Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að afgreiðslu Alþingis á rammaáætlun sem samþykkt var á dögunum. Sá gjörningur að færa Héraðsvötn og Kjalölduveitu úr vernd í biðflokk er mikill afleikur. Það færir baráttu um náttúruvernd og vernd óbyggðra víðerna mörg skref aftur á bak. Hinn almenni leikmaður skilur orðið hvorki upp né niður. Vinstri hreyfingin- grænt framboð er rúin trausti þeirra sem trúðu því að hreyfingin væri málsvari náttúruverndar og þess að verja náttúruperlur fyrir ágangi þeirra sem fyrst og fremst sjá í þeim skjótfenginn gróða en þeir færa ósköpin gjarnan í felubúning um mikilvægi orkuskipta.
Ég skrifaði grein til handa báráttu fyrir vernd Þjórsárvera sem birtist þann 19. mars árið 2005 en þá voru uppi áform um Norðlingaölduveitu. Það eru 17 ár liðin og enn stöndum við í baráttu um verndun Þjórsárvera, það er með ólíkindum að baráttan standi enn! Ég vil gera lokaorð þessarar greinar minnar þá að lokaorðum mínum hér, þau eiga enn við „Ég hvet stjórnvöld, sveitarstjórn og náttúruverndarsamtök til að taka höndum saman og vinna í sameiningu að verndun Þjórsárvera til framtíðar. Síðast en ekki síst vil ég hvetja almenning til að láta sig málið varða, við berum öll sameiginlega ábyrgð á því hvernig farið er með náttúru landsins“. Baráttan heldur áfram.