kemur fram að nálgun bresku utanríkisþjónustunnar að Úkraínukrísunni hafi einkennst af stórkostlegum misskilningi á viðhorfum í Rússlandi. Ástæðan er sögð vera niðurskurður til utanríkisþjónustunnar og minnkandi geta hennar til að greina ástandið almennilega. Það þarf því ekki að koma á óvart að íslenska utanríkisþjónustan hafi átt erfitt með að sjá fyrir viðbrögð rússneskra stjórnvalda í þessu máli. Það er ekki alltaf hægt að spá rétt fyrir um viðbrögð annarra ríkja, sérstaklega ólýðræðisríkja. Lærdómurinn sem skýrsla lávarðadeildarinnar dregur er sá að ef menn vilja öfluga utanríkisþjónustu þá verður að borga fyrir hana og það verður að tryggja að hún búi yfir nauðsynlegri sérfræðikunnáttu.
Þjóðarhagsmunir Íslands í Úkraínu
Þar sem Ísland er herlaust smáríki verða stjórnvöld að hafa tvennt í huga í samskiptum sínum við alþjóðasamfélagið. Mikilvægi alþjóðalaga og -venja annars vegar og marghliða samvinnu hins vegar. Ef að Ísland á að geta tekið þátt í samfélagi þjóðanna verður það að geta gengið út frá því að aðrir þátttakendur ryðjist ekki áfram í mætti stærðar sinnar. Í slíku ríki náttúrunnar, þar sem sá sterkasti ræður, væri Ísland fljótt á lista yfir ríki í útrýmingarhættu. Alþjóðalög og virðing fyrir þeim eru því grundvallaratriði fyrir áframhaldandi tilveru íslenska ríkisins og þegar þau eru virt að vettugi boðar það hættu fyrir íslenska þjóðarhagsmuni.
Ef að Ísland á að geta tekið þátt í samfélagi þjóðanna verður það að geta gengið út frá því að aðrir þátttakendur ryðjist ekki áfram í mætti stærðar sinnar. Í slíku ríki náttúrunnar, þar sem sá sterkasti ræður, væri Ísland fljótt á lista yfir ríki í útrýmingarhættu.
Marghliða samstarf er smáríkjum á borð við Ísland einnig nauðsynlegt vegna þess að það gefur ríkinu aukinn kraft til aðgerða. Mörg þau mála sem ríkið fæst við eru þess eðlis að þau eru vandleyst án aðkomu bandamanna eða annarra samstarfsaðila. Góð dæmi um það eru umhverfisvernd á Norðurslóðum, Vestnorræn samvinna, eða samstarf Íslands, Kanada, Liechtenstein, Noregs og Sviss í mannréttindarmálum innan ÖSE. En til marghliða samstarfs heyrir einnig varnarsamstarf, líkt og þátttaka Íslands í NATO og loftrýmisgæsla NATO og annarra þjóða bera vott um. Án samstarfs við bandamenn sína stæði Ísland berskjaldað eftir.
Meginhagsmunirnir felast í því að standa vörð um alþjóðalög og þá helst í samstarfi við aðrar þjóðir. Það sem á sér stað í Úkraínu er barátta um grundvallargildi alþjóðasamfélagsins, hvort að ríki megi beita hervaldi til að íhlutast um innanríkismál nágranna sinna eða ekki. Þess vegna er stuðningur íslenskra stjórnvalda við þær takmörkuðu refsiaðgerðir sem allir okkar helstu bandamenn taka þátt í réttur. Hann er réttur vegna þess að hann sendir merki um mikilvægi þjóðarréttar. Hann er réttur vegna þess að hann hafnar hernaðarlegri innlimun Krímskaga í Rússland. Hann er réttur vegna þess að með honum axlar Ísland ábyrgð í alþjóðasamfélaginu.
Strategísk utanríkisstefna
Þrátt fyrir alla gagnrýni á stefnuleysi íslenskra stjórnvalda varðandi átökin í Úkraínu má þvert á móti segja að stefnan virðist skýr og hönnuð með langtímamarkmið í huga. Langtímanálgun utanríkisþjónustunnar varðandi Úkraínu einkennist af því að viðhalda núverandi ríkjaskipan í Evrópu og standa vörð um landamæri fullvalda ríkja. Hérna getur utanríkisþjónustan dregið fram fjölmarga samninga, sáttmála og samþykktir málstað sínum til stuðnings. Allt frá stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna til stofnskjals ÖSE og hins svokallaða Búdapest samkomulags varðandi sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Með því að taka afstöðu og standa vörð um þessi gildi er utanríkisþjónustan að standa vörð um fullveldi Íslands.
Stefnumótunarvald til Moskvu?
Það sem komið hefur hvað mest að óvart í allri umræðunni er staðföst ósk margra að snúa við stefnu stjórnvalda til þess að koma til móts við vilja rússneskra yfirvalda. Ef íslensk stjórnvöld ættu að falla frá refsiaðgerðunum þá á réttum forsendum, ekki vegna þess að rússnesk yfirvöld fyrirskipa það. Hverjar yrði líklegar afleiðingar þess að gefa undan þeirri fjárkúgun sem útgerðirnar eru nú beittar? Fyrst og fremst þær að íslensk stjórnvöld hefðu lýst því yfir að ráðskast megi um með framkvæmd utanríkismála landsins ef svo ber undir. Ísland hefur ekki lagst fyrir ESB í makríldeilunni, lagðist ekki fyrir Noregi í Smugudeilunni og ekki fyrir Bretlandi í landhelgisbaráttunni. Á að byrja á því að leggjast núna?
Ísland hefur ekki lagst fyrir ESB í makríldeilunni, lagðist ekki fyrir Noregi í Smugudeilunni og ekki fyrir Bretlandi í landhelgisbaráttunni. Á að byrja á því að leggjast núna?
Alþjóðalög og -venjur eru þjóðaröryggishagsumamál fyrir smáríki á borð við Ísland. Það sem er ríkjum eins og Íslandi lífsnauðsynlegt er að reglur og venjur ríki í alþjóðasamfélaginu – og að þeim sé framfylgt. Bein hernaðaríhlutun í öðrum ríkjum og innlimun landsvæða með hervaldi brýtur í bága við gildandi reglur og venjur alþjóðasamfélagsins. Ef að útgerðarfyrirtækin vilja í rauninni að ráðherra snúi við ákvörðun sinni um refsiaðgerðirnar vegna þess þau lenda í innflutningsbanni til Rússlands þá verða þau að segja berum orðum að skammtímaafkoma þeirra sé mikilvægari en alþjóðalög og þjóðaröryggi Íslands.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.