Ekki veit ég hvort Þorsteinn Víglundsson sat við tré og horfði á epli falla til jarðar þegar hann þróaði kenningu sína um þyngdarlögmálið, eins og Newton sjálfur á 18. öld. Hitt veit ég að Þorsteini verður tíðrætt um þyngdarlögmálið þegar hann setur fram skoðanir sínar á málefnum vinnumarkaðar og hefur reyndar líka vitnað í sólmiðjukenninguna til að auka á trúverðugleika skoðana sinna. Með þessu er Þorsteinn að ala á þeir gömlu bábilju að hagfræði sé raunvísindi og hann sé einungis að benda á óbreytileg náttúrulögmál. En staðreyndin er sú – og ætti ekkert að þurfa að árétta það – að hagfræði fjallar um mannlegt samfélag og telst til félagsvísinda. Þær breytur sem eru að verki í hagkerfinu eru allar háðar mannfólkinu og verða ekki með nokkru móti færðar undir grunnhugtök eðlisfræðinnar. Ef það eru til staðar lögmál í hagfræði þá eru þau, ólíkt lögmálum efnisheimsins, sífelldum breytingum undirorpin.
Blóraböggullinn fundinn
Fréttablaðið sló upp stóru viðtali við Þorstein fyrr í vikunni þar sem hann fer mikinn gegn krónunni og fyrir evrunni. Ekki er hann spurður hvernig mögulegri upptöku evru á að vera háttað en það er efni í annan pistil. En inn í þetta fléttar hann narratívu sína um að hin óábyrga verkalýðshreyfing skilji ekki lögmál efnahagslífsins, heimti óhóflegar launahækkanir og fyrir vikið fari verðbólgan stöðugt á flug og Ísland lifi við endalausan gengisóstöðugleika.
Hófsemdina skortir í efri lögum
Reyndin er sú að það sem áður voru álitnar órjúfanlegar tengingarnar milli atvinnuleysis og verðbólgu hafa ekki verið fyrir hendi í góðan áratug. Tengsl launahækkana við framleiðniaukningu segja líka aðeins hálfa söguna. Ef aðeins er litið til framleiðniaukningar næst aldrei fram leiðrétting á því hvernig kökunni er skipt áður en hún stækkar. Barátta launafólks snýr að réttlátri hlutdeild í heildarframleiðslunni og í arði af sameiginlegum auðlindum og fyrir öflugu velferðarkerfi. Þannig er ekki hægt að ræða kjarasamningsbundnar launahækkanir án samhengis við gróða atvinnurekenda og launa- og eignaaukningu í efri lögum samfélagsins. Þeir kjarasamningar sem nú eru í gildi voru hóflegir og miðuðu einkum að því að bæta kjör lægst launuðustu hópanna. Hófsemdina hefur hins vegar algjörlega skort hjá forstjórum og eigendum, ráðherrum og forstöðumönnum. En verðbólga Þorsteins virðist eingöngu viðkvæm fyrir launaleiðréttingum þeirra sem minna hafa á milli handanna.
Norræna vinnumarkaðslíkanið
Að sama skapi er ekki hægt draga á flot norræna vinnumarkaðslíkanið svokallaða en draga úr því eingöngu einn þátt, launamyndun, sem hentar málstaðnum. Kjarasamningsumhverfi Norðurlandanna er ekki einsleitt, heldur myndast af ólíkum stofnunum, lögum og hefðum í hverju landi fyrir sig, enda efnahagslíf og samsetning verðmætasköpunar ólík í löndunum. Þau eiga það þó sameiginlegt að fæðast út úr áratuga uppbyggingu sterkra velferðarkerfa og þar er Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna. Styrkleikar íslensks vinnumarkaðar eru hins vegar umtalsverðir og birtast m.a. í mikilli þekju kjarasamninga, almennri vörn grundvallarréttinda, hárri stéttarfélagsaðild og sveigjanleika.
Samhengi hlutanna
Um alla þessa þætti er sjálfsagt að eiga lifandi og efnisríkt samtal. Inn í það samtal þarf að taka auðlindamál, skattamál, sérhagsmunagæslu, almennan tekju- og eignaójöfnuð í samfélaginu og kjör hinna lægst launuðu sem alla jafna vinna mikilvægustu störfin. Ásökunum um að verkalýðshreyfingin byggi ekki málflutning sinn á gögnum eða staðreyndum er hins vegar vísað til föðurhúsanna. Því raunvísindi Þorsteins eru í reynd hans eigin skoðanir, litaðar af skaðlegri hugmyndafræði og studdar af tilviljanakenndum og stundum úreltum gögnum.
Höfundur er framkvæmdastjóri ASÍ.