Heimssamfélagið stendur frammi fyrir gríðarlegum áskorunum. Það lítur út fyrir að við ráðum ekki við að stöðva hlýnun jarðar innan 2oC. Jafnvel þær 2oC sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt að vera innan, leiða nú ekki til 0,5 m sjávarborðshækkunar eins og talað hefur verið um, heldur allavega 3 m.
Vistspor jarðarbúa sýnir að við erum að nýta því sem svarar einni og hálfri jörð þegar horft er til hve fljótt jörðin getur endurnýjað vistkerfaþjónustu - en við eigum bara eina jörð. Fjöldi jarðarbúa heldur áfram að aukast og er nú 7,3 milljarðar. Náttúruauðlindir jarðar eru að þverra enda er jörðin takmörkuð. Við erum nú á tímum hámarksframleiðslu flestra auðlinda - sem þýðir að helmingur þeirra hafa þegar verið nýttar. Það sem eftir er - er ekki af sömu gæðum, er dýpra í jörðu og þarf meiri orku til að vinna en fyrsti helmingurinn. Við erum að fiska upp öll úthöf og um 80% allra fiskistofna eru ofnýttir. Vistkerfin eru að falla saman vegna skógarhöggs, mengandi iðnaðar, bygginga borga auk landbúnaðar. Við lifum á tímum útrýmingar lífs á jörðinni og líffræðilegur fjölbreytileiki er að minnka. Hagkerfi margra landa standa á brauðfótum eins og fjármálaástandið í Suður-Evrópu sýnir - núna síðast í Grikklandi - enda tengjast auðlindir hagkerfum.
Það væri gaman að geta sagt frá því að öll þessi eyðilegging náttúrunnar hafi orðið til þess að á jörðinni ríki jöfnuður. En svo er ekki. Ójöfuður eykst með hverju árinu innan landa og á milli landa. Samkvæmt Alþjóðabankanum er munurinn á milli meðaltekna ríkustu landanna og þeirra fátæku um 360:1. Áttatíu manns eiga eins mikinn auð og fátækari 50% hluti jarðarbúa, eða yfir 3.6 milljarðar. Ógagnsæi kemur í veg fyrir að almenningur viti hvað ráðamenn eru að braska. Stórfyrirtæki og auðhringar hafa oft meiri áhrif en ríkisstjórnir. Hér má nefna fríverslunarsamninga. Stór hluti þjóðfélagsþegna virðist vera ánægður með að vera stikkfrí frá stjórnmálum, nema á kosningadag - ef þeir nenna að kjósa.
Stór hluti þjóðfélagsþegna virðist vera ánægður með að vera stikkfrí frá stjórnmálum, nema á kosningadag - ef þeir nenna að kjósa.
Allt þetta endurspeglast á Íslandi. Íslendingar hafa stærsta vistspor allra landa. Ef allir myndu neyta líkt og við - þyrftum við meira en 6 jarðir. Hér ríkir barátta um náttúru íslands og auðlindir. Ráðamenn keppast við að salta nýja stjórnarskrá sem myndi sjá til þess að auðlindir landsins væru í almannaeign. Þeir planleggja nýja stóriðju, án þess að vitað sé hvaðan orkan eigi að koma og virðast vera skítsama um náttúru landsins. Útgerðamenn sem margir tengjast ráðamönnum fá lækkun veiðigjalda. Sú stóriðja sem hér starfar borgar spottprís fyrir rafmagnið og greiðir nær enga skatta vegna flókinna skuldayfirfærslna til móðurfélaga. Við eigum engan auðlindasjóð líkt og Norðmenn sem eru ríkasta þjóð í heimi.
Hvað er til ráða? Ég tel að við þurfum virka þjóðfélagsþegna. Við þurfum lifandi lýðræði þar sem þjóðfélagsþegnar - ungir sem aldnir - minna leiðtogana reglulega á hverju þeir lofuðu í kosningum - og fara ekki í fjögurra ára frí á milli kosninga.
Við þurfum leiðtoga sem vinna fyrir almenning og eru ekki einungis að draga taum hagsmunaaðila sem þeim eru tengdir. Við þurfum leiðtoga sem sjá heildarmyndina og hvernig allt tengist. Við þurfum leiðtoga sem fylgja eftir náttúruverndarlögum og vinna að náttúruvernd, heima fyrir og á heimsvísu. Við þurfum að vinna að því að náttúran fái réttarstöðu fyrir lögum til að vernda vistkerfi og víðáttu Íslands til framtíðar. Við þurfum gagnsæi í allri stjórnsýslu þannig að við getum fylgst með hvernig okkar skattpeningar eru nýttir. Við þurfum að sjá til þess að allir borgi skatt - líka þeir ríku og alþjóðaauðhringar sem hér starfa. Við þurfum að selja rafmagn á stóriðju á sama prís og Evrópa. Við þurfum að vinna að því að konur fái sömu laun og karlar og að hér ríki jafnrétti. Við þurfum að setja lög á launahlutföll innan fyrirtækja og stofana. Ég tel að hlutfallið 6:1 sé réttlátt - í hæsta lagi 12:1.
Hér þarf að banna bónusgreiðslur - líka í bankakerfinu. Við þurfum að stofna samfélagsbanka sem fjárfesta í samfélaginu og umhverfisvænni starfsemi.
Hér þarf að banna bónusgreiðslur - líka í bankakerfinu. Við þurfum að stofna samfélagsbanka sem fjárfesta í samfélaginu og umhverfisvænni starfsemi. Við þurfum að byggja upp heilbrigðiskerfi sem nýtist öllum, ekki bara þeim ríku. Við þurfum menntakerfi þar sem hlúið er að þörfum allra. Við þurfum stjórnarskrá sem tryggir að auðlindir séu í almannaeign. Við þurfum að setja á stofn auðlindasjóð líkt og Nor'menn, þangað sem arður er greiddur af auðlindum okkar - fiski, raforku og ferðamennsku. Þessi sjóður á að vera skynsamlega fjárfestur og nýttur varlega fyrir núverandi og komandi kynslóðir - og ekki vera stýrt af stjórnmálamönnum - líkt og í Noregi.
Hvaða skref þurfum við að taka á Íslandi til að nýja stjórnarskráin verði samþykkt, náttúran og konur nái fullu jafnrétti, konur hafi 50% setu á Alþingi og sjálfbær þróun verði að leiðarljósi? Ég tel þetta mjög brýnt fyrir framtíð landins. Líkt og ég skrifaði um í síðustu grein minni hér í Kjarnanum þurfum við sem þjóð að vera tilbúin með framboð – fyrir forsetakosningar 2016 og Alþingiskosningarnar 2017. Landið þarf forseta og stjórnmálamenn sem vinna að mikilvægum málum fyrir samfélagið og náttúruna heima og heiman.
Forsetinn þarf að vera forseti allra landsmanna. Kona fólksins. Kona náttúrunnar.
Forsetinn þarf að vera forseti allra landsmanna. Kona fólksins. Kona náttúrunnar. Hún þarf að hafa heildræna sýn á þjóðmálin og alheimsmálin, hvað sjálfbæra þróun og hagsæld varðar. Forseti Íslands getur sem þjóðhöfðingi náð eyrum margra þjóðarleiðtoga og unnið að því að lausnir finnist á þeim krísum sem nú eru í deiglunni: loftslagsbreytinga-, vistkerfa-, auðlindaþverrunar- og fjármálakrísa. Næsti forseti Íslands þarf að vera grænn og samfélagssinnaður í hugsun. Næsti forseti þarf að leggja áherslu á að vernda náttúru Íslands. Næsti forseti þarf að vinna að því að ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (2015-2030) náist, með að því að finna lausnir með öðrum þjóðarleiðtogum. Forsetinn getur haft mikilvæg áhrif á náttúruverndarmálin með því að styðja stórverkefni - líkt og þau sem kennd eru við verndun hjarta landsins, að uppræta vistmorð og að gera kröfu til himinsins vegna þess að hann er í almannaeign.
Stjórnmálaflokkar þurfa að vinna að sjálfbærri þróunn. Til þessa verkefnis væri gott að stofna til flokks sem vinnur eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, hvort sem það verður flokkur kvenna eða beggja kynjanna. Þessi flokkur gæti unnið með Pírötum í að gera stjórnsýsluna skilvirka og gagnsæja, berjast gegn spillingu, vinna að jafnrétti kynjanna og náttúrunnar, og koma á nýju stjórnarskránni.
Þetta er áskorun til allra með græn og kvenlæg gildi sem vilja vinna að þessum mikilvægu málum.