Viðtal við Þorgerði Katríni Gunnarsdóttur, fyrrum varaformann Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu í dag hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar talar hún tæpitungulaust og gagnrýnir flokk sinn fyrir að vera tréhestur. Ljóst er að fleiri deila skoðun Þorgerðar Katrínar, enda mælist fylgi Sjálfstæðisflokks sögulega lítið um þessar mundir.
Í viðtalinu tekur Þorgerður Katrín þó, að minnsta kosti með annarri hendinni, upp hanskann fyrir formann Sjálfstæðisflokksins og segir að ef ekki væri fyrir "Bjarna Ben þá væri flokkurinn í verri málum. Eftir stendur að það er óánægja innan flokksins og menn vilja sjá tekið raunverulega á málum sem hafa verið tabú innan flokksins".
Hún nefnir síðan landbúnaðarmál, jöfnun atkvæða og skort á getu til þess að læra af nýjum framboðum, eins og Pírötum og Besta flokki Jóns Gnarr í stað þess að tala þau niður, sem dæmi um mál sem þurfi að taka á.
Í bakherberginu vakti hins vegar mesta athygli að í viðtalinu sagði Þorgerður Katrín að við sem þjóð getum ekki "verið með leiðtoga sem senda út skoðanakönnun áður en þeir mynda sér skoðun. Ég þoli það ekki. Maður er ekki í pólitík til að standa á sviðinu og fá endalaust klapp".
Þarna er Þorgerður Katrín að tala um popúlisma og enginn flokkur á Íslandi hefur legið undir meiri ámæli fyrir að stunda slíkan en Framsóknarflokkurinn, samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks hennar í ríkisstjórn. Lífsseigni Framsóknar hvílir annars vegar á mjög hörðum kjarna á landsbyggðinni, sem ójafnt kosningavægi tryggir að skilar sér í meiri völdum en atkvæði segja til um, og ótrúlegri leikni til að stela kosningaþrumum með einföldum en stórkallalegum kosningaloforðum, sem oft snúa að þeim málum sem skoðanakannanir sýna að séu líkleg til vinsælda þann mánuðinn.
Ríkisstjórnin sem nú situr hefur síðan heldur betur verið dugleg við að halda risasamkomur til að láta klappa fyrir sér, þegar hún telur sig hafa efnt eitthvað. Áður en að "Leiðréttingin" kom til framkvæmda var búið að halda þrjá kynningarfundi (30. nóvember 2013, 26. mars 2014 og 10. nóvember 2014), þar af tvo í Hörpu, til að fara yfir útfærslu málsins. Þegar áætlun um losun hafta var kynnt í júní síðastliðnum var aftur blásið í herlúðra og þjóðinni stefnt í Hörpu til að hylla foringjanna fyrir að vinna vinnuna sína. Forystumenn stjórnarflokkanna voru í öllum tilfellum á stóra sviðinu og auðvitað var sjónvarpað beint frá öllu saman.
Því virðist yfirlýsing Þorgerðar Katrínar um óþol gagnvart klapp-þurfandi stjórnmálaforingjum ekki síst hafa beinst að Bjarna Benediktssyni og félaga hans á valdastóli, forsætisráðherranum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna útfærslu og umfang leiðréttingarinnar í nóvember 2014.