Það var tilkomumikil sjón að sjá mikinn fjölda manna og kvenna úr öllum stigum þjóðfélagsins; slá bumbur, hristur, potta og raddbönd á Austurvelli á þjóðhátíðardeginum okkar 17. júní síðastliðinn. Taumlaus gleðin, hamingjan og frjálsræðið leyndi sér ekki; skein úr hverju andliti sem þar var. Svo mikil að skátarnir voru ekki alveg vissir hvaðan á þá stóð veðrið, hafandi upplifað flesta slíka daga í nokkurri þögn og kyrrð við styttu Jóns Sigurðssonar. Greina mátti allskonar gleðiköll, skiltagerðir og skapgerðir.
Forsætisráðherra flutti grjóthart ávarp í tilefni dagsins. Fór stuttlega yfir söguna og það sem meðal annars hefði áunnist frá stofnun lýðveldis okkar. Hann ítrekaði mikilvægi sjálfstæðis þess um aldur og ævi, gerði jafnréttismálum prýðileg skil og gerði sömuleiðis grein fyrir þeim tímamótum kosningaréttar sem framundan er og leiðrétti kurteislega og eðlilega að sá réttur var ekki kynbundinn eins og fram hefur verið haldið um víðar grundir.
Undirrituðum fannst stemmningin á Austurvelli minna á fyrri glæsilegar og frjálsar samkundur á sama svæði; á falleg atriði úr heimildarmyndum sem sýna þegar fólk verður frjálst til þess að tjá tilfinningar og skoðanir sínar – láta öllum illum látum af gleði og skapa hálfgerða Carnival stemmningu undir styrkri röddu forsætisráðherra; dyggum heiðursverði íslenskra skáta, tignarlegri fjallkonunni og virðulegri nánd Jóns Sigurðssonar.
Undirritaður saknar þess að hafa ekki séð slíkt frjálsræði meðal fólksins, gleði og hamingju í tíð fyrrum forsætisráðherra við sambærileg tilefni.
Höfundur er áhugamaður um 17. júní.