Umræðan hefur verið fjörug að undanförnu um einn af fylgifiskum pólitískrar umræðu á samfélagsmiðlum: það sem alþjóðlega er kennt við afturköllun, cancel-culture: markvissa og samtaka sniðgöngu á verkum listamanna sem viðrað hafa umdeilanlegar skoðanir á mannréttindamálum eða eru taldir hafa hegðað sér með óviðurkvæmilegum hætti í siðferðisefnum. Þetta helst í hendur við smánun – þegar yfir einstaklinga kemur holskefla vandlætingar vegna þess að þeir hafa látið í ljós fordóma í garð hópa sem þeir tilheyra ekki.
Þetta mál hefur ýmsar hliðar. Ein er sú að fólk kaupir það sem því sýnist. Og missi það einhverra hluta vegna áhuga á einhverjum listamanni – þá er það bara þannig. Skiljanlegt er að fá slíka skömm á tilteknum einstaklingi vegna orða hans eða framgöngu að maður missi allan áhuga á því sem hann hefur fram að færa. Önnur hlið er sú að rétt er að fólk hugsi sig um áður en það tekur að dæma heilu þjóðirnar, trúarhópana eða kynhneigðirnar; dæma fólk fyrir það hvernig það fæddist. Almennt talað er ágætt að fólk hugsi sig aðeins um áður en það lætur í ljós skoðanir. Þær eru aldrei jafn saklausar og þær kunna að virðast ...
En hópefli kringum sniðgöngu og skipulögð útskúfun vegna umdeildra skoðana er hættulegur leikur. Þetta getur orðið til þess að fæla fólk frá því að viðra skoðanir sínar með hótun um útskúfun og skömm. Þar með fara slíkar skoðanir í skúmaskotin og skolpræsi umræðunnar. Og birtast svo á óvæntan hátt, jafnvel upp úr kjörkössum. Og dæmin sanna líka að skipulögð útskúfun byggir oft á æði einfaldri mynd af því sem viðkomandi listamaður hefur sagt og skrifað.
Í opnu og frjálslyndu lýðræðisþjóðfélagi eigum við að skiptast á skoðunum. Við eigum að reyna að halda í heiðri þá reglu að skrifa ekkert um manneskju annað en við gætum sagt við viðkomandi í eigin persónu. Þó að skoðanir manneskju séu okkur ekki að skapi er ágætt að reyna að hemja vandlætingu sína. Þó að skoðanir séu ekki jafn saklausar og margir telja eru þær heldur ekki jafn mikið skaðræði og stundum mætti halda.
Við eigum að forðast að vera hvert öðru dómstóll. Skoðanir okkar eru sérstakt samsafn af því sem við höfum heyrt og lesið og reynt, tilfinningum okkar, upplagi, hugsjónum, þrám og kenndum ... Þær eru ekki allar alltaf jafn réttar eða fallegar eða skynsamlegar – og við eigum að geta verið óhrædd við að viðra þær, skoða þær, skiptast á þeim: gjörðu svo vel, hér er mín skoðun, má ég sjá þína? Og þó að okkur kunni að finnast hún skrýtin, jafnvel ljót, er ekki þar með sagt að verkefni okkar sé að ausa viðmælandann skömmum eða kalla út sniðgönguher.
Einn af mínum uppáhaldshöfundum gegnum tíðina er Þórbergur Þórðarson, stílsnillingur og boðberi visku og kærleika og alls konar alternatífra hugmynda og lífsstíls. En hann var líka málsvari fjöldamorðingja og mannhaturs í afstöðu sinni til Sovétríkjanna. Ég veit af því og furða mig á sumum fáránlegum og sorglegum skoðunum hans: Samt nýt ég þess að lesa pönkið í Bréfi til Láru, ljóðrænuna í Ofvitanum, frásagnargleðina í Ævisögu séra Árna ... ég held meira að segja að það hafi gert mig næmari manneskju en ella að lesa verkin hans Þórbergs, en ég vil sjálfur fá að kljást við stalínismann í verkum hans og mér finnst raunar heillandi umhugsunarefni hvernig alræðishyggjan hjá honum fékk þrifist hjá svo frjálslyndum anda. Í okkur býr alls konar fólk. Það er æviverkefni að kynnast því öllu og þroska það, og beina eiginleikum þess í jákvæðar áttir. Enginn verður betri manneskja af því að vera sniðgenginn.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.