Áfallastreituröskun getur komið í kjölfar alvarlegra áfalla sem fólk verður fyrir. Fólk með áfallastreituröskun reynir að forðast allt sem minnir á áfallið til dæmis hugsanir og tilfinningar tengdar áfallinu, tiltekna staði eða athafnir. Það endurupplifir atburðinn með einum eða öðrum hætti, fær martraðir eða sér hann ljóslifandi fyrir sér. Áfallastreituröskun fylgja oft líkamleg spenna, svefntruflanir, pirringur eða reiði, einbeitingarerfiðleikar, fólk er eilíflega á varðbergi og því bregður auðveldlega. Einnig verður fólk daufara og áhugalausara en það á að sér og á almennt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum (sjá vef Kvíðameðferðarmiðstöðvarinnar).
Áfallastreituröskun viðhaldið vegna umgengi
Meðal þeirra áfalla sem geta komið áfallastreituröskun af stað er heimilisofbeldi og oft fá brotaþolar heimilisofbeldis áfallastreituröskun eftir langvarandi andlegt ofbeldi það er því mikilvægt að staðinn sé vörður um þessa einstaklinga og allt gert til þess að þeir nái heilsu á ný og þeir nái tökum á röskuninni.
Ein af þeim leiðum sem hægt er að beita er nálgunarbann en það er erfitt að fá slíkt fram og skilyrðin eru afar ströng og eiga oft ekki við þegar kemur að langvarandi andlegu ofbeldi sem iðulega er falið og erfitt að færa sönnur á. Einnig eru nálgunarbönn iðulega tímabundin jafnvel bara nokkrar vikur eða mánuðir í senn og því getur ofbeldismaðurinn hæglega haldið áfram sínu striki eins og sjá má á máli Ásdísar Hrannar Viðarsdóttur sem Kastljósið fjallaði um síðasta vetur og hefur aftur komist í fréttirnar núna síðustu vikur.
Eftir standa fjölmargir einstaklingar sem þurfa enn að þola ofbeldi og átroðning af hendi fyrrverandi maka því þó svo að sambúð aðilanna sé lokið heldur ofbeldismaðurinn iðulega áfram að beita hinn aðilann ofbeldi og þekkist það oft að þeir noti börnin sem bitbein. Á Íslandi er meginreglan sú að við skilnað eða sambúðarslit helst sameiginleg forsjá foreldra og regluleg umgengi í boði og á það jafnvel við þótt ofbeldismaðurinn hafi hlotið dóm vegna ofbeldisins.
Að standa í samningum við ofbeldismann sinn
Foreldrar með áfallastreituröskun eftir heimilisofbeldi eru þannig oft skikkaðir til að vera í samskiptum við ofbeldismenn sína þar sem það er á þeirra ábyrgð að uppfylla foreldraskyldur sínar þegar kemur að umgengi barna sinna. Þessi stöðugu samskipti geta verið triggerar fyrir áfallastreituröskunina og með því stuðlað að hægari eða minni bata brotaþolans. Hægt er að fá umgengnisúrskurð hjá sýslumanni, þar sem öll umgengi er skráð skipulega fram í tímann. Meginreglan þegar kemur að úrskurðum um umgengi er sú að aðeins er úrskurðað um umgengni eftir að sáttameðferð hefur verið fullreynd en í sáttameðferð er, í þessum tilvikum, brotaþola ætlað að semja við ofbeldismann sinn um umgengi og annað með milligöngu starfsmanns sýslumannsembættis. Oftast gerist þetta stuttu eftir að sambúð lýkur og brotaþolinn enn í meðferð eða hefur jafnvel ekki enn fengið greiningu. Jafnvel getur farið svo að brotaþoli samþykki eitthvað vegna ótta og hræðslu við ofbeldismanninn og kemur þar vanþekking á réttindum og skyldum oft við sögu, sérstaklega hjá erlendum foreldrum.
Hvað er til ráða?
Margir þeir sem kljást við áfallastreituröskun upplifa það að eitthvað sem minnir á áfallið verður þess valdandi að þeir fara í uppnám, fá einhverskonar kast eða versnandi einkenni tímabundið en slíkt er í daglegu tali kallað að triggerast og það sem kemur uppnáminu af stað triggerar. Með réttri meðferð og meðvitund um röskunina er hægt að fækka þessum skiptum og jafnvel er hægt að ná fullum bata. Slíkt getur verið erfitt þegar stöðugt er verið að ýfa sárin. Í Félagsmálasáttmála Evrópu nr. 3 frá 1976, og Alþingi hefur staðfest sem lög, segir í 11. málsgrein 1. kafla að allir menn eigi rétt á að njóta góðs af hvers kyns ráðstöfunum, er miða að því að tryggja sem best heilsu þeirra. Þetta ákvæði ætti að tryggja foreldrum með áfallastreituröskun ákveðna vernd en gerir það ekki.
Margir, bæði fræðimenn og sérfræðingar á sviðinu, telja að heimilisofbeldismál sé viðkvæmur og sértækur málaflokkur sem lúti ekki sömu lögmálum og ofbeldi milli óskyldra aðila. Mikilvægt er að opna umræðuna um vandann svo hægt sé að finna leiðir til þess að þess að brotaþolarnir fái aukið svigrúm til þess að geta staðið uppi sem sterkari einstaklingar með aukna foreldrahæfni sem skilar af sér hamingjusamari börnum út í samfélagið.