Greinaskrifum þessum er ætlað að vega á móti ríkjandi frásögn valdhafans og ofbeldisaðilans Ísraels, sem vegna ítaka sinna á alþjóðavettvangi fær mikla dreifingu á þeim áróðri sem Ísrael heldur úti. Sökum þess fær frásögn Ísraelsmanna hljómgrunn víða. Frásögn sem segir að Ísrael (innrásarliðið) sé undir árás frá Palestínumönnum. Nú er tími til kominn að hið alþjóðlega samfélag leggi við hlustir þegar Palestínumenn segja réttilega að þeir séu fórnarlömb þjóðarhreinsunar sem nú stendur yfir í Gaza og skoði sönnunargögnin sem sýna það svo óþægilega skýrt og skilmerkilega, öllum sem sjá vilja.
Síðastliðinn mánudag hleypti Ísraelska hernámsliðið af stokkunum hernaðaraðgerðum gegn óbreyttum borgurum í Gaza í Palestínu. Sú aðgerð felur í sér að nota gífurlegt magn af eldflaugum til að granda Palestínumönnum. Ísraelsmenn segja slíka hreinsunaraðgerð nauðsynlega til að tryggja eigið öryggi. Eini Palestínumaðurinn sem hlýtur náð í augum Ísraels er dauður Palestínumaður. Það er gamall sannleikur og nýr.
Ofbeldið sem íbúar Gaza þurfa nú að þola frá hendi Ísraels er í einu orði sagt ólýsanlegt. Borgin mín Gaza sem hefur verið hersetin í um 13 ár, sætir nú óheyrilega ofbeldisfullri og grimmilegri herferð Ísraelsmanna. Nú þegar ég rita þessi orð þá hafa að minnsta kosti 212 Palestínumenn látið lífið, þar á meðal 61 börn og 36 konur – og meira en 1400 manns eru særðir. Þessi aðför er ekkert annað en liður í þjóðarmorði og þjóðarhreinsun Ísraelsmanna á Palestínumönnum. Ísraelskar hersveitir beina eldflaugum sínum að íbúðarhverfum og sprengja þau í loft upp án nokkurrar aðvörunar. Þeir sprengja upp skóla, háskóla, heimili, ótal háhýsi, fyrirtæki, landbúnaðarlönd, sjúkrahús og stræti. Ísraelsmenn hafa nú eytt út heilu íbúðarhverfunum í Gaza með sprengjum sínum sem hafa leitt til þess að um 300 palestínskar fjölskyldur eru heimilislausar.
Fjölmiðlar dreifa rangri mynd af ástandinu í Palestínu
Það sem er að gerast nú í Gaza er ekkert annað en stríðsglæpur og um leið skýrt brot á alþjóðlegum lögum og mannréttindum. Hér er um að ræða grimmilega glæpi sem er vart hægt að gera sér í hugarlund. Á fyrsta degi árásar Ísraelsmanna gegn Gaza, sendu þeir eldflaug sem varð 9 palestínskum börnum að bana og þar að auki særðist eitt barn. Hvaða glæpi frömdu þau börn gegn Ísrael? Börn sem voru að leik á leikvelli uns eldflaug Ísraelsmanna tók líf þeirra á hrottafenginn hátt. Þetta er aðeins eitt stakt dæmi um þá hroðalegu atburði sem nú eru daglegt brauð hjá stríðshrjáðri palestínsku þjóðinni. Á síðustu dögum réðst Ísrael á fjölskyldu á heimili þeirra í Shati flóttamannabúðunum í Gaza án aðvörunar og án þess að gefa fjölskyldunni nokkra aðvörun. Í kjölfar þeirrar árásar létust 10 manns lífið úr sömu fjölskyldunni, þ.m.t. 8 börn: Maryam 15 ára, Yamen 5 ára, Bilal 10 ára, Yusef 11 ára, Abd al-Rahman 8 ára, Suhaib 14 ára, Yahya 11 ára, og móðir þeirra. Það var aðeins einn aðili fjölskyldunnar sem lifði þau fjöldamorð Ísraelsmanna af, en það var 5 mánaða gamall drengur sem kastaðist yfir í næsta hús við sprenginguna.
Því miður dreifa fjölmiðlar um allan heim rangri mynd af ástandinu í Palestínu. Við Palestínumenn höfum í yfir sjötíu ár lifað við viðvarandi þjáningar og harm sökum eilífra innrása og ofbeldis af hálfu Ísraelsmanna, hvort sem það er í Gaza, á Vesturbakkanum eða í Jerúsalem. Upphaf ofbeldishrinunnar sem nú gengur yfir má rekja til örlagaríkra atburða. Líkt og svo oft áður, þá vísuðu Ísraelsmenn ótal Palestínumönnum frá heimilum þeirra, nú í hverfinu Sheikh Jarrah í Jerúsalem. Sá verknaður var framkvæmdur af óbreyttum Ísraelsmönnum og ísraelsku lögreglunni og hernum. Eftir að búið var að brottvikningin var afstaðin á Palestínumönnunum úr húsum sínum þá voru þau afhent ísraelskum landnemum. Getið þið ímyndað ykkur þær aðstæður, að vera fjarlægð með ofbeldi af eigin heimili og horfa á þjófinn gera það að sínu eigin. Í ofanálag vill ofbeldisaðilinn að þú þegir um ofbeldið og hörfir á brott með fjölskyldu þína þar sem þú þarft að leita skjóls á götunni. Ísraelsmönnum er sama um húsnæði þitt og drauma þína og barna þinna. Palestínumenn mótmæltu þessum ómannúðlegu aðgerðum Ísraelsmanna. En eins og sagan sýnir þá er Palestínumönnum fyrirboðið að njóta réttlætis og mótmæli eru ekki liðin. Í kjölfarið réðust Ísraelsmenn á þúsundir Palestínumanna sem voru að biðjast fyrir í Al-Aqsa moskunni í Jerúsalem á hinum mikilvæga Ramdam mánuði. Mörg hundruð manna sem voru þar voru þá særðir og/eða handteknir.
Heimurinn verður að opna augun fyrir óréttinum
Það sem er að gerast nú er brot á grundvallarréttindum Palestínumanna, gróft áframhald á aðskilnaðarstefnu, þjóðarflutningum og þjóðarhreinsun á Palestínumönnum. Þessu verður að linna og heimurinn verður að opna augun fyrir órétti Ísraelsmanna gegn palestínsku þjóðinni. Við Palestínumenn erum orðnir örþreyttir á endurteknum árásum og hrottalegum stefnumálum Ísraelsmanna. Palestínumenn eru orðnir örþreyttir á því að Ísraelsmenn geti eftir eigin hentugleik rænt landi þeirra og heimilum. Palestínumenn eru orðnir örþreyttir á að mega ekki ferðast og því að þurfa rekja sig á milli ótal eftirlitsstöðvar Ísraelsmanna til að komast á milli staða heima fyrir. Og Palestínumenn eru orðnir langþreyttir á öllum handtökunum og morðunum sem þjóðin hefur þurft að þola til þessa dags. Nú sem áður segja Palestínumenn, hvort sem þeir eru búsettir í Jerúsalem, Gaza eða á Vesturbakkanum: Nóg komið. Það er orðið löngu tímabært að Ísrael hætti að stunda glæpi sína gegn Palestínsku þjóðinni, sem nú rís upp enn á ný og mótmælir áratuga kúgun Ísraelsmanna. Palestínumenn mótmæla nú nýlegri brottvísun Ísraelsmanna á palestínskum fjölskyldum úr Jerúsalem sem og stigvaxandi yfirgangi ísraelskra landnema á landsvæðum á Vesturbakkanum þar sem þeir taka yfir land Palestínumanna með ólögmætri búsetu. Og Palestínumenn mótmæla fjöldamorðunum sem eiga sér nú stað í Gaza.
Það er ekki og hefur aldrei verið ásættanlegt að varpa sök gerandans Ísraels á þolandann Palestínu. Það má ekki viðgangast lengur að gefa Ísraelsmönnum frítt spil hvað viðkemur kúgun þeirra á palestínsku þjóðinni og á sama tíma álasa Palestínumönnum fyrir að mótmæla brögðum, ofbeldi og óréttlæti kúgarans sem ástundað hefur þá ógnarstjórn á dagsgrundvelli svo áratugum skiptir. Það er réttur okkar sem hersetin þjóð í um 70 ár að gera uppreisn gegn kúgara okkar, sem kemur fram við okkur eins og við séum ekki mennsk. Við Palestínumenn óskum þess að hljóta alþjóðlegan stuðning svo við getum lifað í friði á okkar landi – án árása frá hernaðarveldi sem níðist með vopnum sínum á óbreyttum borgurum. Hluti af þeim stuðningi er að hlusta og taka undir rödd Palestínumanna sem kallar eftir hjálp. Þetta er ákall palestínsku þjóðarinnar til íslensku þjóðarinnar.